Dópið í Dalnum

Egill Þór Jónasson borgarfulltrúi:

Á síðasta fundi borgarstjórnar lögðu minnihlutaflokkarnir fram sameiginlega tillögu um að farið yrði í íbúakosningu um fyrirhugaða stóruppbyggingu í Elliðaárdalnum við Stekkjabakka. Uppbyggingin er gríðarlega umdeild en fyrsti áfangi uppbyggingarinnar í dalnum hljóðar upp á 6.600 fermetra byggingarmagn á um 22.000 fermetra svæði. Tillagan var felld með einu atkvæði Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri Grænna.

Markmið tillögunnar var að kanna hug borgarbúa til uppbyggingar í Elliðaárdalnum. Lagt var upp með að leggja svohljóðandi spurningu fyrir borgarbúa: Ert þú hlynnt/ur eða andvíg/ur tillögu að breytingu að deiliskipulagi Elliðaárdals vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar við Stekkjarbakka. 

Eiturlyfjasala og innbrot?

Umræðan í borgarstjórn var lífleg, stundum málefnaleg en oft á tíðum úti á túni. Það vakti mikla athygli hvað meirihlutaflokkar borgarstjórnar lögðu sig fram í að afvegaleiða umræðuna. Enda er málið þeim afar erfitt og mörgum spurningum enn ósvarað. Margir í grasrótum þessara meirihlutaflokka sem kenna sig við umhverfisvernd, almannahagsmuni og íbúalýðræði geta ekki sætt sig við slík vinnubrögð sinna kjörnu fulltrúa. 

Þvælan náði hámarki þegar oddviti Viðreisnar reyndi að réttlæta þessa uppbyggingu með því að lýsa þessu svæði sem gróðrarstíu eiturlyfjasölu og bílainnbrota. Þessi stimpill sem margir hafa reynt að klína á Breiðholtið er orðinn þreyttur. Tölur lögreglunnar sýna að fíkniefnabrot eru ekki fleiri í Breiðholtinu en í öðrum hverfum, þess þá heldur ekki ef fjöldi brota á íbúa er tekinn inn í jöfnuna. Því er klúðurslegt að réttlæta stórframkvæmdir í Elliðaárdalnum með þessum hræðsluáróðri. Enn fremur var einkennilegt að hlusta á fulltrúa borgarstjórnar halda því fram að byggingarnar sem þarna eigi að rísa verði „grænar“, en þetta svæði sé nú raskað. Einungis frasa-stjórnmálamenn reyna halda slíkum þvættingi fram. Hvenær eru byggingar grænni en gróin svæði?  

19 þúsund fermetrar í viðbót

Ofuráhersla á þéttingu byggðar má ekki vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni. Eins og áður segir eru áformin sem um ræðir gerir ráð fyrir 6.600 fermetra byggingarmagni á um 22.000 fermetra svæði. Þessi uppbygging er hins vegar aðeins byrjunin á því sem koma skal. Vænta má töluvert meiri uppbyggingu á svæðinu. Næsta skref er að úthluta tæplega 19 þúsund fermetra lóð neðar á svæðinu. Það eykur byggingarmagn í dalnum enn frekar og eru þau áform enn meiri atlaga að grænasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Óhjákvæmilega veltir maður því upp hvar eigi næst að sækja að dalnum og Elliðaánum sem slíkum. 

Kannski er skiljanleg ástæða fyrir afvegaleiðingu umræðunnar. Hún er meirihlutanum mjög erfið, auk þess er uppbyggingin í Elliðaárdalnum bara rétt að byrja miðað við núverandi deiliskipulag svæðisins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2019.