Rauða bylgjan

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Veðrið er oft vinsælt umræðuefni á mannamótum, en hefur á síðustu árum fengið vaxandi keppinaut; umferðina í Reykjavík. Þó höfuðborgin okkar sé með þeim fámennari hefur stjórnendum borgarinnar tekist að gera umferðina að vaxandi vandamáli. Í stað skynsamlegra lausna sem liggja fyrir eru væntingar bundnar við eina lausn; borgarlínu.

Eitt dæmi um það sem bæta má er ljósastýring. Í þeim bransa eins og öðrum tæknigeirum hefur orðið snjallvæðing. Í flestum borgum er notast við sjálfvirkar stýringar með hreyfiskynjurum. Kerfin ná fram „grænni bylgju“ svo bílarnir komist sem greiðasta leið. Í Reykjavík er þessu öðru vísi farið. Við erum enn með ljósastýringar sem stjórnast af klukku og nýtum lítið þær tækniframfarir sem hafa orðið á síðustu áratugum. Hér eru svo sett upp umferðarljós í tengslum við byggingaframkvæmdir. Á þessum stöðum bíða bílar oft við rauð ljós þó engin sé að nota þau grænu. Í sumum tilfellum lenda menn á röð rauðra ljósa og hefur vinnuvikan heldur lengst vegna tafanna.

Fyrir átta árum síðan töldu borgaryfirvöld að draga myndi úr umferð einkabíla. Hið þveröfuga gerðist. Í stað þess að greiða úr umferðinni hefur verið þrengt að henni. Í stað þess að bæta umferðarstýringu með grænni bylgju, hafa rauðu ljósin logað. Allt var þetta gert til að minnka hlutfall ferða með einkabílum en það hefur heldur hækkað. Umferðartafirnar bitna nefnilega á öllum ferðamátum, líka strætó.

Leysum umferðarvandann

Það þarf að taka upp nýjar áherslur í umferðarmálum í Reykjavík. Vera leiðandi í snjöllum lausnum, en ekki leiðandi í umferðartöfum. Skipulagið er á rangri braut þar sem stofnunum fjölgar áfram í miðbænum og umferðin liggur áfram með þunga í vestur á morgnanna og austur síðdegis. Ekkert hefur verið gert í að skipuleggja Keldnalandið sem er hagkvæmt svæði sem gæti létt á umferðinni. Það viljum við gera. Við viljum snjalllausnir eins og við þekkjum erlendis frá. Það þarf ekki að finna upp hjólið í þeim efnum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2019.