Skipun dómara

Sigríður Á. Andersen formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Staða eins dóm­ara við Hæsta­rétt var aug­lýst á dög­un­um. Átta lög­fræðing­ar sóttu um stöðuna. Lög­um sam­kvæmt var nefnd falið að fjalla um hæfni um­sækj­endanna. Nefnd­in lauk störf­um sín­um í síðustu viku með þeirri niður­stöðu að þrír um­sækj­enda væru all­ir jafn hæf­ir til þess að gegna embætt­inu og hæf­ari en aðrir um­sækj­end­ur.

Reikni­for­rit látið ráða

Nú vill til að ég þekki störf þess­ar­ar nefnd­ar og ekki bara af af­spurn. Í maí 2017 skilaði þessi sama stjórn­sýslu­nefnd mér um­sögn um 32 um­sækj­end­ur um stöður fimmtán dóm­ara við Lands­rétt. Komst nefnd­in að þeirri maka­lausu niður­stöðu að ná­kvæm­lega fimmtán um­sækj­end­ur væru hæf­ari en hinir. Hvorki fleiri né færri. Við lög­bundna rann­sókn mína á vinnu­brögðum nefnd­ar­inn­ar, til und­ir­bún­ings til­lögu­gerð minni til Alþing­is, komst ég að því að hún hafði gefið um­sækj­end­um ein­kunn á bil­inu 1-10 og falið tölvu­for­riti að raða upp um­sækj­end­um. Dró nefnd­in svo þá álykt­un af út­reikn­ingn­um að þeir fimmtán sem for­ritið raðaði upp efst væru all­ir jafn­hæf­ir og þótti „ekki rétt að raða þeim sér­stak­lega inn­byrðis í sæti“, eins og seg­ir í álykt­ar­orði. Þó var ljóst að nokkru munaði á ein­kunn­um þess í fyrsta sæti og þess í fimmtánda, ná­kvæm­lega 1,87. Mun­ur á ein­kunn þess í fimmtánda og sextánda var hins veg­ar ekki nema 0,03. Nefnd­in taldi það þó ekki gefa til­efni til þess að álykta að þeir tveir um­sækj­end­ur væru jafn hæf­ir.

Nýr tónn sleg­inn

Í nýj­ustu um­sögn nefnd­ar­inn­ar kveður við ann­an tón en í um­sögn­inni um embætt­in við Lands­rétt. Nú er það mat nefnd­ar­inn­ar að þrír um­sækj­end­ur standi öðrum fram­ar. Nefnd­in tel­ur ekki efni til að gera upp á milli þeirra þriggja og tek­ur fram að „eðli máls sam­kvæmt er sam­an­b­urður á verðleik­um þeirra flók­inn“. Því telji nefnd­in ekki efni til að gera grein­ar­mun á þeim. Til að renna stoðum und­ir þessa niður­stöðu nefnd­ar­inn­ar er tekið fram að þre­menn­ing­arn­ir eigi öll það sam­merkt „að hafa á löng­um og far­sæl­um starfs­ferli getið sér góðs orðspors í störf­um sem hafa gert kröfu um víðtæka þekk­ingu laga á fjöl­mörg­um rétt­ar­sviðum; öll þrjú í þeim mæli að ekki verður greint á milli“. Þetta er nokk­urn veg­inn sama orðalag og kom fram í rök­stuðningi mín­um að til­lögu til Alþing­is í Lands­rétt­ar­mál­inu þegar ég gerði til­lögu um fjóra dóm­ara með meiri dóm­ar­areynslu en aðrir fjór­ir sem tölvu­for­rit nefnd­ar­inn­ar hafði raðað meðal fimmtán hæf­ustu. Það er at­hygl­is­vert að alls er vikið að því fjór­um sinn­um í þess­ari nýj­ustu um­sögn að ekki sé til­efni til þess að gera upp á milli hæfni þess­ara þriggja um­sækj­enda til þess að gegna embætti hæsta­rétt­ar­dóm­ara.

Um­sækj­end­ur hafa áður verið metn­ir

Síst af öll­um verð ég til þess að gera at­huga­semd við þessa nýj­ustu niður­stöðu nefnd­ar­inn­ar. Ég tel rétt­mætt að ætla að þess­ir þrír ein­stak­ling­ar, sem all­ir eru dóm­ar­ar við Lands­rétt, séu í sjálfu sér mjög hæf og geti gegnt dóm­ara­embætti við Hæsta­rétt með sóma. Ég bendi þó á að þrátt fyr­ir mar­g­end­ur­tek­in um­mæli í um­sögn­inni „um að gera ekki upp á milli þess­ara þriggja um­sækj­enda“ þá hef­ur nefnd­in reynd­ar þegar gert það. Nefni­lega í um­sögn sinni í maí 2017. Þá voru þess­um sömu um­sækj­end­um gefn­ar ein­kunn­ir og munaði þar 1,05 á þeim sem efst­ur var af þeim og þeirri sem neðst var. Þá var fjórði um­sækj­and­inn um stöðuna nú, en sem er ekki met­inn meðal hæf­ustu, með 0,20 hærri ein­kunn en einn af þre­menn­ing­un­um sem metn­ir eru hæf­ast­ir nú. Það er tölu­vert meiri mun­ur en sá 0,03 mun­ur sem var á Lands­rétt­ar­um­sækj­end­un­um í fimmtánda og sextánda sæti en voru þá ekki tald­ir sam­bæri­lega hæf­ir.

Ég fæ ekki annað séð en að nefnd­in hafi með þess­ari nýju um­sögn al­farið hafnað sín­um eig­in vinnu­brögðum sem hún viðhafði í Lands­rétt­ar­mál­inu. Ég fagna því. Um leið má ljóst vera að nefnd­in hef­ur líka hafnað fyrri niður­stöðu sinni um hæfni þess­ara til­teknu um­sækj­enda. Niðurstaða henn­ar nú um hæfni um­sækj­endanna er ekki í sam­ræmi við niður­stöðu henn­ar í Lands­rétt­ar­mál­inu. Það sann­ar bara það sem ég hef haldið fram. Mat á hæfni um­sækj­enda eru ekki raun­vís­indi held­ur að nokkru leyti hug­lægt mat sem marg­ir áþreif­an­leg­ir og óáþreif­an­leg­ir þætt­ir hafa áhrif á.

Með nýj­ustu um­sögn sinni hafn­ar nefnd­in líka niður­stöðu Hæsta­rétt­ar um hæfn­ismatið við skip­un í Lands­rétt. Í dóm­um Hæsta­rétt­ar í des­em­ber 2017 í mál­um tveggja um­sækj­enda um stöðu Lands­rétt­ar­dóm­ara sem ég gerði ekki til­lögu um við Alþingi kom fram að dóm­nefnd­in hefði fram­kvæmt „mat sitt í sam­ræmi við fyr­ir­mæli 2. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/​1998 og regl­ur sem um dóm­nefnd­ina gilda“. Eins og kunn­ugt er var ég hvorki sam­mála for­send­um né niður­stöðu þess­ara dóma.

Óumbeðin greiðasemi

Fyrr á þessu ári lýsti einn nefnd­armaður í Morg­un­blaðinu hversu mikið niðurstaða nefnd­ar­inn­ar í Lands­rétt­ar­mál­inu hefði komið hon­um á óvart. Hans eig­in niðurstaða. Niðurstaðan var þó lát­in standa því nefnd­in hafði ákveðið fyr­ir­fram að láta reikni­for­rit velja bara fimmtán um­sækj­end­ur eft­ir ann­ars ágæta skoðun nefnd­ar­inn­ar á hæfi allra um­sækj­enda. Þess­ar upp­lýs­ing­ar lágu ekki fyr­ir í bóta­mál­un­um sem rek­in hafa verið fyr­ir dóm­stól­um vegna skip­un­ar Lands­rétt­ar­dóm­ara. Þá kom fram í frétt­um að ann­ar nefnd­armaður hefði lýst því sem greiðasemi við mig að nefnd­in lagði ein­ung­is til fimmtán um­sækj­end­ur sem hæf­asta til embætt­anna. Þá þyrfti ég ekki að ómaka mig á því að velja um­sækj­end­ur. Ómál­efna­legri vinnu­brögð við mat á hæfni um­sækj­enda er vart hægt að hugsa sér. Ég fagna því að nefnd­in sýn­ir ekki nú­ver­andi ráðherra sömu greiðvikni.

Þeir höggva sem hlífa skyldu

Lands­rétt­ar­málið leiddi í ljós brota­löm við skip­un dóm­ara sem hef­ur viðgeng­ist í ára­tugi. Ég lét það ekki átölu­laust. Það er ánægju­legt að hæfn­is­nefnd­in, sem vissu­lega gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki í aðdrag­anda skip­un­ar, sé nú að láta af vinnu­brögðum sem m.a. umboðsmaður Alþings hef­ur um ára­bil gagn­rýnt og ég hafði fulla ástæðu til að reyna að bæta úr. Mér hefði fund­ist meiri brag­ur á því að nefnd­in kæmi hreinna fram og viður­kenndi mis­tök sín í Lands­rétt­ar­mál­inu og tæki þannig þátt í mál­efna­legri umræðu um fyr­ir­komu­lag við skip­an dóm­ara. Trú­lega er lít­il von til þess. Þess í stað virðast nefnd­ar­menn og þeir dóm­ar­ar sem kváðu upp dóma í des­em­ber 2017 byggða á ófor­svar­an­legri niður­stöðu nefnd­ar­inn­ar horfa í gaupn­ir sér á meðan reynt er að vega að ís­lenskri stjórn­skip­an og Hæsta­rétti á er­lendri grundu. Nýj­asta um­sögn nefnd­ar­inn­ar er þó skref í átt að betr­un. Íslensk stjórn­völd hljóta að koma því á fram­færi í mála­ferl­un­um í Strass­borg.

Greinin biritst í Morgunblaðinu 16. desember 2019.