Skrifum undir – verjum Elliðaárdalinn

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Elliðaár­dal­ur­inn er eitt víðfeðmasta og vin­sæl­asta úti­vist­ar­svæði borg­ar­inn­ar. Hann býður upp á skjól­sæld, gróður­sæld og víðfemt og fjöl­breyti­legt skóg­lendi, um­merki um stór­brotna jarðsögu, laxveiðiá í miðri borg, er vett­vang­ur ör­lagaþrung­inna at­b­urða og hef­ur að geyma ýms­ar sögu­leg­ar minj­ar. Þar er elsta og merk­asta sögu­safn Reykja­vík­ur, Árbæj­arsafnið, sem er einu minj­ar borg­ar­inn­ar um hí­býli og bú­skap­ar­hætti á tím­um gömlu torf­bæj­anna.

Auk þess eru þar gaml­ir stein­bæ­ir og sögu­fræg timb­ur­hús frá 19. ald­ar bygg­ing­ar­sögu Reykja­vík­ur. Í daln­um er auk alls þessa að finna Raf­veitusafnið og elstu stór­virkj­un Íslands­sög­unn­ar.

Ósann­indi um friðun

Hingað til hef­ur þessi grein verið upp­taln­ing á staðreynd­um, ekki mats­atriðum. En nú ætla ég að leggja það mat á þess­ar staðreynd­ir að Elliðaár­dal­inn hefði átt að friða fyr­ir löngu. Þegar því máli var hreyft á síðasta ári héldu nokkr­ir mál­svar­ar nú­ver­andi borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluta því fram að ekki þyrfti að friða dal­inn því hann væri friðaður. Þetta er alrangt. Hverf­is­vernd í deili­skipu­lagi er ekki friðlýs­ing. Friðlýs­ing bygg­ist á nátt­úru­vernd­ar­lög­um og er unn­in í sam­vinnu við um­hverf­is­ráðuneyti.

Hvers vegna vilja sum­ir friðlýsa Elliðaár­dal­inn og hvers vegna vilja aðrir slá ryki í augu borg­ar­búa með ósann­ind­um um að dal­ur­inn sé friðaður?

Jú, þeir sem vilja friðlýsa dal­inn vilja vernda hann fyr­ir ágangi nýrra bygg­inga og um­ferðar. Það yrði óaft­ur­kræft um­hverf­is­slys ef gengið yrði á dal­inn með um­fangs­mikl­um bygg­ing­um með til­heyr­andi hávaða- og ljósam­eng­un.

Hvers vegna ósann­indi?

Þeir sem segja hér ósatt vilja hins veg­ar vernda nú­ver­andi borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluta og ákv­arðanir hans um að selja einkaaðila lóð und­ir 12.500 fer­metra mann­virki sem eiga að verða gróður­hvelf­ing­ar og veit­ing­a­rekst­ur. Þar er gert ráð fyr­ir bygg­ing­um að grunn­fleti 4.500 fer­metr­ar. Auk þess­ar­ar lóðar ætl­ar meiri­hlut­inn að út­hluta þrem­ur öðrum lóðum und­ir ým­iss kon­ar starf­semi á svæðinu og bíla­stæði fyr­ir hundruð öku­tækja. Ekki er ljóst hvort lóðaverðið kem­ur til með að svara kostnaði borg­ar­inn­ar við að gera svæðið lóðar­hæft og mál­svar­ar meiri­hlut­ans hafa viður­kennt að þeir hafi ekki hug­mynd um það hver á end­an­um ætli að fjár­magna þetta tröllaukna túrista­fyr­ir­tæki. Svona er staðan og svo­lítið hæp­in fyr­ir þá sem reyndu að telja okk­ur trú um þau ósann­indi að dal­ur­inn væri friðaður.

Farið gegn fagaðilum í um­hverf­is­mál­um

Í nóv­em­ber sl. breytti borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn deili­skipu­lagi norðan Stekkj­ar­bakka til að upp­fylla vil­yrði fyr­ir fyrr­nefnd­um stór­fram­kvæmd­um á svæðinu. Auk þess felldi borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn til­lögu minni­hlut­ans um að Reyk­vík­ing­ar fengju að verja dal­inn sinn með al­menn­um kosn­ing­um um þessa skipu­lags­breyt­ingu. Um­verf­is­stofa rík­is­ins hef­ur mælst gegn þess­ari aðför að daln­um með marg­vís­leg­um rök­semd­um. Tryggvi Felix­son, formaður Land­vernd­ar, hef­ur eft­ir­far­andi að segja um aðför­ina að daln­um: „Stjórn Land­vernd­ar tel­ur að með þeim breyt­ing­um sem áformaðar eru sé verið að ganga á afar vin­sælt og skjól­sælt úti­vist­ar­svæði með fjöl­breyttu líf­ríki og áhuga­verðum menn­ing­ar­minj­um.“ Minni­hlut­inn í borg­ar­stjórn leggst al­farið gegn þess­um áform­um og Holl­vina­sam­tök Elliðaár­dals­ins berj­ast nú hetju­legri bar­áttu gegn þess­um áform­um, með und­ir­skrifta­söfn­un meðal borg­ar­búa.

Verj­um Elliðaár­dal­inn

Kæru Reyk­vík­ing­ar! Með þetta í huga hvet ég ykk­ur öll til að taka þátt í und­ir­skrifta­söfn­un Holl­vina­sam­taka Elliðaár­dals­ins og leggj­ast þannig á sveif með þeim sem vilja vernda dal­inn gegn óá­byrgu nátt­úru­spill­andi og menn­ing­arspill­andi gróðafyr­ir­tæki borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­ans og óþekktra auðjöfra þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2020.