Inga Jóna Þórðardóttir var fyrst kvenna oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fyrsti framkvæmdastjóri flokksins sem var kona og varð fyrst kvenna formaður Útvarpsráðs RÚV. Hún var aðstoðarmaður Ragnhildar Helgadóttur sem var ráðherra á níunda áratugnum en þá hafði aðeins ein önnur kona verið ráðherra í Íslandssögunni en það var Sjálfstæðismaðurinn Auður Auðuns.
Inga Jóna ólst upp á Akranesi en fór í nám til Akureyrar í MA. Hún kláraði síðan viðskiptafræðina í Háskóla Íslands áður en hún fór út á vinnumarkaðinn.
Þú ert að útskrifast árið 1971 úr framhaldsskóla, þetta voru væntanlega áhugaverðir tímar til að vera námsmaður á?
Jú, þetta voru ólgutímar á Íslandi og víða í heiminum þegar ´68 kynslóðin er að láta til sín taka. Ég blandaði mér fljótt í pólitíkina með Vöku í háskólanum, tók þátt í starfi ungra Sjálfstæðismanna og fór í Varðberg. Ég varð fyrst formaður ungra sjálfstæðismanna á Akranesi, en tók síðan þátt í starfi Sambands ungra Sjálfstæðismanna og varð varaformaður árið 1975, þá var Friðrik Sophusson formaður SUS. Við lögðum mikla áherslu á hugmyndafræði, frelsi í atvinnulífinu og minni ríkisafskipti undir slagorðinu „Báknið burt!“. Þetta voru skemmtilegir tímar.
SUS vildi efla ítök ungs fólks í flokknum og tefldi Kjartani Gunnarssyni og Ingu Jónu fram í kosningu til miðstjórnar á landsfundi 1977 og bæði komust þau inn. Rúmum þremur árum síðar var sú djarfa ákvörðun tekin hjá flokknum að gera þetta unga fólk, sem var rétt um þrítugt, að framkvæmdastjórum flokksins. Var þetta ekki óvænt skref hjá yfirstjórn flokksins?
Þetta var breyting frá því sem var. En það var kallað á breytingar, Sjálfstæðisflokkurinn hafði tapað kosningunum 1978 og það var mikil gerjun í flokknum, krafa um breytt vinnubrögð og skipulag. Geir Hallgrímsson var formaður á þessum tíma og leitaði til mín sumarið 1980, þegar Sigurður Hafstein lét af störfum, til að bjóða mér framkvæmdastjórastöðuna. En þótt ég hefði útskrifast úr viðskiptafræði hafði ég ekki áhuga á að safna peningum eða vera í fjárhagsmálunum en hafði mikinn áhuga á hugmyndastarfinu. Það varð úr að Kjartan var settur yfir fjármálin en ég yfir innra starfið, stefnumótun með málefnanefndum, útbreiðslu- og fræðslumál og að vinna með þingflokknum. Fram að því hafði einn af þingmönnunum gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokks. Ég var starfandi framkvæmdastjóri flokksins alveg fram til ársins 1984 en hafði þá boðist að starfa sem aðstoðarmaður Ragnhildar Helgadóttur menntamálaráðherra og lét því framkvæmdastjórastöðuna frá mér.
Ragnhildur Helgadóttir var magnaður persónuleiki og ótrúlegt til þess að hugsa hvað fáar konur komust í valdastöður á þessum tíma, þetta er ekki það langt síðan. Hvernig var að vinna með henni?
Hún var heillandi persónuleiki, hafði ákveðnar skoðanir og vissi hvað hún vildi. En var ljúf í viðmóti og átti auðvelt með að ná til fólks. Ég aðstoðaði hana fyrst í menntamálaráðuneytinu og síðar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. En eins og staðan er í kvenréttindamálum í dag er ótrúlegt að hugsa til þessa tíma. En Ragnhildur boðaði breytingar í þessum málum á mörgum sviðum, hún gerði ekki aðeins konu í fyrsta skiptið að formanni útvarpsráðs heldur einnig skipaði hún konu í fyrsta skipti sem formann þjóðleikhúsráðs og nýtti tækifæri til að koma konum til áhrifa. Þetta fór í taugarnar á sumum körlunum.
Frelsi í fjölmiðlum
En með því fyrsta sem hún lagði áherslu á í ráðherratíð sinni var meira frjálsræði. Það er í hennar tíð sem frelsi í fjölmiðlum verður að veruleika, hún fékk það mál afgreitt í þinginu veturinn 1984-1985 en gildistakan varð ekki fyrr en 1986. Ragnhildur vildi líka að fleiri skólar fengju að starfa en þeir sem væru reknir af ríki og sveitarfélögum. Það var mikil hugmyndafræðileg barátta á þessum árum.
Ragnhildur fór yfir í Heilbrigðis- og tryggingamála-ráðuneytið í lok árs 1985 og ég fylgdi henni þangað. Það fór mikil vinna í að tryggja rekstur sjúkrahúsa á þessum tíma en Ragnhildur lagði einnig áherslu á að gera rammann í kringum fæðingarorlofið betri. Ég nefni þessi mál sem dæmi, en af nógu er að taka. Í báðum þessum ráðuneytum voru fjölbreytt verkefni og mál að takast á við og leysa. Tíminn með Ragnhildi var afar lærdómsríkur og við urðum góðir vinir.
Á þessum tíma var oft hart tekist á, jafnvel á milli ráðuneyta, sérstaklega við fjármálaráðuneytið og þá sat oft hinumegin við borðið sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra sambýlismaður minn Geir H. Haarde. Það var á stundum skondið að vera á slíkum átakafundum. En þetta var góð reynsla fyrir okkur bæði, læra að vinna saman við slíkar aðstæður og bera virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars og taka eðlilegt tillit.
Hvenær ferðu svo í borgarmálin?
Það er í ársbyrjun 1994 að það er haft samband við mig og ég hvött til að taka þátt í prófkjörinu eftir að Katrín Fjeldsted, borgarfulltrúi, gaf óvænt ekki kost á sér. Það prófkjör gekk mjög vel og ég endaði í þriðja sæti á framboðslistanum.
En eftir kosningarnar 1998 dró Árni Sigfússon sig í hlé og ég tek við oddvitastöðunni í júní það ár. Það var margt hjá R-listanum sem við vorum ósátt við og það var þó nokkuð tekist á. Við stóðum vel að vígi í skoðanakönnunum, höfðum stöðugt fylgi í þeim á þessum tíma sem var frá 46 – 51%.
Það getur enginn verið eyland í pólítík
En þegar listinn er samþykktur fyrir kosningabaráttuna árið 2002 þá var gerð tillaga um að Björn Bjarnason yrði oddviti listans en ég tók 8. sætið til að tryggja frið og einingu í flokknum. Eftir kosningarnar endaði ég sem varaborgarfulltrúi. Þá ákvað ég að snúa mér að öðrum málum. En þessi átta ár í borgarstjórninni voru ákaflega ánægjuleg. Ég var í fjölbreyttum málum, í hafnarstjórn, skipulagsnefnd, menningarmálunum og ýmsu öðru. Svo má ekki gleyma að þegar þú ert í pólitík þá verður þú að sinna baklandinu þínu mjög vel. Ég lagði mikla áherslu á að sinna hverfafélögunum. Þetta er mjög mikilvægur hluti af því að vera í pólitík. Það getur enginn verið eyland í pólitík.
Þeir sem eru í leiðtogahlutverki þeir verða að leiða, það er skyldan. En eitt er að hafa hugmyndir um hvernig þú vilt að hlutirnir séu og annað að ná því fram.
Þú varst kunn fyrir það að sinna flokksstarfinu og grasrótinni af krafti, var það ekki lýjandi?
Nei. Sjálfstæðisflokkurinn er fjöldahreyfing af því að fjöldinn í honum er virkur. Þannig varð hann kjölfesta í íslenskum stjórnmálum. Við vorum líka að berjast fyrir mikilvægum málum, frelsi einstaklinga gegn forsjárhyggju og alræðishugmyndum. Frelsi einstaklingsins og framtak færir þjóðinni framfarir og velsæld. Með því að virkja sköpunarkraftinn í einstaklingum vegnar okkur best, það sýnir sagan okkur. Við þurfum að halda þessu á lofti enn í dag. Í þessum málum er aldrei endanlegur sigur unninn. Það verður alltaf að tryggja það sem náðst hefur og halda áfram fram veginn. Ekkert er sjálfgefið og andvaraleysið er hættulegt.
Stjórnmálin breyttust við hrun kommúnismans
Lengst af voru víglínurnar skýrar. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru lönd Austur Evrópu og Eystrasaltsins ýmist innlimuð eða undir hæl Sovétríkjanna og urðu að lúta þeirra alræðisstjórn. Ísland skipaði sér í raðir vestrænna þjóða, sem byggðu á lýðræði og markaðshagkerfi. Lýðræðissinnar í öðrum flokkum stóðu með okkur í utanríkismálum. Kommúnisminn átti samt ótrúlega marga fylgjendur hér á landi í áratugi og pólitíski slagurinn milli lýðræðissinna og þeirra sem töldu alræðið betra var oft á tíðum harður og stór orð látin falla.
Stjórnmálin breyttust við hrun kommúnismans, Austur-Evrópa losnaði þá úr fjötrum. Smám saman verður fólki ljóst hvernig það hafði verið svipt þeim lífsgæðum sem fólkið á Vesturlöndum ólst upp við. Öll árin sem Kalda stríðið var í gangi þá héldu róttækir vinstri menn því fram að kommúnisminn væri sæluríki. En myndin sem blasti við eftir að Sovétríkin hrundu var að þessar þjóðir höfðu í raun búið við lygar og vesöld.
Við fall kommúnismans færðust áherslurnar yfir á málefni þar sem voru ekki jafn skýrar hugmyndafræðilegar línur. Orkan fór þá frekar í deilur um hvaða umgjörð við veljum lífi okkar. Vinstri menn fundu sér nýjan farveg. Baráttan á milli lýðræðisins og alræðishyggju er engu að síður enn í fullu gildi víða um heim.
Afhverju segir þú að það sé hætta á alræði á nýjan leik?
Í Rússlandi hefur þróunin orðið þannig, eftir að reynt var að koma á lýðræði að þar er mikil spilling og upplausn og reglur réttarríkisins ekki virtar. Kína, annað stærsta efnahagskerfi heims, er undir alræðisstjórn. Kínverjar áttuðu sig snemma á því að þeir yrðu aldrei efnahagslega sterkir nema að nýta tæki markaðshagkerfis og það hafa þeir gert skipulega í tæp fjörutíu ár undir stjórn Kommúnistaflokksins. Allar tilraunir til að koma á lýðræðislegum umbótum eru barðar niður.
Í dag finnst mér ákveðin ógn steðja að lýðræðinu. Lýðræðið byggir á opnu samfélagi og að fólk geti valið í frjálsum kosningum fulltrúa til að fara með valdið. Greiður aðgangur að upplýsingum, frjálsir fjölmiðlar og traust menntakerfi skipta sköpum til að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir. Tækniþróunin hefur verið mjög ör undanfarin ár, ekki síst í samskiptum. Hún skapar óteljandi möguleika, upplýsingar berast hratt á milli manna og landa. En þessi jákvæða þróun á sér líka dekkri hlið, þar sem fólk áttar sig ekki alltaf á hvaðan upplýsingar koma og hvert þeirra eigin fara. Nú er nýkomin út bandarísk skýrsla, sem fjallar á nákvæman hátt um hvernig Rússar blönduðu sér í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016. Hvernig vefsíður, sem hafa yfirbragð þekktra fjölmiðla en eru í raun og sann allt annað, dreifa áróðri. Í vaxandi mæli nýtir almenningur sér vefsíður til að afla sér þekkingar og lög um ábyrgð fjölmiðla ná ekki til þeirra. Það er ástæðulaust að ætla að þetta sé einsdæmi. Önnur lönd geta orðið fyrir sams konar innrás.
Sumir halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn í frjálslyndisarminn og íhaldsarminn og að það hafi alltaf verið þannig? Upplifir þú það þannig í dag? Upplifðir þú það þannig á sínum tíma?
Nei. Það geri ég ekki og gerði ekki heldur þá. Auðvitað hafa alltaf verið deilur í Sjálfstæðisflokknum um einhver málefni en mér finnst hinsvegar það hafa oftast verið byggt á persónulegum ágreiningi. Það birtist mér ekki þannig að það sé mikill málefnalegur ágreiningur. Sjálfstæðismenn hafa alltaf viljað samstarf við útlönd, við framleiðum fisk og sjávarafurðir og margt fleira til útflutnings og við verðum að skipta við aðrar þjóðir. Við þurfum á utanríkisverslun að halda. Frelsi í viðskiptum er Íslendingum mjög mikilvægt. Við gengum í EFTA í lok viðreisnartímabilsins og það skipti landið mjög miklu. Við ákváðum síðan, eftir mikil átök á Alþingi, að gera samning við Evrópusambandið um evrópska efnahagssvæðið. Norðmenn voru með okkur á báti í því. Við verðum að skapa okkar afurðum markaðsaðgengi. Þannig tryggjum við okkur aðgang og flæði fjármagns og vinnuafls milli landa.
Ég tel að ávinningurinn af EES sé ótvíræður og við eigum að halda okkur við hann. Það hafa alltaf verið uppi raddir í flokknum um að ganga í ESB en ég tel það útilokað, því við myndum þá missa yfirráðin yfir fiskveiðiauðlindinni og stefna sjávarútveginum í tvísýnu auk annarra neikvæðra þátta. Við unnum mjög mikilvægan og merkilegan sigur í þorskastríðunum og þeim ávinningi og þeim réttindum vil ég ekki fórna til að geta gerst aðili að ESB.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður þurft að horfa upp á ákveðinn klofning, eins og þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður 1987. Við vinnum okkur út úr núverandi stöðu eins og ávallt áður. Við þurfum að leggja áherslu á að ná til ungs fólks og treysta þannig stuðning við sjálfstæðisstefnuna.
Þakklát fyrir fjölbreytta reynslu
Saknar þú stjórnmálanna?
Nei. En maður skilur svo sem aldrei alveg við þau. Ég er þakklát fyrir þá fjölbreyttu reynslu sem ég hef fengið. Ég hef eignast ótal marga vini í gegnum mín pólitísku störf en lífið færir manni alltaf eitthvað nýtt og ný verkefni koma.
Stjórnmál eru óhemju skemmtilegur starfsvettvangur. Þar breytir þú hugmyndum þínum í veruleika. Það er sérstaklega skemmtilegt á sveitarstjórnarstiginu því þar sérðu árangurinn miklu fyrr. Að byggja upp borg og ramma utan um líf fólks í borginni er mjög skemmtilegt. Að sama skapi er dýrt að gera mistök á því stigi.
Fyrir tæpum fimm árum fylgdir þú manni þínum, Geir H. Haarde, til Bandaríkjanna þegar hann var skipaður sendiherra þar. Hefur þú notið þín við þau störf?
Það hefur verið gaman að standa við hlið Geirs í sendiherrastarfi hans. Hann hafði mikil tengsl við Bandaríkin, hafði búið þar í sex ár á námsárunum og lokið prófum frá þremur hátt skrifuðum bandarískum háskólum. Hann naut þess að hafa góð sambönd, það skiptir miklu í þessu starfi. En hann hefur nú látið af þeim störfum og tekið sæti í stjórn Alþjóðabankans. Ísland fer um þessar mundir með sæti Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stjórninni. Það þýðir að það er miklu minna álag á mér. Á meðan hann var sendiherra var þetta stanslaus vinna. Þannig að nú hef ég góðan tíma fyrir ýmis áhugamál.
Viðtalið birtist í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna í nóvember 2019.