Stjórn Varðar harmar ákvörðun borgaryfirvalda um að stytta opnunartíma leikskóla

Stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík harmar þá ákvörðun borgaryfirvalda að stytta opnunartíma leikskóla borgarinnar. Þjónustuskerðing þessi mun óneitanlega bitna verst á þeim sem síst skyldi – einstæðum foreldrum, námsmönnum og fólki í láglaunastörfum og vaktavinnu sem mun nú einungis hafa rúma tvo mánuði til að semja við atvinnurekanda sinn um styttri vinnutíma eða gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til að geta sótt bornin hálftíma fyrr í leikskólann. Vandséð er hvernig venjulegt fólk á að fara að slíku. Á tyllidögum og í aðdraganda kosninga er fulltrúum borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík tíðrætt um fyrrnefnda hópa, mikilvægi þess að koma til móts við þá og efla hag þeirra en nú virðist sem að þær yfirlýsingar séu lítið annað en merkingarlaust hjal.

Það er sérkennilegt að borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkurborgar, sem innheimtir hæsta mögulega útsvar sem lög leyfa, skuli leggja til þá afturför sem þetta þýðir fyrir foreldra á vinnumarkaði og skerða grunnþjónustu með þessum hætti. Sem höfuðborg ætti Reykjavík að vera leiðandi á landsvísu í framúrskarandi þjónustu við íbúa, þvert á móti er lögbundin þjónusta við borgarbúa skorin niður á meðan nægir peningar virðast vera á reiðu fyrir hin ýmsu gæluverkefni borgarstjórnarmeirihlutans. Þá skýtur það skökku við að borgaryfirvöld beini foreldrum öllum beint út í umferðina á sama tíma með þessum hætti þegar ljóst er að borgin stendur frammi fyrir stigvaxandi samgönguvanda.

Er það von stjórnar Varðar að þeir sjái sóma sinn í að snúa frá villu síns vegar, hætta við skerðinguna og skoða frekar raunhæfar hugmyndir um sveigjanlegan opnunartíma leikskólanna þar sem hverjum og einum leikskóla falið að skipuleggja lengd leikskóladagsins með þarfir barna, foreldra og starfsfólks að leiðarljósi. Á sama tíma fagnar stjórn Varðar þeirri mótstöðu sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt í þessu máli og hvetur þá áfram til góðra verka.