Karlar mjólka ekki

Eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur:

Á fallegum sumardegi, fimmtudaginn 13. júlí 1995, birtist grein í Morgunblaðinu eftir fjórar ungar konur undir fyrirsögninni Jöfnum rétt til fæðingarorlofs. Höfundarnir voru Áslaug Magnúsdóttir, Elsa Valsdóttir, Lísa Yoder og Sigríður Björk Guðjónsdóttir sem þá störfuðu með hópi kvenna í Sjálfstæðisflokknum sem kallaði sig Sjálfstæðar konur. Í greininni vörpuðu þær fram þeirri hugmynd að réttur kynjanna til fæðingarorlofs væri jafnaður en hugmyndin þótti róttæk því fæðingarorlof hafði að mestu verið bundið við mæður allt frá því að fyrstu lögin voru sett árið 1946. Af og til voru gerðar breytingar á lögunum en alltaf var meginmarkmið þeirra að huga að heilsu móður og barna með þeirri undantekningu að þegar þriggja mánaða fæðingarorlof til allra kvenna var samþykkt árið 1975 fylgdu ákvæði um að faðirinn gæti tekið einn mánuð með samþykki móður. Með endurskoðun laganna 1989 varð foreldraorlofið 6 mánuðir; einn mánuður var festur móðurinni en foreldrar gátu skipt hinum að vild milli sín. Afar fáir feður nýttu sér réttinn og reyndin var sú að flestar mæður nýttu allt orlofið.

Áherslur Sjálfstæðra kvenna á jafnan rétt kynjanna til fæðingarorlofs og sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs vöktu ekki síst athygli fyrir það að þær þóttu ekki vera í anda þeirrar jafnréttisbaráttu sem þá hafði verið rekin um langt árabil. Vinstri flokkarnir í nafni kvenréttinda lögðu þá megináherslu á að konur fengu lengra fæðingarorlof með þeim rökum að það væri til að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði og um leið efnahagslegt sjálfstæði þeirra. Í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein, sem ögraði þessu viðhorfi, sagði orðrétt:

„Á þinginu nú í vor lögðu þingkonur Kvennalista fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þar kom m.a. fram sú tillaga að lengja skyldi fæðingarorlof í níu mánuði en þar af skyldi a.m.k. einn mánuður ætlaður feðrum. Sjálfstæðar konur telja að beiting slíks úrræðis væri ekki eingöngu gróft brot á réttri feðra sem uppalendur heldur jafnframt til þess fallið að gera konum erfiðara um vik á vinnumarkaði og skekkja samkeppnisstöðu þeirra enn frekar.“

Ungar konur í Sjálfstæðisflokknum héldu því fram að staða kynjanna á vinnumarkaði væri ekki jöfnuð nema hluti fæðingarorlofs yrði beinlínis bundinn feðrum og til að koma á jafnrétti í reynd væri æskilegt að bæði feður og mæður kæmu að umönnun ungra barna. Um það leyti sem þær hófu baráttuna fyrir fæðingarorlofi feðra komu fram svipaðar hugmyndir frá karlanefnd Jafnréttisráðs sem vísaði í reynslu á öðrum Norðurlöndum en þar fyrir utan voru fáir sem áttuðu sig á mikilvægi þess að feður hefðu sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs.

Til að vinna hugmyndunum brautargengi tóku Sjálfstæðar konur virkan þátt í málefnastarfi Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) og þegar Fjölskyldustefna SUS var samþykkt í október 1998 sagði orðrétt:

„Ungir sjálfstæðismenn vilja að báðum foreldrum sé tryggður jafn réttur til fæðingarorlofs eða foreldraorlofs. Lagt er til að það verði gert með þeim hætti að hvort foreldri um sigi eigi rétt á þriggja mánaða sjálfstæðu fæðingarorlofi en þar að auki eigi foreldrar sameiginlega rétt á þriggja mánaða orlofi til viðbótar sem þeir ráða hvernig þeir skipta á milli sín.“

Þar tók SUS forystu meðal ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna um að setja sjálfstætt fæðingarorlof feðra á oddinn. Víða í samfélaginu máttu heyra raddir um fáranleika þess að karlar væru skyldaðir í fæðingarorlof og m.a. var  gripið til þeirra raka að konur ættu að vera heima hjá börnum því karlar mjólki ekki! Efasemdaraddir, um að binda hluta fæðingarorlofs við feður, mátti finna innan Sjálfstæðisflokksins líkt og í öðrum flokkum og nokkuð heit umræða varð um málið á landsfundi í mars 1999. Þorri fundarmanna var sammála um mikilvægi þess að fæðingarorlof væri lengt en tvenn sjónarmið toguðust á;

Annars vegar voru það þeir sem sögðu að það að binda hluta fæðingarorlofs annars vegar við feður og hins vegar við mæður gengi gegn frelsishugsjónum og einstaklingsfrelsi. Mun nær væri að lengja fæðingarorlofið en að foreldrar hefðu frelsi um hvernig fæðingarorlofið skiptist á milli þeirra.

Hins vegar voru það þeir sem sögðu að svo rík hefð væri fyrir því að einungis mæður tækju fæðingarorlof að allar líkur væru á að sú hefð héldi áfram nema hluti orlofsins væri bundinn við feður. Það að væri eina leiðin til að vinnumarkaðurinn ,,sleppti hendinni” af körlum og hleypti þeim inn á heimilin. Jafnframt voru rökin sú að ef faðirinn kæmi í meira mæli inn á heimilið þá auðveldaði það móðurinni að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir fæðingu. Hið opinbera hefði í hálfa öld bundið fæðingarorlof við konur og til að brjóta upp þá miðstýringu og sterku hefð væri óhjákvæmilegt að binda hluta orlofsins við feður og hluta við mæður.

Jafnt og þétt þroskaðist umræðan, konur í flokknum héldu baráttunni áfram bæði innan flokks og utan. Stærstu tímamótin urðu í apríl 1999 þegar Sjálfstæðisflokkurinn gaf út kosningayfirlýsingu þar sem orðrétt sagði:

„Foreldrum á vinnumarkaði verði tryggður réttur til 10 mánaða fæðingarorlofs. Á kjörtímabilinu verði hvoru foreldri um sig tryggður réttur til fullra launa í a.m.k. 3 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn vill að íslenskir stjórnendur taki í auknum mæli tillit til nýrra lífshátta og þarfa fjölskyldunnar.“

Kosningayfirlýsingunni var víða fagnað. Undirrituð var þá formaður SUS og í grein í Morgunblaðinu leyfði ég mér að fullyrða að ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi „umboð til að láta þessa stefnu verða að veruleika er það eflaust eitt stærsta skref í jafnréttisátt sem stigið hefur verið í íslensku samfélagi.“

Sjálfstæðisflokkurinn náði góðum árangri í kosningunum vorið 1999 og myndaði að þeim loknum ríkisstjórn með Framsóknarflokknum sem einnig hafði lagt fram hugmyndir um aukin rétt feðra til töku fæðingarorlofs þó að ekki hefðu þær verið jafn róttækar og Sjálfstæðisflokksins um sjálfstæðan rétt feðra. Í nýrri ríkisstjórn lögðust ýmsir á árarnar við að koma hugmyndunum í framkvæmd en að öðrum ólöstuðum má þó segja að Geir H. Haarde sem þá var fjármálaráðherra hafi leikið lykilhlutverk og í maí 2000 voru samþykkt ný lög um fæðingar- og foreldraorlof. Réttur feðra til töku fæðingarorlofs var rýmkaður þannig að feður öðluðust í byrjun árs 2001 sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og nú er staðan sú að foreldrar eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að 3 mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á 3 mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Nú nýtir mikill meirihluti feðra sér réttinn til fæðingarorlofs og ungir feður koma í mun ríkara mæli að uppeldi barna sinna en fyrir 20-30 árum síðan.  Enn er þó töluvert í land til að hægt sé að segja að árangurinn sé fullnægjandi – mikilvægt er að gera betur og engin ástæða til annars en að finna leiðir til að enn fleiri feður annist ung börn sín.

Forsaga þess að feður öðluðust sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs er saga um svo margt;

  • Hún er saga um það hvernig seigla, óþrjótandi vinna og þolinmæði getur breytt hugmynd í veruleika.
  • Hún er saga um það hvernig stjórnmálamenn geta búið til betra samfélag með þátttöku í ríkisstjórn og lagasetningu á Alþingi.
  • Hún er saga um það að konur í Sjálfstæðisflokknum tóku afgerandi forystu í því að koma á þessu stærsta jafnréttismáli síðustu áratuga.
  • En hún er ekki síst saga um það að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins skapar jafnrétti í reynd – hugmyndafræðin um að það sé sameiginlegt verkefni foreldra að skapa betra samfélag – og hlúa að fjölskyldu og börnum. Við vitum það nú að ung börn þurfa ekki bara mjólk til að nærast – þau þurfa tilfinningasamband og tíma – nóg af ást og umhyggju sem foreldrar af öllum kynjum geta veitt.

Höfundur var formaður SUS árin 1997-1999 — og ein af stofnendum Sjálfstæðra kvenna árið 1994.

Greinin birtist í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna – sjá hér.