Rétt og satt í Reykjavík

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Ég hef lengi látið það fara í taugarnar á mér hversu frjálslega borgaryfirvöld fara með sannleikann.  Á fundi borgarstjórnar fyrir skömmu var húsnæðisstefna borgarinnar rædd. Þar fór meirihlutinn fjálglega yfir meintan árangur af sinni stefnu. Ekki hafa margir fundist til að taka undir þann meinta árangur, frekar er að flestir séu þeirra skoðunar að húsnæðisstefna meirihlutans sé skaðvaldur, sérstaklega fyrir ungt fólk og tekjulágt í borginni.

Tölurnar tala sínu máli

Raup um að árangurinn sé staðfestur með tölum um að aldrei hafi borgarbúum fjölgað eins mikið á einu ári frá 1964 verður marklaust, þegar tölur um íbúaþróun eru skoðaðar af skynsemi og raunsæi. Frá 1964?  Var einhver að spá í það? Er bara verið að snúa út úr og afvegaleiða umræðuna?  Eins og við þekkjum því miður svo vel í umræðum í borgarstjórnarsalnum. Aðalatriðið er hins vegar það að tölurnar um íbúaþróun síðustu ára segja í raun allt aðra sögu.  Fjölgun í Reykjavík er minni, miklu minni en í flestum, ef ekki öllum sveitarfélögum á suðvesturhorninu. Þangað sem unga fólkið flytur, í hagkvæmt og ódýrt húsnæði sem hentar þeim vel. Tölurnar má finna á heimasíðu Hagstofunnar.  Ætti það ekki að vera kjarni málsins og áhyggjuefni fyrir borgaryfirvöld? Allavega viðfangsefnið.

Ekkert hlustað

Nú er verið að taka til afgreiðslu skipulag Sjómannaskólareitsins svokallaða. Þar hafa borgaryfirvöld talað jafn fjálglega um íbúasamráð og breiða sátt í málinu.  Að tekið hafi verið tillit til athugasemda íbúa og brugðist við áhyggjum þeirra. Um ósamræmi í hverfisásýnd, ágangi að grænum svæðum, skertu andrými bygginga sem eru kennileiti hverfisins og borgarinnar allrar, minkandi umferðaröryggi barna og aðstöðuleysi í skólum.

Það er ekki upplifun íbúa í hverfinu og þeir taka ekki undir með fréttatilkynningunum.  Af hverju er þá verið að halda því fram að samráð hafi verið haft?  Hver er tilgangurinn? Er hann einhverjum til gagns?

Athugasemdir og ábendingar íbúa fá lítinn sem engan hljómgrunn.  Hins vegar hefur borgin neyðst til að láta undan kröfum frá opinberum aðilum sem láta sig málið varða, þess vegna var skipulagið lagfært lítillega.  Ríkið vill ekki skerða lóð Sjómannaskólans, Minjastofnun vill ekki skerða ásýnd skólans og Borgarsögusafnið vill ekki skerða hverfisvernd á svæðinu. Það er gott að meirihlutinn skuli taka einhverjum sönsum.  En vont þegar lítið eða ekkert er hlustað á áhyggjur borgarbúa, sérstaklega þegar mikið og fjálglega er talað um íbúasamráð og íbúalýðræði.

Unga fólkið velur ekki dýrt

Svör borgarinnar við áhyggjum nágranna eru að íbúðirnar séu í samræmi við húsnæðisstefnu hennar og eigi að vera fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.  Samt kemur fram að meðatalsfermetraverð íbúðanna verði með því hæsta sem þekkist.  Er það líklegt að ungir og tekjulágir borgarbúar bíði í eftirvæntingu eftir að ráðast í slík kaup?  Varla.  En af hverju er þá verið að halda því fram?  Unga fólkið velur sjaldnast dýrasta kostinn. Það velur frekar aðra kosti eins og tölurnar frá Hagstofunni sýna.

Þeir eru fáir sem trúa því að borgaryfirvöld séu á réttri leið með húsnæðisstefnu sinni.  Þeim á ekki eftir að fjölga þegar gripið er til útúrsnúninga og umræðan er afvegaleidd, né heldur þegar skoðaðar eru tölurnar um íbúaþróun á suðvesturhorni landsins.

Betur fer á því að halda sig við það sem er rétt og satt.  Og bregðast við af raunsæi og skynsemi.  Þá gengur okkur betur að mæta þörfum borgarbúa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2020.