Nýtt fulltrúaráð stofnað á Austurlandi

Sjálfstæðismenn á Austurlandi stofnuðu nýtt fulltrúaráð í þann 29. nóvember með sameiningu þriggja fulltrúaráða. Hið nýja fulltrúaráð nær yfir Fljótsdalshérað, Borgarfjörð eystri, Djúpavog og Seyðisfjörð, en framangreind sveitarfélög hafa samþykkt að sameinast í vor.

„Það er frábært að upplifa kraftinn og áhugann í starfinu og þá bjartsýni sem ríkir vegna sameiningar sveitarfélaganna. Það eru ekki allir sem funda á föstudagskvöldi á þessum árstíma og hvað þá að mæting sé þetta góð. Það er bjart yfir nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Gangi ykkur vel,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í tilefni af stofnun fulltrúaráðsins.

Hilmar Gunnlaugsson var kjörinn nýr formaður fulltrúaráðsins. Adolf Guðmundsson var kjörinn varaformaður, Elísabet Guðmundsdóttir gjaldkeri, Karl Lauritzson ritari og aðrir í stjórn eru: Jakob Sigurðsson, Gauti Jóhannesson, Sigurður Gunnarsson, Skúli Vignisson, Jónas Ástþór Hafsteinsson og Oddný Björk Daníelsdóttir.

Auk fulltrúaráðsfólks mætti forysta flokksins, þau Bjarni Benediktsson formaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður, Jón Gunnarsson ritari, Birgir Ármannsson þingflokksformaður og Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri til fundarins.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hélt einnig fund á Egilsstöðum sama dag þar sem stofnun fulltrúaráðsins var samþykkt.

Forysta flokksins tók svo jafnframt þátt í ýmsum hliðarviðburðum sem haldnir voru á Egilsstöðum þennan dag.