Þráhyggjukennd nálgun gagnvart ESB

„Þegar menn saka mig um ESB-daður eða kalla mig Evrópusambandssinna, þá eru menn í raun orðnir rökþrota,“ segir Guðlaugur Þór og hlær við í viðtali við Þjóðmál þar sem hann var spurður út í gagnrýni á sig við stuðning við þriðja orkupakkann þar sem hann og aðrir þingmenn flokksins voru sakaðir um undirlægjuhátt og eftirgjöf gagnvart Evrópusambandinu.

Hann segir ýmsar blikur á lofti þegar horft er til stöðu ESB.

„Það sem mér hefur fundist vanta er að menn líti á stóru myndina og þá sérstaklega í sambandi við Brexit. Bretar taka, í lýðræðislegum kosningum, ákvörðun um að fara úr ESB. Menn geta haft ýmsar skoðanir á niðurstöðu þeirra kosninga, en þetta er engu að síður ákvörðun sem þeir taka og hana ber að virða. Bretar eru aftur á móti ekki að fara neitt, þeir eru ekki að fara að flytja Bretlandseyjar í Kyrrahafið og verða því alltaf hluti af Evrópu,“ segir Guðlaugur Þór

Hann segir vont fyrir alla ef niðurstaðan verður sú að viðskiptahindranir verði á milli Bretlands og ríkjanna innan ESB og á EES-svæðinu.

„Það mun koma niður á öllum hagkerfum. Það verða engir sigurvegarar í tollastríði en mögulega er hægt að deila um hver tapar mest á þannig ástandi,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það er ekki mikið sem Ísland getur gert í þessu máli annað en að gæta ítrustu hagsmuna okkar – og það höfum við gert. Mér er til efs að samskipti Íslands og Bretlands hafi verið jafn náin í mjög langan tíma. Það er mikil samstaða á milli þjóðanna um að þegar Bretar fara út getum við samið um framtíðarfyrirkomulag á viðskiptum okkar. Við ætlum áfram að eiga náin og góð samskipti og viðskipti við Breta. Í víðara samhengi er mikilvægt að hafa í huga að Evrópa og Evrópusambandið eru ekki einn og sami hluturinn. Sum lönd í Evrópu eru í ESB en önnur ekki, sum eru í EES en önnur ekki, það sama gildir um NATO, Schengen-samstarfið, EFTA, evrusamstarfið og þannig mætti áfram telja. Þetta er lagskipt samstarf og það er allt í lagi. Það er vanmetið vandamál, þessi ofsalega mikla harka eða einurð þeirra sem vilja sjá eitt sambandsríki í Evrópu, að það sé bara eina lausnin og að það sé óeðlileg staða að vilja eiga góð samskipti án þess að vera hluti af sambandsríki. Ég held að menn hafi í of langan tíma lagt of mikla áherslu á þetta samrunaferli,“ segir hann.

Spurður út í hvort að hugmyndin um aukinn Evrópusamruna sé dottin upp fyrir sig segir hann:  „Mér hefur að vísu aldrei fundist sú hugmynd raunhæf og ég er búinn að fylgjast með þessum málum í yfir 30 ár. Ég hef ekki tölu á því hversu marga fundi ég hef átt um þetta mál, fyrst sem fulltrúi í ungliðahreyfingu, síðar á vettvangi EFTA og nú á þessum vettvangi.“

Hann segir þetta þráhyggjukennda nálgun.

„Alltaf þegar menn lenda á vegg í þessu ferli, sem menn hafa gert ítrekað, virðist eini lærdómurinn vera sá að menn ætli sér að fara í enn meiri samruna. Hætta er sú að á einhverjum tímapunkti endi þetta í öngþveiti í stað þess að menn horfist í augu við raunveruleikann. Það er mikilvægt að eiga gott samstarf í Evrópu; ríkin og löndin eru mismunandi og það er ekkert að því. Þvert á móti gerir það þessa heimsálfu bæði fjölbreyttari og skemmtilegri. Á sama tíma er þó mikilvægt að það sé opið fyrir viðskipti, ekki bara innan Evrópu heldur líka fyrir utan Evrópu,“ segir Guðlaugur Þór.

Nánar er rætt við Guðlaug Þór í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála – sjá hér. Þar fer Guðlaugur Þór yfir helstu þætti í utanríkismálum landsins, samstarfið á norðurslóðum, samskiptin við Bandaríkin og Rússland, veru Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og loks Evrópusamstarfið, sem er iðulega í umræðunni hér á landi. Einnig er rætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.