Húsfyllir í Búðardal og á Ísafirði

Húsfyllir í Búðardal og á Ísafirði

Hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins lagði af stað í morgunsárið en þá brunaði allur hópurinn norður í Búðardal þar sem matarmikil kjötsúpa og nýbakað brauð frá veitingastaðnum Dalakoti beið hópsins á opnum fundi í Dalabúð. Þétt var setið við langborðin og áttu þingmennirnir hressilegar og skemmtilegar umræður við heimafólk. Haraldur Benediktsson oddviti í Norðvesturkjördæmi bauð gesti velkomna og síðan tók Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins til máls og ræddi m.a. um sóknarfærin í Dalabyggð og kjördæminu öllu.

Frá Dalabyggð lá leiðin til Hólmavíkur þar sem þingflokkurinn heimsótti vinnustaði en sérstök áhersla er á lítil og meðalstór fyrirtæki í hringferðinni. Síðdegis fundaði þingflokkurinn með sveitarstjórninni í Súðavík og var rætt um mörg mál sem brenna á fólki þar.

Nú undir kvöld mætti þingflokkurinn til Ísafjarðar og hélt opinn fund í Stjórnsýsluhúsinu þar. Formaður flokksins ávarpaði fundinn og svo skiptu þingmenn sér á borð og ræddu málin við Ísfirðinga yfir ilmandi súpu að vestfirskum hætti. Góður andi hefur verið á ferð þingflokksins um landið og strax í fyrramálið verða fyrirtæki vítt og breitt um Vestfirði sótt heim.