80 dauðsföll

Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:

Talið er að 80 ótíma­bær dauðsföll eigi rót sína að rekja til svifryks­meng­un­ar á Íslandi. Á þessu ári hef­ur svifryk farið 14 sinn­um yfir heilsu­vernd­ar­mörk. Borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur samþykkti í sept­em­ber á síðastliðnu ári til­lögu eða yf­ir­lýs­ingu um að svifryk færi aldrei yfir heilsu­vernd­ar­mörk. Í kjöl­farið lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fram til­lögu að aðgerðaáætl­un til að bæta loft­gæði borg­ar­inn­ar svo svifryk færi ekki yfir heilsu­vernd­ar­mörk.

Auðvelt að bregðast strax við

Meðal aðgerða sem lagðar voru til í til­lög­unni var end­ur­skoðun á efn­is­vali borg­ar­inn­ar varðandi gæði efna í mal­biki, þrif yrðu auk­in á um­ferðaræðum (sóp­un, þvott­ur og ryk­bind­ing), að frítt verði í strætó á „grá­um dög­um“, tak­mörk­un þunga­flutn­inga með efni sem valdið geta svifryks­meng­un á „grá­um dög­um“, dregið úr notk­un nagla­dekkja í borg­ar­land­inu og að íbú­ar í fjöl­býl­is­hús­um geti hlaðið raf­bíla með auðveld­um hætti, að nýt­ing affalls­vatns verði notuð í aukn­um mæli til að hita upp göngu- og hjóla­stíga borg­ar­inn­ar og að end­ingu að unnið verði gegn dreif­ingu byggðar.

Samþykkja ekki þving­un­araðgerðir

Síðan til­lag­an var lögð fram hafa liðið rúm­ir átta mánuðir og svifryk mæl­ist ít­rekað yfir heilsu­vernd­ar­mörk­um. Full­trú­ar meiri­hlut­ans hafa viðrað hug­mynd­ir um tak­mark­an­ir og þving­an­ir á um­ferð þegar loft­gæði eru slæm. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Reykja­vík mun aldrei styðja slík­ar hug­mynd­ir meiri­hlut­ans í borg­inni fyrr en unnið hef­ur verið að aðgerðaáætl­un Sjálf­stæðis­flokks­ins. Sem bet­ur fer hafa all­ir bæj­ar­stjór­ar höfuðborg­ar­svæðis­ins einnig tekið fyr­ir að fara í slík­ar aðgerðir.

Áhuga­leysi meiri­hlut­ans

Loft­gæðamál­in virðast meiri­hlut­an­um mjög viðkvæm enda hef­ur skyn­söm full­bú­in til­laga þess efn­is beðið af­greiðslu í rúm­lega átta mánuði. Skyldi ástæða þess að málið hafi ekki fengið af­greiðslu vera að meiri­hlut­inn í Reykja­vík hef­ur lít­inn áhuga á að laga loft­gæðamál­in í Reykja­vík, vegna þess að það hent­ar ekki hans póli­tík? Því er strax stokkið á þær hug­mynd­ir að banna og þvinga fólk til hegðunar sem það hefði ekki kosið sér sjálft, í stað þess að vinna að lausn­um vanda­máls­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2019.