Álit Persónuverndar um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum

Út er komið álit Persónuverndar um notkun stjórnmálaflokka á samfélagsmiðlum á árunum 2016 og 2017. Álitið er yfirgripsmikið og inniheldur ítarlega samantekt á því hvernig hérlend stjórnmálasamtök hafa nýtt þá þjónustu sem samfélagsmiðlar bjóða notendum sínum upp á til að koma upplýsingum á framfæri við skráða notendur miðlanna.

Þá er í álitinu að finna leiðbeiningar, tillögur og hugleiðingar um það hvernig best megi tryggja fullnægjandi vernd í tengslum við notkun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar þessari vinnu.

Samfélagsmiðlar hafa þróast ört á undanförnum árum og eru orðnir órjúfanlegur þáttur í starfi stjórnmálasamtaka og annarra félaga. Með breyttri tækni og samskiptamynstri hafa samskipti um stjórnmál flust til í samfélaginu. Samskipti sem áður áttu sér stað á opnum fundum og síðum dagblaða eiga sér nú stað á vettvangi samfélagsmiðla. Líkt og bent er á í áliti Persónuverndar hefur tilkoma miðlanna skapað nýjar áskoranir varðandi meðferð og notkun persónuupplýsinga og er leiðbeiningum og tillögum Persónuverndar ætlað að styðja við mótun verklags hvað varðar virkni og notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum.

Tekið er undir það álit Persónuverndar að mikilvægt sé „að skýrt verklag mótist við notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum til að koma skilaboðum á framfæri við kjósendur.“ Líkt og Persónuvernd bendir á hafa stjórnmálasamtök lögmæta hagsmuni af því að nota persónuupplýsingar um skráða félagsmenn til að beina til þeirra skilaboðum fyrir kosningar og eigi það jafnframt við um að beina auglýsingum og skilaboðum til kjósenda á samfélagsmiðlum fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar samþykkt persónuverndarstefnu sem unnið er eftir. Sú stefna verður endurskoðuð með hliðsjón af áliti Persónuverndar.

Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til hafa sjónarmið um persónuvernd í hávegum í samskiptum sínum við flokksfólk og er reiðubúinn til þess að vinna áfram með Persónuvernd og eftir atvikum löggjafanum að því að móta framtíðarstefnu um það hvernig eðlilegt sé að nota samfélagsmiðla í kosningum.

Álit Persónuverndar í heild sinni má finna hér.