Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti í dag um stofnun lögregluráðs. Ráðið tekur til starfa 1. janúar 2020 og sitja þar lögreglustjórar landsins ásamt ríkislögreglustjóra sem veitir ráðinu einnig formennsku.
Markmiðið með stofnun lögregluráðs er að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Gert er ráð fyrir að ráðið fundi mánaðarlega þar sem farið verður yfir samstarfsverkefni lögregluembættana, verklag, framþróun og stefnu lögreglunnar.
Þá upplýsti ráðherra einnig í dag um að Haraldur Johannessen hafi óskað eftir því að láta af störfum sem ríkislögreglustjóri frá og með næstu áramótum og að gerður hafi verið starfslokasamningur við hann. Kjartan Þorkelsson, lögreglustjórinn á Suðurlandi, verður settur í embætti ríkislögreglustjóra þar til nýr ríkislögreglustjóri hefur verið skipaður.