Þingflokkurinn á ferð um Norðurland

Þéttskipuð dagskrá hefur einkennt þriðja og fjórða dag hringferðarinnar og síðustu sólarhringa hefur þingflokkurinn heimsótt hátt í þrjátíu vinnustaði á Ísafirði, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði, í Bolungarvík, Heydal í Mjóafirði, Broddanesi, á Blönduósi, Sauðárkróki og Siglufirði. Áhersla hefur verið á lítil og meðalstór fyrirtæki og hafa þingmennirnir til dæmis heimsótt rafmagnsverkstæði, trésmiðju, fiskmarkað, bóndabýli, heimilisiðnaðarsafn, frumkvöðlasetur, matvælafyrirtæki og alls kyns starfsemi aðra.

„Það er alveg magnað að upplifa kraftinn og sjá hugmyndaauðgina sem einkennir íslenskt atvinnulíf. Nú er það okkar stjórnmálamanna að ýta undir þetta og gæta þess að óhófleg skriffinnska, skattheimta og íþyngjandi regluverk kæfi ekki gott framtak. Við heyrum að það eru skilaboðin frá skapandi fólki og við erum sammála,” segir Kristján Þór Júlíusson oddviti Norðausturkjördæmis.

Þingflokkurinn hefur gefið sér góðan tíma á hverjum stað og það hefur verið einkennandi hvað umræðurnar við heimafólk eru hreinskiptnar og skemmtilegar. Í kvöld hélt þingflokkurinn opinn fund á Dalvík, nánar tiltekið í Menningarhúsinu Bergi, þar sem setið var í hverju sæti og húmorinn beittur og góður að Dalvíkinga sið.