Nýir starfsmenn þingflokks
'}}

Guðfinnur Sigurvinsson stjórnsýslufræðingur og Vigdís Häsler lögfræðingur hafa verið ráðin starfsmenn þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þau hafa þegar hafið störf.

Guðfinnur Sigurvinsson hefur starfað við almanna- og fjárfestatengsl og fjölmiðlun. Hann var síðast samskiptastjóri Sýnar hf. móðurfélags Vodafone, Stöðvar 2 og tengdra fjölmiðla. Þar áður starfaði hann sem upplýsingafulltrúi og teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. Guðfinnur starfaði í áratug sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu. Guðfinnur lauk B.A. prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2013 og MPA prófi í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla 2018. Guðfinnur er fyrsti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og situr jafnframt í umhverfisnefnd.

Vigdís Häsler var áður aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra en undanfarið hefur hún starfað sem lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem hún hefur sinnt undirbúningi og gerð umsagna um lagafrumvörp og önnur þingmál og tók þátt í samskiptum við Alþingi. Einnig annaðist hún lögfræðilega ráðgjöf og upplýsingagjöf til sveitarstjórnarmanna. Vigdís starfaði áður sem lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka. Hún lauk BA prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2006, meistaraprófi 2008 og ári seinna hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Árið 2013 lauk hún LLM prófi í alþjóðlegum refsirétti frá University of Sussex í Bretlandi. Vigdís hefur setið í stjórn Félags kvenna í lögmennsku.