Við áramót

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Það er mann­in­um eig­in­legt að hafa áhyggj­ur. Í raun erum við frá nátt­úr­unn­ar hendi þannig gerð að nei­kvæðir hlut­ir vega þyngra en já­kvæðir. Sér­fræðing­ar sem um þessi mál fjalla benda á að í fyrnd­inni hafi það skilið milli lífs og dauða að vera vak­andi fyr­ir hætt­um og ógn­um.

Áhugi okk­ar á nei­kvæðum hlut­um er viðvar­andi, eins og sjá má af helstu um­fjöll­un­ar­efn­um fjöl­miðla. Drama­tísk­ar nei­kvæðar frétt­ir fá ein­fald­lega meiri at­hygli. Og þótt aðgang­ur að upp­lýs­ing­um hafi aldrei verið greiðari í mann­kyns­sög­unni virðist hræðslu­áróður og hleypi­dóm­ar lifa jafn­góðu – ef ekki betra lífi en áður.

Að ein­hverju leyti hef­ur skuld­inni verið skellt á sam­fé­lags­miðla. Þar sé eng­in rit­stjórn og auðvelt, fyr­ir þá sem vilja og nenna, að spila með al­menn­ings­álitið. Lík­lega er þó mest af því sem fram fer á þess­um miðlum ekki skipu­lagt, held­ur af­leiðing af þess­um eðlis­lægu hvöt­um manns­ins, að hneigj­ast til nei­kvæðni og viðra ótta sinn við hið óþekkta.

Hugs­an­lega er ástæða til að hafa af þessu áhyggj­ur. Get­ur verið að um­hverfið sem við höf­um sjálf skapað sé til þess fallið að valda óþarfa van­líðan og byrgja okk­ur sýn á það sem geng­ur vel og ætti að stuðla að ham­ingju?

Þessi þróun er tal­in hafa haft áhrif á upp­gang po­púl­ista í Evr­ópu og víðar, þar sem alið er á sundr­ungu í hverju sam­fé­lagi fyr­ir sig. Birt­ing­ar­mynd­irn­ar eru marg­ar og hér á landi má meðal ann­ars greina þær í ákveðnu um­róti í flokka­skipu­lag­inu. Það má jafn­framt segja að til­hneig­ing­ar gæti í umræðunni til að ein­falda mjög flókna hluti og skipa fólki í fylk­ing­ar með eða á móti. Það er í sjálfu sér síður en svo nýtt fyr­ir­bæri, en tækn­in til að koma van­stilltri umræðu af stað um ein­stök mál er orðin þróaðri.

Til rík­is­stjórn­ar­sam­starfs Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks var í viss­um skiln­ingi stofnað til að vinna gegn frek­ari pól­un. Stefnu­mál flokk­anna gáfu fyr­ir­fram ekki til­efni til að ætla að þeir ættu best sam­an, en þeir gátu sam­ein­ast um stóru mynd­ina og voru sam­mála um mik­il­væg mál sem vinna þarf að þvert á póli­tísk­ar lín­ur til að tryggja ár­ang­ur fyr­ir heild­ina. Það ætluðu flokk­arn­ir að gera, þrátt fyr­ir að gera mætti ráð fyr­ir að sótt yrði að rík­is­stjórn­inni úr mörg­um átt­um fyr­ir að standa ekki fyr­ir nógu tær­ar hug­mynda­fræðileg­ar lausn­ir.

Reynd­ar bend­ir margt til, ef tekið er mið af nú­ver­andi flokka­skip­an, ný­leg­um kosn­inga­úr­slit­um og kosn­inga­skipu­lagi, að slíkt hið sama kunni að bíða framtíðarrík­is­stjórna.

Segja má að inn­byrðis ósam­ræm­is gæti í kröf­unni um færri mála­miðlan­ir á sama tíma og sundr­ung verður á flokka­skipu­lag­inu.

Óhjá­kvæmi­legt er að óþols gæti í bakland­inu á hinum póli­tísku ásum þegar mála­miðlan­ir eru gerðar eða stefn­an er ekki af­ger­andi. Kallað er eft­ir frek­ari skatta­lækk­un­um til hægri en meiri miðstýr­ingu til vinstri svo dæmi séu nefnd. Niðurstaða síðustu kosn­inga var hvað sem því líður sú að fylgið dreifðist á flokka og eft­ir sundr­ungu og póli­tískt gjörn­inga­veður síðasta ára­tug var tími til kom­inn að brúa gjána sem mynd­ast hafði.

Styrk­ur stjórn­ar­inn­ar verður ekki mæld­ur í fyr­ir­sögn­um vef­miðla eða hálfs­mánaðarleg­um fylg­is­könn­un­um. Þegar upp er staðið verða það verk­in, mál­in sem stjórn­in set­ur á dag­skrá og kem­ur í fram­kvæmd sem standa sem klett­ur upp úr öldu­róti sam­fé­lags­miðlanna. Slík stjórn starfar sam­kvæmt þeirri trú að þegar reikn­ings­skil verða gerð megi upp­slátt­ur ein­stakra mála á miðju kjör­tíma­bili sín lít­ils gegn raun­veru­leg­um ár­angri og traust­vekj­andi framtíðar­sýn.

Í ljósi alls þess, sem hér hef­ur verið sagt, kem­ur það ef til vill ekki á óvart að áhyggj­ur af framtíðinni voru lík­lega ein helsta ástæða þess að ég gaf mig að stjórn­mál­un­um á sín­um tíma – en það voru áhyggj­ur sem ég vildi virkja sem drif­kraft breyt­inga og fram­fara. Ein helsta for­senda þess að end­ast eitt­hvað á vett­vangi stjórn­mál­anna, án þess að missa móð, er síðan að hafa innri rödd og geta spurt sig reglu­lega: Hvernig geng­ur – svona í raun og veru?

Og við ára­mót er góður tími til að spyrja hvernig gangi. Hvernig hafa áhersl­ur og ákv­arðanir líðandi árs og und­an­far­inna ára reynst sam­fé­lag­inu?

Okk­ur Íslend­ing­um hef­ur gengið vel á ár­inu sem er að líða. Það er hægt að segja þrátt fyr­ir loðnu­brest í upp­hafi árs, sem vissu­lega kom hart niður á ákveðnum byggðum, en aðrar tekj­ur komu í staðinn fyr­ir þjóðarbúið í heild. Það er merki­legt því loðnan hef­ur í ára­tugi verið önn­ur verðmæt­asta út­flutn­ings­teg­und sjáv­ar­af­urða. Gjaldþrot fé­lags, sem í fyrra flutti 25% allra ferðamanna til lands­ins, var áhyggju­efni, og vissu­lega fækkaði ferðamönn­um. Þeir sem komu keyptu þó fleiri gist­inæt­ur og neysla ferðamanna dróst ein­ung­is sam­an um 6% á ár­inu.

Við stóðum þessi áföll vel af okk­ur, meðal ann­ars vegna þess að at­vinnu­líf okk­ar er fjöl­breytt­ara en áður og út­flutn­ings­tekj­urn­ar koma nú víðar að.

Kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði voru stærsta ein­staka ákvörðun sem tek­in var á ár­inu og hafði mik­il áhrif á fram­vindu mála. Aðilar vinnu­markaðar náðu tíma­móta­samn­ing­um með stuðningi stjórn­valda í formi aðgerða sem spanna allt frá lækk­un skatta og lengra fæðing­ar­or­lofi til úrræða í hús­næðismál­um. Rík­is­stjórn­in hef­ur ákveðið að nýta í störf­um sín­um nýja mæli­kv­arða um hag­sæld og lífs­gæði sem munu hafa mik­il áhrif á mat okk­ar á ár­angri á mik­il­væg­um sviðum.

Stefn­an í op­in­ber­um fjár­mál­um var end­ur­skoðuð, vext­ir lækkuðu og þannig var tryggt að um­samd­ar launa­hækk­an­ir skiluðu sér í vasa launþega. Árs­ins 2019 verður meðal ann­ars minnst fyr­ir já­kvæð áhrif þess þegar op­in­ber fjár­mál, vinnu­markaður og fram­kvæmd pen­inga­stefn­unn­ar lögðust á sömu sveif. Við höf­um búið við litla verðbólgu, lægstu hús­næðis­vexti í sög­unni og þetta var enn eitt árið sem kaup­mátt­ur launþega óx. Rík­is­sjóður hef­ur aldrei notið betri kjara, skuld­ir lækka og viðskipt­astaðan við út­lönd er hag­stæðari þjóðarbú­inu en áður. Þetta er sann­ar­lega góð staða til að hefja nýtt ár.

Sterk staða efna­hags­mála skipt­ir miklu fyr­ir þjóðina. Okk­ar bíða áfram verk­efni sem á eng­an hátt verða auðleyst. Við vilj­um styrkja vega­kerfið, bæta með því sam­göng­ur og auka um­ferðarör­yggi. Óveðrið und­ir lok árs minnti okk­ur á hve mik­il­vægt flutn­ings- og dreifi­kerfi raf­orku er fyr­ir byggð um allt land. Þar er þörf á átaki.

Stuðnings­kerfi aldraðra með lág­an líf­eyri þarf að þétta. Þótt þjóðin sé ung er hún að eld­ast og betri lyf og lausn­ir í heil­brigðismál­um kalla á aukið fjár­magn. Við vilj­um sam­keppn­is­hæfa skóla sem skila nem­end­um vel und­ir­bún­um út í lífið. Við vilj­um líka nú­tíma­væða op­in­ber­ar þjón­ustu- og eft­ir­lits­stofn­an­ir. Þannig verður blóm­legt mann­líf um allt land, jafnt í þétt­býli sem dreif­býli og góðar hug­mynd­ir fá fram­gang. Alls staðar eig­um við að gera kröfu um að nýta tækni til að geta gert meira fyr­ir minna, aukið fram­leiðni, af­köst og ánægju, ávallt í sókn­ar­hug öll­um til hags­bóta.

Við erum í fremstu röð þjóða hvað lífs­gæði varðar og verðum að halda vöku okk­ar svo sam­keppn­is­hæfni lands­ins dvíni ekki. Enn er bú­ist við því að hag­vöxt­ur á heimsvísu taki við sér árið 2020 en þó er út­lit fyr­ir að hag­vöxt­ur minnki í helstu viðskipta­lönd­um Íslands sem er áhyggju­efni fyr­ir viðskipta­kjör okk­ar.

Ný­leg skýrsla um EES-sam­starfið dreg­ur fram hve mik­il­væg aðild­in að innri markaðinum er okk­ur í þessu til­liti. Að sinni virðist sem okk­ur standi meiri ógn af viðskipta­stríði stór­veld­anna en at­b­urðum sem standa okk­ur nær, svo sem út­göngu Bret­lands úr ESB. Frjáls viðskipti eru frum­for­senda vel­meg­un­ar og friðar. Ísland á að vera öfl­ug­ur mál­svari slíkra sjón­ar­miða á alþjóðavett­vangi, þannig tryggj­um við best mögu­leika okk­ar til að vera áfram í hópi þeirra þjóða sem búa við hvað best lífs­kjör.

Við skul­um vera þakk­lát fyr­ir allt það góða sem áunn­ist hef­ur og muna að það var dugnaður, þor og seigla þeirra sem á und­an okk­ur hafa gengið sem lagði grunn að þeirri vel­meg­un sem við Íslend­ing­ar búum nú við. Við skul­um því fara bjart­sýn inn í nýtt ár – með mátu­leg­ar áhyggj­ur af framtíðinni svo við miss­um ekki damp­inn – og treyst­um á landið og okk­ur sjálf til góðra verka.

Gleðilegt nýtt ár!

Greinin biritst fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2019.