Braggast borgin?

Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:

Úttekt Borg­ar­skjala­safns Reykja­vík­ur á bragga­mál­inu staðfest­ir að lög voru brot­in. Þar kem­ur einnig í ljós að reynt var að fela skjöl og upp­lýs­ing­ar fyr­ir fjöl­miðlum og kjörn­um full­trú­um. Tölvu­póst­um var eytt án þess að skjöl væru vistuð. Í skýrsl­unni er „tekið fram að mis­brest­ir í skjala­vörslu og skjala­stjórn hjá SEA eru ekki eins­dæmi hjá starf­sein­ing­um Reykja­vík­ur­borg­ar. Niðurstaða skýrslu Borg­ar­skjala­safns um skjala­stjórn og skjala­vörslu hjá Reykja­vík­ur­borg frá 2018 sýndi að minni­hluti af­hend­ing­ar­skyldra aðila upp­fyllti laga­skil­yrði í þess­um efn­um.“ Með öðrum orðum; skjala­varsla vegna bragg­ans var ekki eins­dæmi eða „frá­vik“.

Varað ít­rekað við

Þessi skýrsla kem­ur ári eft­ir að svört skýrsla innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar var birt. Báðar þess­ar eft­ir­lits­stofn­an­ir borg­ar­inn­ar höfðu varað við. Sér­stök skýrsla innri end­ur­skoðunar um SEA sem heyrði und­ir skrif­stofu borg­ar­stjóra birt­ist árið 2015. Þar voru þrjá­tíu ábend­ing­ar en aðeins sex þess­ara atriða voru kom­in í lag fjór­um árum síðar. Þá hafði Borg­ar­skjala­safnið varað við í skýrslu í októ­ber 2018, en þar kom fram að ástand skjala­vörslu hefði al­mennt versnað hjá borg­inni á fjór­um árum. Tvær eft­ir­lits­stofn­an­ir vara við, en ekki var brugðist við. Á sama tíma var SEA með ýmis þró­un­ar­verk­efni og var eitt þeirra bragg­inn í Naut­hóls­vík. Þá vakti full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í inn­kauparáði at­hygli á mál­inu og óskaði ít­rekað eft­ir skýr­ing­um. Þær feng­ust afar seint. Nú þegar staðfest er að lög hafa verið brot­in er rétt að farið verði ít­ar­lega yfir þessi atriði af rétt­bær­um aðilum. Yf­ir­ferð borg­ar­lög­manns mun litlu bæta við nema hann vísi mál­inu áfram.

Braggi borg­ar­stjóra

Borg­ar­stjóri ber hins veg­ar marg­falda ábyrgð í þessu máli. Hann er fram­kvæmda­stjóri sveit­ar­fé­lags­ins. SEA heyrði und­ir skrif­stofu borg­ar­stjóra, sem var í beinu sam­bandi vegna verk­efn­anna. Skjala­varsl­an var líka á ábyrgðarsviði skrif­stofu borg­ar­stjóra. En hann er líka póli­tísk­ur odd­viti meiri­hlut­ans og ber því ábyrgð sem slík­ur. Marg­ur fyr­ir minni sak­ir vík­ur. Á meðan þessi meiri­hluti starfar áfram er von á að fátt breyt­ist í raun. Fram­kvæmda­stjóri Fé­lags­bú­staða hætti eft­ir að sú stofn­un fór sér að voða í fram­kvæmd­um. Skrif­stofu­stjóri SEA hætti og tók á sig sök í bragga­mál­inu. Fram­kvæmda­stjóri SORPU, dótt­ur­fé­lags borg­ar­inn­ar, hef­ur verið lát­inn fara vegna framúr­keyrslu fé­lags­ins. Allt er þetta á sömu bók­ina lært. Allt er þetta und­ir stjórn sama meiri­hluta í borg­ar­stjórn. Und­ir stjórn sama borg­ar­stjór­ans í ráðhús­inu.

Greinin birtist i Morgunblaðinu 21. febrúar 2020.