Bjarni hlaut viðurkenningu frá hugverkaréttarhöfum

„Ég varð mjög þakklátur í dag, á degi íslenskrar tónlistar, þegar ég tók við viðurkenningu fyrir að hafa fyrstur fjármálaráðherra á heimsvísu gert hugverkaréttindum jafnhátt undir höfði og öðrum réttindum, þannig að ekki skipti máli hvort um hugverk eða tréverk er að ræða, þegar kemur að skattlagningu,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook-síðu sinni eftir að hafa tekið við viðurkenningunni.

Alþingi samþykkti í haust frumvarp fjármálaráðherra um þetta mál.

„Þetta skiptir þá sem starfa í skapandi greinum miklu máli, því þetta þýðir að höfundaréttartekjur teljast frá og með næsta ári til fjármagnstekna, en verða ekki skattlagðar eins og launatekjur. Þetta hefur verið baráttumál höfunda um árabil, og án þess að á nokkurn sé hallað, voru tónlistarmenn þar fremstir í flokki. Sú barátta hafði ekki borið árangur, enda höfðu hagsmunasamtök þeirra ítrekað fengið þau svör að þetta tíðkaðist hvergi. Mér þóttu það ekki nógu góð rök, enda yrðu aldrei neinar breytingar ef enginn yrði fyrstur til að breyta,“ sagði Bjarni.