Er gagn að Keynes í samtímanum?

Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:

Hagsveiflur eru ekki uppfinning nútímans. Þannig segir frá því í 1. Mósebók að faraó réð drauma um hagsveiflur. Frásögnin er þannig:

„Að tveim árum liðnum dreymdi faraó að hann stæði við Níl og að upp úr ánni kæmu sjö fallegar og vel aldar kýr sem fóru að bíta sefgresið. Á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar og horaðar. Þær staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. Síðan átu ljótu og horuðu kýrnar upp sjö fallegu og vel öldu kýrnar. Þá vaknaði faraó.

Hann sofnaði aftur og dreymdi annan draum þar sem sjö öx uxu á einni stöng, þrýstin og væn. Á eftir þeim spruttu sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi. Grönnu öxin svelgdu í sig þrýstnu og fullu öxin sjö. Þá vaknaði faraó og varð ljóst að þetta hafði verið draumur.“

Nú er svo komið að hagkerfið Ísland stendur á nokkrum tímamótum. Nokkur góðæri hafa gengið yfir, sennilega lengra tímabil en sjö ár í draumi faraós. Það er nokkur munur á nú og þá hvernig tekist er á við hagsveiflur.

Tveir armar ríkisvaldsins taka á hagsveiflum. Stundum er það svo að hagsveiflur magnast vegna aðgerða ríkisvaldsins. Fjárveitingavaldið með fjármálaráðherra sem málsvara og seðlabanki með sinn bankastjóra geta verið mjög gagnleg til að leysa úr hagsveiflu, sérstaklega ef báðir toga í sömu átt. John Maynard Keynes fjallaði um hlutverk ríkisvaldsins í hagsveiflum. Meðal tækja í vopnabúri ríkisins til að takast á við hagstjórn er að auka ríkisútgjöld á samdráttartímum þótt það leiði til hallarekstrar ríkissjóðs. Stundum kann að haga svo til að aðeins sé gengið á fyrningar fyrri góðærisára þar sem hagstjórn hefur verið með ábyrgum hætti.

Misheppnuðustu hagstjórnaraðgerðir á síðustu öld voru sennilega grjótvinna og einangrunarstefna. Lög um bann á innflutningi á óþarfa og áfengisbann eru til vitnis um það. Ráðamenn dóu úr afleiðingum ofdrykkju á bannárunum.

Einangrunarstefna hélt Íslendingum lengur í kreppu en öðrum þjóðum. Frjáls viðskipti hafa verið grundvöllur efnahagslegra framfara síðustu 30 ár.

Markmið seðlabanka

Nokkuð víst má telja að það verður vond hagstjórn ef seðlabanki fer í það að tryggja fulla atvinnu eða auka nýtingu annarra framleiðsluþátta. Seðlabankar eiga nóg með stöðugt verðlag og að tryggja fjármálastöðugleika. Markmið um stöðugt gengi auk stöðugs verðlags með vaxtamun við útlönd gefur tækifæri til áhættulausra vaxtamunaviðskipta.

Markmið ríkissjóðs

Ríkissjóður hefur það markmið að tryggja velferð þegnanna. Leiðir að því markmiði eru deiluefni stjórnmála. Fyrir utan rekstur ríkisvaldsins, Alþingis og dómstóla, leggjast kröfur á ríkisvaldið um að veita þjónustu, eins og heilbrigðisþjónustu, byggja innviði og að tryggja þegnum lágmarkslífeyri.

Hlutverk ríkisvaldsins er og verður að tryggja velferð þeirra sem minnst mega sín. Löggjafarvaldið leggur einnig skyldur á landsmenn að tryggja velferð sína eftir að starfsævi lýkur með aðild að lífeyrissjóðum.

Nokkrir þessara liða geta aldrei verið sveiflukenndir, svo sem eins og heilbrigðisþjónusta og rekstur dómstóla. Á móti getur uppbygging vega og annarra samgöngumannvirkja verið sveiflukennd. Þá liði má nota til sveiflujöfnunar og takast þannig á við drauma faraós.

Fjármagn í hagsveiflu

Margt er skrýtið við kýrnar. Þannig er að menjar Íbúðalánasjóðs búa við gnótt fjár sem enginn vill taka að láni en Íbúðalánasjóður getur ekki greitt af sínum lánum fyrr en á gjalddaga.

Þessi gnótt er í innlánum í fjármálastofnunum á lágum vöxtum en lán sem Íbúðalánasjóður hefur tekið eru á háum vöxtum. Þessi vaxtamunur fellur á íslenska ríkið í fyllingu tímans.

Eins og nú stendur á er það athugunar virði að ríkissjóður taki þessa gnótt fjár yfir og noti til arðbærra innviðaframkvæmda. Innviðaframkvæmdir standa ekki og falla með sölu banka.

Ríkissjóður er nú þegar með þessa skuldbindingu yfirvofandi. Gjaldfærsla vaxta af þessari gnótt verður með tvennum hætti; markaðsvextir verði færðir eins og um venjulega lántöku sé að ræða, en það sem umfram er færist til gjalda sem stjórnunarmistök í Íbúðalánasjóði. Þá er ekki verið að fela neitt.

Það er útbreiddur misskilningur að rekstur ríkissjóðs sé alfarið eins og rekstur fyrirtækis. Þá ber einnig að taka tillit til þess að innviðaframkvæmdir eru um margt eins og uppbygging fastafjármuna fyrirtækis, sem eru eignfærðir og gjaldfærðir sem afskriftir yfir æviskeið fjármunanna á mörgum árum.

Til þess að jafna sveiflur hefur ríkissjóður getu til að taka lán. Það er munur á lántökum til að standa undir rekstrarhalla og lántökum til framkvæmda sem skila ávinningi í framtíðinni.

Kostnaður og ábati og önnur markmið

Hagsveiflujöfnun er ekki atvinnubótavinna í grjótinu, eins og Ólafur Kárason, Ljósvíkingur og skáld, starfaði við. Opinberar framkvæmdir hafa verið metnar með tilliti til kostnaðar og ábata. Því miður er það svo, að sá ábati er sjaldan verðlagður fyrir neytendur. Það var þó gert við gerð Hvalfjarðarganga. Það er einnig gert í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Þjónusta sem þar er innt af hendi er verðlögð á kostnaðarverði auk arðsemi fyrir eiganda flugstöðvarinnar. Arðsemi af kostnaði við stækkun til að mæta spám um aukinn farþegafjölda er vel reiknanleg.

Það er erfiðara að meta ábata af því að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 en þann ábata sem er af styttingu þjóðvegar 1 um Hvalfjörð með göngunum.

Það liggja verðmæti í lánstrausti. Þau verðmæti má nýta að gagni í samdrætti. Vandamálið er það að óreiðumenn í stjórnmálum telja að það beri að nota lánstraustið í góðmennskuköstum. Góðverk eru sjaldan til ábata.

Mistök í hagstjórn

Það er auðvelt að vera vitur eftir á þegar allar upplýsingar liggja fyrir. Sennilega voru það mistök að fresta framkvæmdum við nýjan Landspítala árið 2008. Sennilega á það sama við um Hús íslenskunnar.

Á þeim tíma trúðu allir því að allt væri að fara veg allrar veraldar því enginn vissi hvernig átti að leysa upp þrotabú hinna föllnu banka.

Af þrotabúunum stafaði yfirvofandi greiðslujafnaðarvandi. Á móti voru greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þær voru beint í hafið.

Framkvæmdir við Landspítala eru í fyrstu aðallega innlendur kostnaður. Dýr tækjabúnaður fellur til á síðari hluta framkvæmdatímans og kemur fram í greiðslujöfnuði. Sennilega á svipað við um Hús íslenskunnar.

Tillögur að framkvæmdum og mat á þeim eiga að vera til í vörslu stjórnarráðsins og tiltækar á hverjum tíma.

Kemur Keynes að gagni?

Það er hagstjórn þegar aldrei kemur neitt á óvart. Það kann að vera að Keynes komi að gagni þegar horft er til opinberra framkvæmda til að takast á við hugsanlegan samdrátt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2020.