Stundum vindhani – stundum ábyrgur

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Það er fjarstæða að halda því fram að það sé eitthvað sérstakt mál Sjálfstæðisflokksins að krefjast þess að kosið verði um framtíð Elliðaárdalsins. Að baki tillögunni um íbúakosningu á fundi borgarstjórnar hinn 19. nóvember síðastliðinn stóðu fjórir flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Sósíalistaflokkur og Flokkur fólksins. Eins hafa samtök eins og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins krafist þess að kosið verði um framtíð dalsins í íbúakosningu. Þess utan hafa bæði Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun talið að þær framkvæmdir sem ráðgert er að ráðast í geti skaðað lífríki Elliðaárdalsins.  Auk þess hafa félagasamtök eins og Landvernd og Stangaveiðifélag Reykjavíkur gert alvarlegar athugasemdir við þessar framkvæmdir.

Það er ekki óþekkt með öllu, þó það sé heldur ekki algengt, að kosið sé um umdeild umhverfis- og skipulagsmál. Á síðustu árum eru að finna þrjú dæmi þess að sveitarstjórnir hafi sett þrjú þannig mál í íbúakosningu. Kosið var um stækkun álversins í Straumsvík, iðnaðaruppbyggingu í Helguvík og um skipulag nýs miðbæjar á Selfossi. Það væri því ekki um einsdæmi að ræða þó íbúakosning færi fram um framtíð Elliðaárdals.

Elliðaárdalurinn skreppur saman

Það er ekki lengra síðan en árið 2016, að það svæði sem nú á að leggja undir gróðurhvelfingu Aldin Biodome var skilgreint í skýrslunni „Sjálfbær Elliðaárdalur – Stefna Reykjavíkur“ sem hluti Elliðaárdals.  Sama ár voru þó kynnt áform um úthlutun 5000 fermetra lóðar á svæðinu með 1500 fermetra byggingamagni. Nú þremur árum síðar er lóðin sem stendur til að úthluta Aldin Biodome orðin 12.500 fermetrar og byggingamagnið þrefaldað eða 4.500 fermetrar. Samtals  er fyrirhugað að úthluta 45 þús. fermetrum í dalnum undir lóðir. Auk þess hafa borgaryfirvöld á þessum þremur árum breytt umræddu svæði frá því að vera hluti dalsins yfir í að vera það sem kallað er jaðar dalsins. Má því segja að Elliðaárdalurinn sé að skreppa saman, enda munu framkvæmdirnar þrengja verulega að dalnum.

Nafn Garðheima kom t.d. óvænt upp í þessu sambandi, þar sem það kom fyrst fram í viðtali við forseta borgarstjórnar Pawel Bartozsek borgarfulltrúa Viðreisnar í þættinum í Bítið á Bylgjunni hinn 25. nóvember. Það eru þó engin tíðindi að fulltrúar meirihlutans missi út úr sér í fjölmiðlum eitthvað um áform sín áður en þau eru kynnt fyrir ráðum og nefndum borgarinnar eða öðrum hagsmunaaðilum.

Hver veit nema að það þrengist enn frekar að dalnum, reki á fjörur meirihlutans fleiri óþekktir fjárfestar?

Skilyrt lýðræðisást forseta borgarstjórnar
 
Í áðurnefndu viðtali í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni sagði Pawel Bartozsek það vera skyldu sína sem kjörins fulltrúa að taka ákvörðun um hvort ráðist yrði í svona framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í Elliðaárdalnum og að hann gæti ekki stöðugt verið að hlaupa um eins og pólitískur vindhani eftir skoðunum annarra. 
 
Þessi sami borgarfulltrúi virðist þó ekki treysta sér til þess að ráðstafa 400 milljónum af viðhaldsfé borgarinnar til lögbundinna verkefna og blæs því árlega til rándýrra íbúakosninga um hvar framkvæma skuli almennt viðhald á leiktækjum, göngustígum o.fl. Það sér það hver vitiborin manneskja að lýðræðisástin er ekki mikil þegar lýðræðið hentar bara fyrir sjálfsögð smáverkefni en ekki umdeildar stórframkvæmdir.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. nóvember 2019.