Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra fagnaði fimmtugsafmæli sínu um nýliðna helgi.
Bjarni var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009. Þá hafði hann verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Suðvesturkjördæmi síðan 2003. Árið 2013 settist hann í ríkisstjórn og hefur átt sæti þar síðan, fyrst sem fjármála- og efnahagsráðherra milli 2013 og 2017 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks. Þá forsætisráðherra á árinu 2017 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og aftur fjármála- og efnahagsráðherra síðan í nóvember 2017 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1989, kláraði lögfræðinám við Háskóla Íslands árið 1995 og viðbótarnám frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum árið 1997. Í millitíðinni stundaði hann nám í þýsku og lögfræði í Þýskalandi. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1998 og löggiltur verðbréfamiðlari sama ár.
Á Alþingi hefur hann sinnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var formaður allsherjarnefndar Alþingis frá 2003-2007, sat í fjárlaganefnd 2003-2007, iðnaðarnefnd 2003-2004 og 2007. Þá sat hann í sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2007 og 2009, í heilbrigðis- og trygginganefnd 2004-2005, í utanríkismálanefnd frá 2005-2013, þar af sem formaður 2007-2009. Hann sat í kjörbréfanefnd 2005-2009 og í efnahags- og skattanefnd 2007-2009. Þá hefur hann sinnt alþjóðastarfi á vegum þingsins, sem formaður Íslandsdeildar VES-þingsins 2003-2005, í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2005-2009 og í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2009-2012.
Bjarni ólst upp í Garðabæ þar sem hann býr í dag með fjölskyldu sinni. Hann er kvæntur Þóru Margréti Baldvinsdóttur og saman eiga þau börnin Margréti, Benedikt, Helgu Þóru og Guðríði Línu. Foreldrar Bjarna eru hjónin Benedikt Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og Guðríður Jónsdóttir, húsmóðir.