Iðkendum hjá Þrótti hefur fjölgað um 70% á síðustu fimm árum og félagið getur ekki með góðu móti tekið á móti fleiri börnum í knattspyrnu yfir vetrartímann. Samningar um nýtingu Laugardalshallar hafa ekki staðist svo æfingar í handbolta og blaki falla alltof oft niður. Það þýðir að vísa þarf börnum frá, sem þurfa þá að stunda slíkar íþróttir í öðrum hverfum eða sleppa því. Þróttarar hafa lagt til uppbyggingaráætlun sem birt hefur verið borgarráði. Félagið hefur boðað samráð við skólana í hverfinu um nýtingu á íþróttahúsi en engin íþróttaaðstaða er við Laugalækjarskóla og lítill salur við Laugarnesskóla. Grundvallarforsenda fyrir uppbyggingu og rekstri slíkra mannvirkja er samnýting, að þau séu í notkun sem flesta tíma dagsins.

Starfshópur á vegum borgarinnar, sem ég sjálf sit í, komst að þeirri niðurstöðu að uppbygging aðstöðu fyrir Þrótt og Ármann væri brýnni en önnur uppbygging í Laugardalnum og æskilegt væri að hefja skipulagsvinnu og rýni á rekstrarforsendum á svæðinu. Ekki er að sjá að þetta sjónarmið hópsins hafi skilað sér inn í fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Þrátt fyrir að talað sé um að greina þörf á aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í meirihlutasáttmálanum, segir meirihlutinn í borgarstjórn nú að ekki sé hægt að leysa úr aðstöðuvanda í Laugardal fyrr en hinn flókni kapall um þjóðarleikvanga leystist. Enginn veit hversu langan tíma það mun taka, á meðan skulu íbúar Laugardals bíða og sætta sig við mun lakari aðstöðu en íbúar annarra hverfa. Borgarstjórinn, sem einnig hefur málefni þjóðarleikvanga á sínu borði, ætti hið minnsta að geta gefið íbúum Laugardals svör um hversu lengi í viðbót þeir þurfa að bíða.