Ekki valkvætt að fara að lögum

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Í sept­em­ber 2018 reyndi ég að vekja at­hygli þing­manna á því að Rík­is­út­varpið ohf. fari ekki að lög­um sem um fyr­ir­tækið gilda. Í tæpa níu mánuði hafi rík­is­fyr­ir­tækið virt að vett­ugi skýrt laga­ákvæði um stofn­un dótt­ur­fé­lags um sam­keppn­is­rekst­ur. Eng­inn siðapostuli, inn­an þings eða utan, tók til máls og krafðist þess að ein­hver axlaði ábyrgð. Engu er lík­ara en í hug­um sumra stjórn­mála­manna skipti það meira máli hver brýt­ur lög en að all­ir fari að lög­um.

Enn í dag fer Rík­is­út­varpið ekki að lög­um en von­ir standa til að það breyt­ist inn­an skamms í kjöl­far áfell­is­dóms Rík­is­end­ur­skoðanda í skýrslu til Alþing­is sem kynnt var ný­lega: „Rík­is­end­ur­skoðandi bend­ir á að ekki sé val­kvætt að fara að lög­um. Það er skylda RÚV ohf. að fara eft­ir þeim.“

Í 4. grein laga um Rík­is­út­varpið seg­ir meðal ann­ars:

„Rík­is­út­varpið skal stofna og reka dótt­ur­fé­lög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyr­ir aðra starf­semi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“

Lög­in voru samþykkt í mars 2013 að frum­kvæði Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur, þáver­andi mennta­málaráðherra. Í bráðabirgðaákvæði var Rík­is­út­varp­inu veitt tíma­bund­in heim­ild til „að afla tekna með viðskipta­boðum, sölu og leigu á vör­um sem tengj­ast dag­skrárefni þess og ann­arri þjón­ustu sem fell­ur und­ir 4. gr. þar til dótt­ur­fé­lög hafa verið stofnuð og eru tek­in til starfa“. Í upp­hafi var Rík­is­út­varp­inu gert skylt að stofna dótt­ur­fé­lag sem tæki til starfa í árs­byrj­un 2014. Í bandormi í tengsl­um við gerð fjár­laga var gildis­tök­unni frestað til árs­byrj­un­ar 2016. Í des­em­ber 2015 fékk Rík­is­út­varpið enn frest og nú til 1. janú­ar 2018. Með öðrum orðum: Rík­is­út­varpið fékk tvö ár til að und­ir­búa stofn­un dótt­ur­fé­lags um sam­keppn­is­rekst­ur, til viðbót­ar þeim tveim­ur árum sem liðin voru frá því að fyrst var stefnt að aðskilnaði sam­keppn­is­rekstr­ar með form­leg­um hætti.

En ekk­ert var gert held­ur haldið áfram eins að það sé val­kvætt fyr­ir Rík­is­út­varpið að fara að ákvæðum laga. Í því skjóli sótti rík­is­fyr­ir­tækið harðar fram á sam­keppn­ismarkaði.

Horft í gegn­um fing­ur sér

Ég hef haldið því fram, meðal ann­ars hér á síðum Morg­un­blaðsins, að ekk­ert rík­is­fyr­ir­tæki eða -stofn­un njóti meiri vel­vilja meðal meiri­hluta þing­manna en Rík­is­út­varpið. Kannski er það þess vegna sem horft er í gegn­um fing­ur sér þegar lög eru brot­in. Ef vil vill er það vel­vilj­inn sem kem­ur í veg fyr­ir að efnt sé til op­ins fund­ar í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd, þar sem kraf­ist er svara um hvers vegna skýr laga­leg fyr­ir­mæli eru að engu virt. Allt er gert svo ekki komi brest­ir í varð- og þagn­ar­múr­inn um rík­is­rekna fjöl­miðlun.

Tals­menn Rík­is­út­varps­ins höfðu ekki mikl­ar áhyggj­ur af ástand­inu þegar vak­in var at­hygli á að lög­um væri ekki fram­fylgt. Því var haldið fram að vand­inn væri „ýmis laga­leg álita­efni sem finna þarf lausn á áður en næstu skref verða tek­in“. Sá sem les 4. gr. laga um Rík­is­út­varpið og kemst að því að uppi sé laga­legt álita­efni hlýt­ur að vera í stór­kost­leg­um vand­ræðum með all­ar laga­grein­ar sem gilda um rík­is­miðil­inn.

„Þetta átti að vera til­búið í vor frá Rík­is­end­ur­skoðun en hef­ur dreg­ist. Við erum mjög feg­in að vera loks­ins búin að fá stimp­il­inn frá Rík­is­end­ur­skoðun,“ sagði formaður stjórn­ar Rík­is­út­varps­ins í viðtali við Frétta­blaðið síðastliðinn mánu­dag en að nú yrðu brett­ar upp erm­ar, vinnu­hóp­ur sett­ur á lagg­irn­ar og stofn­un dótt­ur­fé­lags und­ir­bú­in.

Það er sér­kenni­legt, svo ekki sé meira sagt, þegar stjórn­ar­formaður rík­is­fjöl­miðils gef­ur í skyn að Rík­is­end­ur­skoðandi beri ein­hverja ábyrgð á að ekki hafi verið farið að lög­um. En auðvitað vona ég að yf­ir­lýs­ing for­manns­ins í Frétta­blaðinu sé byggð á mis­skiln­ingi og klaufa­legu orðalagi. En hitt er annað að í liðlega sex ár hef­ur vilji lög­gjaf­ans verið skýr en tvisvar verið ákveðið að gefa Rík­is­út­varp­inu frek­ari frest til að und­ir­búa vinn­una. Orð stjórn­ar­for­manns­ins benda til þess að eng­in slík vinna hafi farið fram, ekk­ert verið und­ir­búið og það hafi verið ein­beitt­ur vilji að hundsa skýr fyr­ir­mæli laga. Rík­is­end­ur­skoðandi gef­ur í skýrslu sinni til kynna að stjórn og stjórn­end­ur Rík­is­út­varps­ins hafi haft skjól í mennta- og menn­ing­ar­ráðuneyt­inu: „RÚV sér mikla van­kanta á því fyr­ir­komu­lagi og sér­fræðing­ar ráðuneyt­is­ins telja óvissuþætti því tengdu of mikla til að hægt sé að leggja það til við ráðherra að þrýst verði á um stofn­un dótt­ur­fé­laga.“

Sé þetta rétt mat Rík­is­end­ur­skoðanda hlýt­ur lög­gjaf­ar­valdið – Alþingi – að huga að stöðu sinni gagn­vart fram­kvæmda­vald­inu.

Skipt­ir þetta ein­hverju?

Rík­is­út­varpið er ekk­ert venju­legt rík­is­fyr­ir­tæki held­ur op­in­bert hluta­fé­lag með trygg­ar tekj­ur af skött­um sem vel flest­ir lands­menn verða að greiða. Á kom­andi ári verða fram­lög­in yfir 4.800 millj­ón­ir króna. Þessu til viðbót­ar eru tekj­ur af sam­keppn­is­rekstri, ekki síst aug­lýs­ing­ar. Sam­kvæmt árs­reikn­ingi námu þess­ar tekj­ur um 2.351 millj­ón á liðnu ári.

Í skjóli laga­legra for­rétt­inda hef­ur Rík­is­út­varpið gert strand­högg á markaði í sam­keppni við frjálsa fjöl­miðla og sjálf­stæða fram­leiðend­ur, sem standa höll­um fæti gagn­vart of­urafli. Kannski er merki­leg­ast hverj­ir þegja þunnu hljóði og láta sér í léttu rúmi liggja þótt skýr fyr­ir­mæli í lög­um séu sett út í horn ef það hent­ar öfl­ugu rík­is­fyr­ir­tæki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. nóvember 2019.