Nú er kominn tími til aðgerða

Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:

Það má með sanni segja að með sam­blandi af rétt­um ákvörðunum, ótrú­leg­um vexti ferðaþjón­ust­unn­ar og al­mennri vel­gengi út­flutn­ings­greina okk­ar hef­ur tek­ist að ná ótrú­leg­um ár­angri í end­ur­reisn ís­lensks sam­fé­lags á nokkr­um árum. Það er ekki til­vilj­un, því grunn­ur­inn er að mestu leyti skyn­sam­leg­ar ákv­arðanir sem tekn­ar hafa verið á hinum póli­tíska vett­vangi. Grósk­an hef­ur verið skyn­sam­lega notuð bæði af fyr­ir­tækj­um og hinu op­in­bera, m.a. með lækk­un skulda og upp­bygg­ingu hag­kvæmra innviða og fjár­fest­inga sem aukið hafa hag­kvæmni rekstr­ar. Þetta ger­ir okk­ur mögu­legt að bregðast við þeim sam­drætti sem birt­ist okk­ur nú um stund­ir.

Við þess­ar aðstæður er mik­il­vægt að taka rétt­ar ákv­arðanir og í raun nauðsyn­legt, því ef við mis­stíg­um okk­ur get­ur það haft al­var­leg­ar af­leiðing­ar fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki sem birt­ast munu í vax­andi erfiðleik­um.

Kjara­mál eru ákveðinn grunn­ur og við verðum að byggja á þeirri víðtæku sátt sem náðst hef­ur með lífs­kjara­samn­ing­um. Ábyrgð allra aðila er mik­il í þeim efn­um og stór­yrt­ar her­ská­ar yf­ir­lýs­ing­ar þjóna eng­um til­gangi í þeirri umræðu. Ef taka á ákveðna hópa út fyr­ir sviga í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir verður það að ger­ast í sátt við heild­ina. Aðstæður bjóða ekki upp á að hver berj­ist í sínu horni. Hags­muni heild­ar­inn­ar verður að setja í for­gang og þeir sem bera hér mesta ábyrgð eru aðilar vinnu­markaðar­ins.

Á vett­vangi stjórn­mál­anna verður að stíga fast en jafn­framt var­lega til jarðar. Við þess­ar aðstæður er mik­il­vægt að send séu skýr skila­boð sem auka munu traust og von þannig að fjár­fest­ing­ar á al­menn­um markaði taki dug­lega við sér. Við erum í ein­stök­um fær­um í þeim efn­um vegna þeirr­ar stefnu sem fylgt hef­ur verið með halla­laus­um rekstri rík­is­ins og upp­greiðslu skulda á und­an­förn­um árum. Til eru stjórn­mála­menn sem við þess­ar aðstæður vilja steypa rík­inu í nýj­ar skuld­ir og má skilja af orðum þeirra að þeir gleymi því að skuld­ir þarf að borga til baka. Slíkt tal er ábyrgðarlaust, sem er svo sem ekki óþekkt á vett­vangi stjórn­mál­anna.

Til­laga for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins um að selja lít­inn hluta af eign­um rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um og nota það fjár­magn til upp­bygg­ing­ar í verðmæt­um innviðum er skyn­sam­leg og áhættu­laus leið í anda þess sem hann hef­ur haft að leiðarljósi í störf­um sín­um sem fjár­málaráðherra. En banki er ekki vara þar sem kaup­end­ur bíða í röðum. Slík sala krefst yf­ir­veg­un­ar og op­inn­ar umræðu til að skapa traust á þeirri leið sem far­in verður. Á sama tíma verða fjár­fest­ing­ar að hefjast á þessu ári og skila sér af full­um þunga á því næsta.

Til að auka traust á þeim aðgerðum sem gripið verður til er nauðsyn­legt að grípa til tíma­bund­inn­ar skuld­setn­ing­ar á grunni þeirra eigna sem sett­ar verða í sölu­ferli. Að mínu mati ger­ist það best með því að sett verði á lagg­irn­ar op­in­bert fyr­ir­tæki sem fái af­salað hluta­bréf­um í Íslands­banka sem á sama tíma verði sett í sölu­ferli. Því fyr­ir­tæki verði gert að fjár­magna þær millj­arðafram­kvæmd­ir, til viðbót­ar þeim sem þegar liggja fyr­ir og nauðsyn­legt er að farið verði í strax. Jafn­framt verði fyr­ir­tæk­inu heim­ilað að efna til lán­töku meðan á sölu­ferli stend­ur.

Þau verk­efni sem verður að horfa til við þessa viðbótar­fjármögn­un eiga fyrst og fremst að vera verk­efni sem aug­ljós­lega skila sem mest­um arði fyr­ir sam­fé­lagið. Þar eru verk­efni tengd sam­göngu­áætlun aug­ljós, verk­efni við vega­kerfi, hafn­ar­bæt­ur og flug­velli. Sama hvernig á það er litið, þá eru fá ef nokk­ur verk­efni sem stuðla eins mikið að aukn­um hag­vexti til skemmri og lengri tíma litið.

Nú á að sýna kjark, áræði og frum­kvæði. Formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur kynnt ábyrga og ör­ugga leið í þeim efn­um. Grund­vall­ar­atriði er að sölu­ferli á fjár­mála­fyr­ir­tæki í eigu rík­is­ins sé opið og leiðin vörðuð þeim mark­miðum að um það ná­ist víðtæk samstaða. Það er hægt.

Nú er kom­inn tími til aðgerða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars 2020.