Frumvarp um vistvænar samgöngur samþykkt í ríkisstjórn

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla og annarra reiðhjóla var samþykkt í ríkisstjórn í gær (26.11.2019).

Í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að umhverfissjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi við gerð frumvarpsins.

Það hefur að meginmarkmiði að greiða fyrir orkuskiptum og vistvænum samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að auðvelda fólki kaup á hvers kyns vistvænum hjólum.

Verði frumvarpið samþykkt hefur það í för með sér að felldur verður brott virðisaukaskattur af rafmagnsreiðhjólum og öðrum reiðhjólum, upp að ákveðnu marki. Gert er ráð fyrir að hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verði 96 þúsund krónur en 48 þúsund fyrir reiðhjól og var sú upphæð tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt stjórnvalda.

Sjá nánar hér í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.