Ábyrgð og eftirlit í rusli

Áhugi á framsæknum lausnum í úrgangs- og umhverfismálum fer stöðugt vaxandi en er langt frá því að vera nýr af nálinni.  Frá árinu 2006 hefur Sorpa bs. byggðasamlag  skoðað lausnir varðandi sorpbrennslu, gas- og jarðgerð í samstarfi við sorpsamlög á suðvesturhorni landsins.  Á tímabili lágu þau áform niðri af skiljanlegum ástæðum, en árið 2013 var málið aftur sett á dagskrá.  Ákveðið var að taka upp lausn að danskri fyrirmynd, svokallaðri Aikenstöð, sem stjórnendur sorpsamlaganna höfðu kynnt sér rækilega.  Nokkrir hnökrar voru á framvindu málsins en 2017 þá fór verkefnið aftur af stað á fulla ferð og gas- og jarðgerðarstöð Sorpu boðin út. Hafandi komið að undirbúningi málsins á fyrstu stigum þess, var það mér ánægjuefni.

 

Óhefðbundin framúrkeyrsla

Aiken lausnin var afmörkuð, vel skilgreind og þrautreynd. Í mínum huga tiltölulega einföld framkvæmd.  Fyrsta skóflustunga var tekin í ágúst 2018 og kynnt að kostnaður við bygginguna stöðvarinnar og tengdra verkefna væri áætlaður 3,4 milljarðar króna.  Það olli hins vegar vonbrigðum þegar tilkynnt var um það einu ári síðar, að bæta þyrfti við 1.356 milljónum króna vegna vanáætlunar.  Frávik upp á 40% er þó nokkuð mikið, jafnvel í samanburði við hefðbundna framúrkeyrslu sem við í borgarstjórn höfum fengið að kynnast á síðustu árum og allir þekkja.

 

Aiken lausn á Álfsnesi

Hvernig gat það eiginlega gerst að uppsetning á þekktri lausn í úrgangsmeðhöndlun frá Danmörku gat farið svona illilega á hliðina í Álfsnesi?  Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar var falið að kanna málið og skilaði skýrslu fyrir skömmu.  Sú skýrsla verður tekin til umfjöllunar á fundi borgarstjórnar í dag. Meginniðurstöður hennar eru að eftirlit og ábyrgð hafi brugðist. Að eftirliti stjórnar hafi verið ábótavant og það sagt skýrast að hluta til af „örum stjórnarskiptum og skorti á leiðsögn“. Hægt er að taka undir þær skýringar.  Ábyrgð og hlutverk eigendavettvangs, þ.e. þeirra sem fara með eigendavald í Sorpu bs. er hins vegar stærra og meira en þar er ekki hægt að grípa til sömu skýringa.  Borgarstjóri, sem heldur á 62% hlut í Sorpu bs. fær á fundi borgarstjórnar í dag, tækifæri til að útskýra sitt hlutverk og sína aðkomu að málinu.

Skýringar óskast

Ég vonast eftir málefnalegri umræðu, að upplýsingar verði gefnar og trúverðugar skýringar komi fram.  Þetta mál snýst ekki um pólitík eða stjórnmálaflokka, heldur ábyrgð og eftirlit. Það þarf líka að fylgjast með ruslinu og hvað verður um það. Og bera ábyrgð á því.

 

Höfundur er borgarfulltrúi og fyrrverandi stjórnarformaður Sorpstöðvar Suðurlands bs.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu þann 4. febrúar 2020.