Alla leið?

Sigríður Á. Andersen, formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

„Við ætlum að fara með málið alla leið“ heyrist æ oftar frá þeim sem leita til dómstólanna með ágreining og leitast þar við að sækja það sem þeir telja rétt sér til handa. „Leiðin“ sem hér er stundum vísað til liggur að landamærum Þýskalands og Frakklands, til lítillar vinalegrar borgar í Alsass, Strassborgar. Þar hefur frá 1959 verið starfræktur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland fullgilti árið 1953 sem eitt aðildarríkja Evrópuráðsins. Sáttmálinn var þó ekki lögfestur hér á landi fyrr en árið 1994. Sáttmálanum hefur verið margbreytt frá upphafi og hlutverki dómstólsins einnig en úrlausnir hans er ekki bindandi að íslenskum landsrétti, ekki frekar en að landsrétti annarra aðildarríkja. Dómur MDE hefur eingöngu gildi að þjóðarétti eins og það er kallað í lögfræðinni. Dómstóllinn kveður eingöngu á um það hvort að tiltekið ríki teljist hafa brotið gegn sáttmálanum. Eins og segir í grreinargerð með frumvarpi því er lögfesti mannréttindasáttmálann 1994:

,,Dómur mannréttindadómstólsins hnekkir þannig ekki dómi eða annarri úrlausn sem hefur fengist um kæruefnið í aðildarríki að mannréttindasáttmálanum, heldur stendur slík úrlausn óhögguð. Mannréttindadómstóllinn og aðrar stofnanir, sem fjalla um kæruefni samkvæmt samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, eru því ekki í neinum skilningi áfrýjunarstig í máli og endurskoða ekki dómsúrlausn frá aðildarríki, heldur er aðeins leyst úr því á þessum vettvangi hvort aðildarríki hafi brotið þjóðréttarskuldbindingu sína um að tryggja viðkomandi mannréttindi og eftir atvikum hvort ríkið sé bótaskylt af því tilefni.“

Þetta grundvallaratriði ætti ekki að koma neinum á óvart. Ekkert sjálfstætt og fullvalda ríki myndi framselja dómsvald sitt til erlendra stofnana. Yfirlýsingar manna í upphafi málaferla hér á landi, um að fara „alla leið“ með sín mál, byggja augljóslega á misskilningi á réttarfari. Um leið bera þær vott um að viðkomandi hafi misst sjónar á því grundvallaratriði sem mögulega hefur tryggt mannréttindi hans umfram allt annað; þ.e. að hann býr í frjálsu og fullvalda lýðræðisríki.

Á morgun verður málflutningur við MDE í máli Guðmundar Ástráðssonar gegn Íslandi. Málið varðar einn tiltekinn dómara við Landsrétt en þó um leið þá alla 15 sem ég skipaði vorið 2017 eftir að Alþingi hafði samþykkt tillögu mína þar um. Málið varðar dóm sem Hæstiréttur kvað upp í maí 2018 í máli manns sem játaði á sig akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var dæmdur til refsingar með héraðsdómi sem staðfestur var af Landsrétti. Maðurinn óskaði eftir því að dómur Landsréttar yrði ómerktur með þeim rökum að á meðal þriggja dómara þar hafði setið dómari sem ég lagði til við Alþingi að yrði meðal skipaðra dómara þótt hann hefði ekki verið meðal þeirra fimmtán sem hæfnisnefndin hafði lagt til við mig. Maðurinn telur sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar vegna þessa. Hann telur dómarann ekki löglega skipaðan.

Í dómi Hæstiréttar sem er umfjöllunarefni MDE á morgun var maðurinn talinn hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti. Hæstiréttur staðfesti refsinguna sem dómararnir þrír í Landsrétti, og áður héraðsdómari, ákvörðuðu honum. Hæstiréttur Íslands hefur þannig komist að þeirri niðurstöðu að dómarinn er löglega skipaður.

Dómararnir fimmtán sem ég skipaði í Landsrétt njóta sérstöðu umfram aðra núverandi embættisdómara. Aldrei áður hafa dómarar verið skipaðir á Íslandi með jafn mikilli stoð í öllum greinum ríkisvaldsins. Alþingi greiddi atkvæði með skipun þessara dómara. Forseti Íslands staðfesti skipunina og framkvæmdi sérstaka skoðun á málsmeðferð Alþingis. Hæstiréttur hefur svo komist að þeirri niðurstöðu að dómarinn sem um ræðir í máli MDE er löglega skipaður. Þá hefur Hæstiréttur margoft fjallað um dóma sem aðrir dómarar Landsréttar hafa kveðið upp og aldrei gert athugasemdir er lúta að lögmæti þeirra dóma.

Engin vafi er á því í mínum huga að umræddur maður, sem játaði fíkniefnaakstur, naut réttlátrar málsmeðferðar af hálfu allra dómaranna sem sakfelldu hann. Sú málsmeðferð er í samræmi við stjórnarskrá Íslands, almennar íslenskar réttarfarsreglur og einnig mannréttindasáttmála Evrópu.

Í máli þessu er mikilvægt að hafa hugfast að í því er deilt um lögfræði, túlkun lagaákvæða og valdmörk löggjafans, framkvæmdavalds og dómstóla, innlendra sem erlendra. Sjálfri hefur mér þótt afsakaplega áhugavert að fylgjast með framgangi alls þessa máls allt frá því ég fékk í hendur 34 umsóknir um stöður dómara við Landsrétt, og kom þeim í hendur hæfnisnefndar, og fram til dagsins í dag þegar yfirdeild MDE fjallar um dóm Hæstaréttar. MDE er að „leggja dóm á dóm Hæstaréttar“ myndu þeir kannski segja sem halda ranglega að dómsvaldið sé endanlega í Strassborg.

Ég ætla að fylgjast með málflutningnum hér í Strassborg.