Ákall og aðgerðir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Sér­stakt ákall um aðgerðir gegn of­beldi í nán­um sam­bönd­um var samþykkt á fundi Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD) á fundi stofn­un­ar­inn­ar í Par­ís í síðustu viku. Átján aðild­ar­ríki standa að ákall­inu, þar á meðal Ísland.

Ég sat í pall­borði á fund­in­um og greindi þar meðal ann­ars frá breyttu verklagi lög­reglu á Íslandi, mik­il­vægi þess að skoða kerfið út frá upp­lif­un brotaþola auk þess sem ég fjallaði um ný­leg laga­ákvæði varðandi of­beldi í nán­um sam­bönd­um.

Alþingi hef­ur samþykkt heild­stæða aðgerðaáætl­un gegn of­beldi og af­leiðing­um þess sem nær til árs­ins 2022. Mark­mið henn­ar er að vinna að for­vörn­um og fræðslu. Henni er auk þess ætlað að bæta viðbrögð og málsmeðferð í rétt­ar­vörslu­kerf­inu og vinna að vald­efl­ingu þolenda með þverfag­legt starf að leiðarljósi.

Það hef­ur mik­il vakn­ing átt sér stað á þessu sviði á und­an­förn­um árum. Unnið hef­ur verið að um­bót­um á lög­gjöf, bættu verklagi við meðferð þess­ara mála inn­an rétt­ar­vörslu­kerf­is­ins, auk­inni vernd fyr­ir þolend­ur, ein­fald­ari meðferð nálg­un­ar­banns og aukn­um skiln­ingi á þörf­um þolenda brot­anna. Þá hafa verið stofnaðar sér­stak­ar ráðgjaf­armiðstöðvar, Bjarka­hlíð og Bjarma­hlíð, fyr­ir þolend­ur heim­il­isof­beld­is. Þangað geta þolend­ur leitað til að sækja sér ráðgjöf og aðstoð sér að kostnaðarlausu. Sú starf­semi er afar mik­il­væg, ekki aðeins fyr­ir þolend­urna sjálfa held­ur einnig sem úrræði fyr­ir lög­reglu til að hjálpa þolend­um. Þeir fá þar lög­fræðiaðstoð og einnig aðstoð til að vinna úr af­leiðing­um of­beld­is­ins.

Á ráðstefn­unni veittu önn­ur ríki þessu mik­il­væga skrefi okk­ar í að opna ráðgjaf­armiðstöðvar mikla at­hygli og sér­stak­lega var fjallað um þörf annarra landa á að stíga þessi skref.

Það er mik­il­vægt að lög­regl­an, sem oft­ast mæt­ir fyrst á vett­vang, hafi sérþekk­ingu á af­leiðing­um heim­il­isof­beld­is til að geta mætt þolend­um brot­anna af skiln­ingi og nær­gætni á vett­vangi. Mennt­un lög­reglu­manna þarf því að fela í sér kunn­áttu á eðli og ein­kenn­um þess­ara brota og af­leiðing­um þeirra á þolend­urna. Þá er mik­il­vægt að tryggja end­ur­mennt­un lög­reglu­manna til að stuðla að færni þeirra og hæfni til að fást við þenn­an viðkvæma mála­flokk. Við höf­um séð gríðarleg­ar fram­far­ir síðustu ár hjá lög­regl­unni varðandi meðhöndl­um heim­il­isof­beld­is­brota og ljóst af umræðu við önn­ur ríki að þar stönd­um við framar­lega í sam­an­b­urði.

Þýðing­ar­mikið er að hafa sér­stakt ákvæði í hegn­ing­ar­lög­um sem lýs­ir of­beldi í nánu sam­bandi refsi­vert. Slíkt ákvæði var sett í hegn­ing­ar­lög árið 2016. Með því voru þau skila­boð gef­in til sam­fé­lags­ins að of­beldi í nán­um sam­bönd­um yrði ekki liðið og að slík brot væru ekki einka­mál aðil­anna. Þetta eru viðkvæm brot sem varða mann­eskj­ur og því er mik­il­vægt að kerfið okk­ar hafi burði til að taka á þeim mál­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar 2020.