Sporin hræða

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Tillaga meirihlutaflokkana í borgarstjórn Reykjavíkur um skerðingu á viðverutíma barna á leikskólum hefur mætt mikilli andstöðu og háværri umræðu í samfélaginu. Þrátt fyrir það  sá meirihlutinn ekki ástæðu til að samþykkja tillögu okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn, um að fallið verði frá skerðingunni, heldur þráaðist við og vísaði tillögunni frá  og sagðist ætla að taka málið til nánari skoðunar í borgarráði.

Sporin hræða í þeim efnum enda hafa dæmin sýnt að tilgangurinn með að taka mál til skoðunar  í ráðum og nefndum hefur gjarnan verið sá að svæfa þau eða drepa  þeim á dreif. Ef meirihlutinn meinar raunverulega  eitthvað með því að endurskoða málið þá hefði hann að sjálfsögðu átt að samþykkja tillögu okkar sjálfstæðismanna og skoða málið upp á nýtt með því  að byrja á réttum enda en ekki á öfugum enda eins og gert var.

Tillagan um skerðinguna kom eins og þruma úr heiðskíru lofti því foreldrar fréttu fyrst af henni í fjölmiðlum. Það er ámælisvert að borgaryfirvöld hafi farið fram með þessum hætti án alls samráðs við foreldra. Enda snertir breytingin á opnunartíma leikskólanna 521 barn með samning við leikskóla borgarinnar til 17:00 og 417 börn með samning til 16:45 eða samtals 938 börn.

Verði ekki fallið frá þessari breytingu þegar tillagan kemur til borgarráðs mun allur þessi fjöldi barna missa þá þjónustu sem borgin er nú þegar að veita.

Það er ekki ásættanlegt að Reykjavíkurborg sem er með hæsta útsvar sem lög leyfa forgangsraði í gæluverkefni en á sama tíma skeri niður nauðsynlega grunnþjónustu við börnin í borginni. Stóra spurningin sem meirihluti borgarstjórnar þarf nú að svara er þessi: Er kerfið fyrir börnin eða börnin fyrir kerfið.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2020.