Hjólin á strætó snúast ekki á innan­tómum lof­orðum

Jórunn Pála Jónasdóttir fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Um leið og strætó þeysir framhjá bítur kuldaboli aðeins fastar í kinnarnar og hillingar um að komast heim fyrir króníska vetraralmyrkvan fjarlægjast. Að missa af vagninum með hársbreidd er þyngri dómur í janúar en í júlí, sérstaklega þegar það eru 30 mínútur í næsta vagn.

Í október 2018 samþykkti borgarstjórn með 22 greiddum atkvæðum tillögu sem gæti mildað slíkan dóm í einhverjum tilvikum: Að strætóleiðir 1, 3 og 6 skyldu að aka á 7,5 mínútna fresti á háannatímum. Borgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartoszek, mælti fyrir tillögunni en stjórn Strætó var falin nánari útfærsla. Tillagan kom frá meirihlutaflokkunum en í fréttatilkynningu borgarinnar um málið sagði meðal annars: „Til að tími gefist til að vinna málið innan hefðbundinna tímaramma fjárhagsáætlunargerðar og leiðakerfisbreytinga er stefnt að því að fyrstu áfangar breytinganna taki gildi í ársbyrjun 2020.”

Málið fékk rúman tímaramma en breytingin átti að líta dagsins ljós í ársbyrjun 2020. Minnihlutaflokkar í borgarstjórn eiga ekki sæti við borðið hjá Strætó og er framkvæmdin því í höndum meirihlutans.

Ekkert bólar á betri strætó

Það er gömul saga og ný að stjórnmálafólk sé gjafmilt á loforð sem hljóma vel í fjölmiðlum en í borgarstjórn er afar sjaldgæft að gefið sé upp hvenær boðaðar breytingar muni líta dagsins ljós. Meirihlutanum hlaut því vera alvara með að standa við breytingarnar fyrir uppgefna dagsetningu. Nú er hinsvegar langt liðið á janúar 2020 og ekkert bólar á breytingunum.

Í ferðavenjukönnun frá árinu 2017 (Gallup, 2018) voru viðmælendur spurðir hvers vegna þeir notuðu ekki strætó. Niðurstöðurnar voru rýndar í skýrslu Mannvits fyrir Strætó bs. en þær sýndu meðal annars að sóknarfæri eru í bættri tíðni. Traust á tímatöflu er önnur ástæða sem viðmælendur nefna.

Fyrirsjáanleiki um tímatöflu og þjónustu Strætó virðist því vera mikilvægur þáttur í að efla á leiðakerfið og gera hann þjónustuvænni. Vanefnd loforð meirihlutans í Reykjavík og þögn um stöðu þessa máls er eins og kalt kaffi til farþega sem reiða sig á þjónustuna í vetrarfærðinni.

Greinin birtist á visir.is 24. janúar 2020.

 

Þessi grein er birt í samstarfi við Róm. Rómur er vettvangur fyrir ungt frjálslynt fólk til þess að láta að sér kveða í samfélagsumræðunni.