Þriðja hringferðin á tveimur árum
'}}

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins heldur í lok vikunnar í sína þriðju hringferð um landið á tveimur árum. Hringferðin hefst í höfuðborginni fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18 á Kaffi Reykjavík þar sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ávarpar gesti ásamt oddvitum þingflokksins í Reykjavík. Að því loknu gefst fólki tækifæri til að eiga gott spjall í afslöppuðu andrúmslofti um það sem mestu skiptir við alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Sami háttur verður hafður á um landið allt en strax á föstudaginn liggur leiðin á opinn fund í Búðardal, þaðan til Hólmavíkur þar sem fyrirtæki verða heimsótt og síðan verður haldið vestur á firði. Á sunnudag og mánudag verður púlsinn tekinn á íbúum Norðurlands en mikil tilhlökkun er í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hitta fólkið í þeirra heimabyggð. Síðustu hringferðir hafa eflt mjög tengslin við grasrótina og styrkt þingflokkinn í þingstörfunum.

Þingflokkurinn heimsækir tugi sveitarfélaga á næstu vikum, heldur opna fundi og heimsækir vinnustaði, með sérstaka áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki að þessu sinni. Slíkur rekstur er hjartað í atvinnulífinu og hlakka þingmennirnir til að hitta skapandi fólk um land allt. Að venju verður hægt að fylgjast með dagskrá ferðarinnar hér á síðunni ásamt því sem myndum og fréttum úr ferðinni verður deilt á fréttaveitu xd.is, Facebook, Instagram og Twitter.