Leikið á strengi sósíalismans

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hafa full­orðins­ár­in

valdið von­brigðum?

Kjóstu mig og ég mun borga þér

Þú þarft ekki að þrosk­ast, satt er það

All­ir þínir reikn­ing­ar verða greidd­ir

Full­orðins­ár­un­um frestað,

og ég mun gefa þér alla þessa pen­inga

Alla þessa pen­inga

þú færð frá Jóa

Alla þessa pen­inga

ef ég næ kosn­ingu

Laun­in þín hækka

All­ar skuld­ir niður falla

Leik­skóla­gjöld­in greidd

Fæðing­ar­or­lofið frítt þér veitt

Gefðu mér þitt at­kvæði

og ég mun gefa þér alla þessa pen­inga

Alla pen­ing­ana hans Jóa

ég mun færa þér

Alla pen­ing­ana hans Jóa

ef ég næ kjöri

Þannig syng­ur banda­ríski háðfugl­inn og söngv­ar­inn Remy Munasi­fi og sæk­ir lag úr smiðju Bítl­anna; All My Loving. Remy er hæfi­leika­rík­ur tón­list­armaður og flug­beitt­ur í þjóðfé­lagádeilu sinni. Hann ger­ir grín að póli­tísk­um rétt­trúnaði, hæðist að valda­stétt­um, gef­ur ekk­ert fyr­ir for­rétt­inda­hópa og hef­ur stjórn­mála­menn stórra lof­orða að háði og spotti. Eins og text­inn (sem ég snaraði að hluta yfir á ís­lensku) ber með sér er Remy frjáls­hyggjumaður. Re­públi­kan­ar eru ekki óhultir en demó­krat­ar eru yf­ir­leitt betri upp­spretta, ekki síst nú þegar tek­ist á um hver skuli verða for­setafram­bjóðandi þeirra í kosn­ing­um í nóv­em­ber næst­kom­andi.

Sósí­alist­inn Sand­ers

Það er alltaf fróðlegt að fylgj­ast með banda­rísk­um stjórn­mál­um. Oft bein­ist at­hygli mín meira að re­públi­kön­um en á stund­um er for­vitni­legra og skemmti­legra að huga að demó­kröt­um. Eft­ir for­val í tveim­ur ríkj­um stend­ur sósí­alist­inn Bernie Sand­ers best að vígi og það er ekki síst að hon­um sem Remy bein­ir spjót­um sín­um. Um Sand­ers er sagt að hann lofi dönsku vel­ferðar­kerfi með því að inn­leiða efna­hags­stefnu sósí­al­ista í Venesúela. En hvað sem segja má um Sand­ers er ljóst að hann er maður sann­fær­ing­ar og heill­ar marga kjós­end­ur, ekki síst þá yngri.

Í Banda­ríkj­un­um líkt og svo víða í Evr­ópu hef­ur fennt yfir sög­una. Hung­urs­neyðir, fanga­búðir og millj­ón­ir fórn­ar­lamba sósíal­ískra til­rauna hafa litla þýðingu í hug­um stórs hluta íbúa lýðræðis­ríkja vest­an hafs og aust­an. Þrátt fyr­ir blóði drifna sögu lif­ir í glæðum sósí­al­ism­ans.

Auðvitað er lang­ur veg­ur eft­ir fyr­ir Sand­ers að tryggja sér út­nefn­ingu demó­krata, en hann stend­ur vel að vígi og meðaltal allra skoðanakann­ana gef­ur til kynna að hann hafi for­ystu yfir landið allt.

Átta fram­bjóðend­ur standa eft­ir hjá demó­kröt­um. Í upp­hafi voru von­biðlarn­ir nær 30 tals­ins. John Dela­ney, fyrr­ver­andi full­trúa­deild­arþingmaður, reið á vaðið sum­arið 2017 og nokkru síðar til­kynnti Andrew Yang, lög­fræðing­ur og frum­kvöðull, fram­boð sitt. Dela­ney hætti í byrj­un árs og Yang gafst upp eft­ir for­kosn­ing­ar í Iowa og New Hamps­hire. Aðrir höfðu ekki sama út­haldið.

Eft­ir standa átta fram­bjóðend­ur sem kepp­ast um að sann­færa sam­flokks­menn sína um að þeir séu lík­leg­ast­ir til að fella Don­ald Trump úr for­seta­stóli. Fáa „hata“ demó­krat­ar meira en Trump.

Auðkýf­ing­ur­inn Michael Bloom­berg mætti síðast­ur til leiks og raun­ar alls ekki í Iowa og New Hamps­hire. Þessi fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri New York og stofn­andi Bloom­berg-upp­lýs­inga­veit­unn­ar ætl­ar að leggja keppi­naut­ana að velli á Stóra þriðju­deg­in­um (3. mars) þegar for­val fer fram í 14 ríkj­um, þar af í tveim­ur af fjöl­menn­ustu ríkj­un­um; Kali­forn­íu og Texas. Bloom­berg hef­ur lýst því yfir að hann fjár­magni kosn­inga­bar­átt­una úr eig­in vasa og hef­ur þegar varið um 350 millj­ón­um doll­ara í aug­lýs­ing­ar. Hann hef­ur verið sakaður, af eig­in flokks­mönn­um, um að ætla að „kaupa“ kosn­ing­arn­ar.

Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seti Barack Obama, var lengi vel tal­inn ör­ugg­ur um að verða val­inn for­seta­efni. Allt síðasta ár hafði hann góða for­ystu, utan nokk­urra daga í októ­ber þegar El­iza­beth War­ren öld­unga­deild­arþing­kona tók fram úr hon­um. Allt frá þeim tíma hef­ur War­ren horft upp á stöðugt minnk­andi fylgi. Hún hef­ur verið í óform­legri keppni við Sand­ers um hvort þeirra sé meira til vinstri. Og vara­for­set­inn fyrr­ver­andi hef­ur misst vind­inn úr segl­un­um. Meðaltal skoðanakann­ana sýn­ir að Biden hef­ur misst yfir 10 pró­sentu­stig frá því í janú­ar og yfir 20 pró­sentu­stig frá maí á síðasta ári þegar staðan hans var sterk­ust. Ögur­stund Bidens verður 3. mars.

Ald­ur af­stæður

Fyr­ir þá sem telja að ald­ur sé af­stæður – í stjórn­mál­um og á öðrum sviðum – er á marg­an hátt gott að horfa yfir þann átta manna hóp sem eft­ir stend­ur í for­vali demó­krata:

• Meðal­ald­ur fram­bjóðenda er liðlega 62 ár.

• Fjór­ir fram­bjóðend­anna eru 70 ára eða eldri.

• Einn er yfir sex­tugu.

• Einn á eitt ár í sex­tugt.

• Tveir eru 38 ára.

• Þeir fram­bjóðend­ur sem njóta mests stuðnings á land­vísu eru all­ir yfir sjö­tugu.

Það eru því all­ar lík­ur á því að í nóv­em­ber næst­kom­andi verði keppi­naut­ar um for­seta­embætti Banda­ríkj­anna – valda­mesta embætti heims – komn­ir vel á eft­ir­launa­ald­ur­inn. Don­ald Trump fagn­ar 74 ára af­mæli í júní næst­kom­andi. (Kannski minn­ir þetta okk­ur Íslend­inga á hversu frá­leitt það er að neyða fólk sem hef­ur vilja og getu út af vinnu­markaði).

En svo kann að vera að Pete Buttigieg, 38 ára gam­all fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri South Bend í Indí­ana (svipuð og Reykja­vík), nái að velgja gamla liðinu und­ir ugg­um. Hann hef­ur þegar vakið at­hygli og gef­ur ár­ang­ur hans í fyrstu for­kosn­ing­un­um til­efni til að fylgj­ast vel með hon­um. Þótt á bratt­ann sé að sækja og lík­ur litl­ar á að hann verði for­seta­efni að þessu sinni á hann framtíðina fyr­ir sér. Fyrr­ver­andi hermaður, sam­kyn­hneigður og hóf­sam­ur a.m.k. í sam­an­b­urði við Sand­ers og War­ren.

Kannski nær Biden sér á strik á Stóra Þriðju­deg­in­um. Ef til vill dug­ar Bloom­berg-auður­inn til að verða for­seta­efni. En miðað við stöðuna nú stend­ur sá sem leik­ur á strengi sósí­al­ism­ans og lof­ar að gefa kjós­end­um „alla pen­ing­ana hans Jóa“ best að vígi.

Hvernig frjór jarðveg­ur fyr­ir sósí­al­isma varð til í Banda­ríkj­un­um er önn­ur saga. Kannski sú sama og er að baki kosn­inga­sigri Don­alds Trumps fyr­ir tæp­um fjór­um árum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2020.