Ísland efst fyrir kynjajafnrétti í 11. sinn

Ísland er efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) yfir ríki heims varðandi kynjajafnfrétti, ellefta árið í röð.

Skýrsla ráðsins, Global Gender Gap Report, er nú gefin út í 14. sinn. Þar er metin frammistaða 153 ríkja á sviði kynjajafnréttismála í fjórum meginsviðum; stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði. Samkvæmt nýútkominni skýrslu ráðsins mun það taka tæpa öld að ná fram fullkomnu kynjajafnrétti í heiminum ef árangurinn verður ekki hraðari en verið hefur. Ísland er þó sem fyrr komið mun lengra en flest ríki með 87,7 stig af 100. Næst Íslandi eru Noregur, Finnland og Svíþjóð. Mesta misréttið er í Pakistan, Írak og Jemen.

„Úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins sýnir að Ísland er í fararbroddi í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna enda eru jafnréttismál skilgreind sem grundvallarmannréttindi og forsenda framfara og þróunar í utanríkistefnu okkar. Jafnréttismál eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands, ein birtingarmynd þess er Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur hefur verið á Íslandi um árabil,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Skýrslu ráðsins má í heild sinni finna hér.