Staðreyndir um stór orð

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

„Grafarvogurinn er kannski ekki alveg jafn vel heppnaður að mínu mati og Grafarholtið, þar sem það er í rauninni bara alger einangrun þar þú átt bara að sitja í bílnum þínum einn helst og búa í þínu risa stóra einbýlishúsi og þar er rosalega lítið hugsað um þessi félagslegu samskipti“ sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í þættinum Flakk með Lísu Páls á Rás 1. Orð formanns skipulagsráðs Reykjavíkur hafa mikið vægi og því slær það mann að heyra hana tala þannig um skipulag Reykjavíkurborgar. Það að formaður skipalagsráðs tali niður tvö hverfi Reykjavíkurborgar með þessum hætti er óskiljanlegt.  Þetta er þó því miður ekki einsdæmi því í borgarstjórn þann 21. janúar lét borgarfulltrúi Hjálmar Sveinsson þau orð falla að á Kjalarnesi og Geldinganesi sem er hluti af Grafarvogi : “Þar sem hvorki kindur, hestar né kýr hafa einu sinni viljað vera á beit“ sagði hann um Geldinganes í kjölfar orðræðu um að hverfin væru „ekki frábærir staðir til að búa á“.  Það er sárt að hlusta á borgarfulltrúa tala niður hverfi og hugsanlega byggingareiti með þessum hætti.

Þjónustuskerðingar í úthverfum

Það er rétt að upplýsa að í Grafarvogi og Grafarholti blómstrar mannlífið og félagsleg samskipti, þrátt fyrir kerfisbundnar þjónustuskerðingar, sem við höfum orðið fyrir frá meirihlutanum í Reykjavík. Í þessum hverfum hefur meirihlutinn minnkað tíðni strætó yfir sumartímann, hér er verið að sameina skóla/leikskóla reglulega með tilheyrandi raski, hér á í fyrst sinn að loka grunnskóla í Reykjavík. Þrátt fyrir gríðarleg mótmæli íbúa og fjölda undirskrifta um það að hætta við þessi áform. Bent hefur verið á að með þeirri ákvörðun sé verið að brjóta á núverandi skipulagi hverfisins. Hverfi án grunnskóla verður til án þess að nemendur komist greiðlega með strætó þá 3 km sem eru í þeirra (nýja) hverfisskóla. Þó að okkur sé vegið bæði með þjónustuskerðingum og niðurrifstali þá blómstra hér félagsleg samskipti.

Grafarvogur

Við sem búum í Grafarvogi vitum að Grafarvogur er samsettur úr átta hverfum sem eru misjöfn og mis þétt. Hér erum við líka eins misjöfn eins og við erum mörg, sumir nýta sér strætó eða hjóla á meðan aðrir ferðast um á fjölskyldubílnum. Hér lifum við í miklu návígi við náttúruna sem og við hvert annað enda einstaklega góð félagsleg samskipti á milli okkar sem hér búa. Hér höfum við Egilshöllina, hún fær 1,4 milljónir heimsókna á ári. Reyndar er hverfið okkar það þétt byggt að hér hafa borgaryfirvöld skipulagt að borgarlína muni ganga. Þetta ætti formaður skipulags og samgönguráðs að vita.

Einsleitni og alræði

Í Reykjavíkurborg á að  vera pláss fyrir alla. Hér viljum við hafa val og frelsi til þess að búa eins og við viljum þar sem viljum. Einsleitni og alræði er aldrei af hinu góða.  Við erum ekki öll steypt í sama mótið og því eru þarfir okkar ólíkar. Það er því mikilvægt að hafa borgarskipulagið sem fjölbreyttast líkt og það hefur verið í Reykjavík og það er nákvæmlega það sem gerir Reykjavík og hverfin svona skemmtileg og lifandi. þetta vitum við sem eigum heima í úthverfunum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2020.