Hofmóður borgarstjórnar

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Að hlusta ekki á borg­ar­búa eða láta sér í léttu rúmi liggja skoðanir þeirra er rétt­ur þeirra sem fara með meiri­hluta í borg­ar­stjórn. Líki kjós­end­um ekki ákv­arðanir þeirra er lítið við því að gera. Nema helst í næstu kosn­ing­um. Meiri­hlut­inn þarf ekk­ert að hlusta á kjós­end­ur, það er þeirra póli­tík.

En borg­ar­stjórn þarf hins veg­ar að hlusta á ábend­ing­ar, at­huga­semd­ir og ráðlegg­ing­ar frá op­in­ber­um eft­ir­lits­stofn­un­um sem hafa það hlut­verk að fylgj­ast með að störf sveit­ar­fé­lags­ins séu í sam­ræmi við lög og regl­ur sem um þau gilda. Slík­ar at­huga­semd­ir ber­ast allt of oft á borð borg­ar­stjórn­ar. Og allt of oft er ábend­ing­um þess­um svarað með hroka, skæt­ingi og út­úr­snún­ingi.

Útúr­snún­ing­ar og skæt­ing­ur

Nýj­ustu dæm­in eru þegar lög­regl­an bend­ir á að skipu­lag á hring­torgi er ekki í sam­ræmi við um­ferðarlög þá er því svarað út í hött, að torgið sé ekki hring­torg þó að það liggi í hring. Svona svör eru eng­um til sóma.

Þegar Vinnu­eft­ir­litið bend­ir á að merk­ing­ar á sal­ern­um í stjórn­sýslu­hús­næði borg­ar­inn­ar séu ekki sam­kvæmt regl­um og lög­um er því svarað að eft­ir­lit stofn­un­ar­inn­ar gangi í ber­högg við sam­fé­lags­lega þróun og til vitn­is um viðhorf aft­ur­halds og fortíðar. Vinnu­eft­ir­litið hef­ur með vinnu­vernd­ar­mál að gera. Svona skæt­ing­ur er óþarf­ur.

Þegar bent er á að eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga sé enn í haust að gera at­huga­semd­ir við að margít­rekuðum spurn­ing­um henn­ar í tengsl­um við fram­kvæmd­ir við Bragg­ann hafi ekki enn þá verið svarað né held­ur út­skýrt hvort ráðist hafi verið í úr­bæt­ur á verk­ferl­um hjá borg­inni, sem klár­lega mis­fór­ust við fram­kvæmd­ina. Þá er gripið til út­úr­snún­inga, talað um grund­vall­armis­skiln­ing og vind­högg. At­huga­semd­ir frá eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga ber að taka al­var­lega, í stað þess að sýna þeim lít­ilsvirðingu.

Eng­inn yfir lög haf­inn

Þetta eru aðeins örfá og nýj­ustu dæm­in um hof­móð borg­ar­stjórn­ar. Þó að Reykja­vík­ur­borg sé stórt sveit­ar­fé­lag þarf borg­ar­stjórn ekki að vera stór upp á sig. Á land­inu eru 72 sveit­ar­fé­lög, sem taka hlut­verk sitt al­var­lega, rækja skyld­ur sín­ar af vand­virkni og vilja fara að lög­um. Reykja­vík á ekki að skera sig úr þess­um hópi. Það að vera í póli­tík set­ur eng­an yfir lög og regl­ur. Ég kann ekki við svona hof­móð. Mér leiðast út­úr­snún­ing­ar, skæt­ing­ur og hroki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2019.