Sjöundi dagur hringferðar á Suðurlandi

Hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur gengið vonum framar og þingmennirnir greinilega sloppið með skrekkinn í ljósi eldrauðra veðurviðvarana.

Frá Höfn í Hornafirði, þar sem vinnustaðaheimsóknir fóru fram í gær, hélt hópurinn í vesturátt og átti góða fundi bæði á Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal þar sem rætt var um ferðaþjónustu, ekki síst í tengslum við lítil og meðalstór fyrirtæki. Mikil gróska er í ferðaþjónustunni í Suðurkjördæmi og myndarlega staðið að rekstrinum. Þetta kom til að mynda glögglega í ljós í heimsókn þingmannanna í fyrirtæki á Hellu og Hvolsvelli og skemmtilegt að sjá hvað hugmyndaflugið hafði víða fengið lausan tauminn.

Í þessum fyrsta legg hringferðar heimsóttu þingmenn um 30 byggðarlög og staði og um það bil 100 fyrirtæki. Hringferð er þó hvergi nærri lokið þótt rútan sé komin aftur til Reykjavíkur. Í morgun fóru þingmenn í vinnustaðaheimsóknir í höfuðborginni en fleiri sveitarfélög og fyrirtæki verða heimsótt á næstu vikum og mánuðum.