Bryndís Haraldsdóttir var í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2016 og 2017. Hún hefur starfað í Sjálfstæðisflokknum í 17 ár, eða síðan 2002. „Þetta var fyrir prófkjörið í sveitarstjórnarkosningunum í Mosfellsbæ árið 2002. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn nokkrum vikum áður, en ég mætti á aðalfund ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ eftir að hafa séð auglýsingu frá þeim á bensínstöðvum í bænum,“ segir Bryndís um aðdragandann að hennar pólitísku þátttöku.
Loftslagsmálin mikilvæg
Umhverfismál eru Bryndísi mjög hugfangin. „Ég held að loftlagsmálin séu eitt af okkar mikilvægustu verkefnum og við þurfum að grípa til aðgerða,“ segir Bryndís. Hún segir að það séu ekki aðeins grípa til aðgerða í loftlagsmálum heldur einnig í umhverfismálum heilt yfir, s.s. í sorpmálum og vegna plastmengunar. „Tækifærin mín sem þingmaður er fyrst og fremst að vekja athygli á málum, og setja mál á dagskrá,“ segir Bryndís. „Það hef ég gert t.d. með þingsályktunum, s.s. um dánaraðstoð og mál sem tengjast auknu frelsi hvað varðar hvað verði um líkamsleifar okkar eftir dauðann,“ segir Bryndís. „Ég hef miklar skoðanir á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og tel nauðsynlegt að ráðist verði í uppbyggingu á samgöngukerfi svæðisins, ég er einarður talsmaður borgarlínu og tel mikilvægt að við eflum almenningssamgöngur. Það þarf að efla stofnæðakerfið og tryggja að umferðin okkar virki. Það er lífsgæðamál fyrir fjölskyldur enda ótækt að þurfa að eyða klukkustundum í ónýttan tíma í bílaröðum,“ segir Bryndís.
Kom í veg fyrir að fjölskyldan flytti úr Mosfellsbæ
Bryndís hefur búið í Mosfellsbæ frá 10 ára aldri, en hún flutti þangað frá Akureyri. „Ég ólst upp á Kleppi hjá einstæðri móður sem var hjúkrunarfræðingur. Hún ákvað þegar ég var 8 ára að hún væri að vinna of mikla vaktavinnu og við fluttum á Akureyri. Þar bjuggum við í þrjú ár og kynntist hún þar fósturpabba mínum. Þaðan lá leiðin aftur til Reykjavíkur, og fékk mamma húsnæði hjá Reykjalundi sem átti að vera skammtímaúrræði,“ segir Bryndís. Útlit var fyrir að fjölskyldan flytti úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur þegar Bryndís kom í veg fyrir það. „Þau skoðuðu hús í Reykjavík, en mér var svo vel tekið í Varmárskóla og ég var orðin ástfangin af Mosfellsbæ. Þannig ég sagði nei, ég vildi búa þar áfram. Þau skoðuðu þá eitt hús í Mosfellsbæ, og búa þau þar enn,“ segir Bryndís og hlær.
Vel tekið af konunum í starfinu
Þegar Bryndís hóf þátttöku í stjórnmálum, þá 26 ára gömul hafði hún kosið einu sinni til sveitarstjórnar. „Mér fannst þetta allt mjög áhugavert, ég held að það hafi verið á kjördag þegar ég kaus fyrst til sveitarstjórnar að ég ákvað að ég yrði næst sjálf í framboði,“ segir Bryndís. „Á þessum tíma brunnu á mér leikskólamálin, en þá var ég með eitt barn og í fæðingarorlofi. Í þá daga var ekkert niðurgreitt hjá dagforeldrum og börnin komust ekki inn í leikskóla fyrr en við tveggja ára aldur,“ segir Bryndís.
Fyrstu árin hennar í stjórnmálunum voru fjölskyldumálin henni mjög hugleikin. „Við gerðum margt, leikskólar tóku fyrr inn eins og kostur var og sveitarfélagið byrjaði að taka þátt í kostnaði vegna dagforeldra. Leikskólar lokuðu ekki vegna sumarleyfa og foreldrum gafst meira svigrúm til að velja hvenær börnin færu í frí. Það tók sinn tíma að ná sumu af þessu í gegn.“
Framan af leitaði hugur Bryndísar ekki til landsmálanna. „Fyrst ætlaði ég ekki að taka þátt í neinu nema sveitarstjórnarmálunum,“ segir Bryndís. Hún varð fljótlega formaður ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ eftir að hún hóf afskipti af stjórnmálum. „Fljótlega upp úr því var mér boðið á fund hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna og þegar ég mætti til fundarins steig ég inn í Valhöll í fyrsta skipti,“ segir Bryndís. „Mér var mjög vel tekið af SUS og sérstaklega af þeim konum sem voru þá í starfinu. Ég byrjaði að taka þátt í flokksstarfinu af miklum þunga og var á lista í Suðvesturkjördæmi í þingkosningunum 2003, þá í áttunda sæti,“ segir Bryndís.
„2016, þegar boðað var til kosninga með stuttum fyrirvara ákvað ein af mínum bestu vinkonum að gefa ekki kost á sér aftur og vaknaði þá umræða í sveitarfélaginu og kjördæminu um að þörf sé á konum. Ég tók áskoruninni og gaf kost á mér,“ segir Bryndís og vísar þar til vinkonu sinnar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis, sem gaf ekki kost á sér á nýjan leik en Ragnheiður er úr Mosfellsbæ líkt og Bryndís. Bryndís hafði árin á undan helgað sig bæjarmálunum, sem formaður bæjarráðs, formaður skipulagsnefndar og stjórnarformaður Strætó.
„Hvað í ósköpunum er ég búin að koma mér út í?“
„Þingmannsstarfið er krefjandi,“ segir Bryndís. „Ég hef aldrei á ævinni unnið eins mikið og síðasta vetur. Þetta kemur svolítið í törnum. Stundum hef ég komið heim eftir að börnin og maðurinn eru farin að sofa, og farin áður en þau eru vöknuð. En þess á milli koma góð hlé þar sem hægt er að sinna fjölskyldu og sjálfum sér betur,“ segir Bryndís. „Fyrst eftir að ég settist á þing hugsaði ég með mér hvað í ósköpunum ég væri búin að koma mér út í,“ segir hún.
„Ég skildi ekki hvernig við ættum svona mörg að geta rætt saman og komist að sameiginlegri niðurstöðu,“ segir hún og hlær. „En eftir ákveðinn tíma finnur maður sitt hlutverk. Ég sé ekki eftir neinu, þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf og það er heiður að fá að taka þátt í því,“ segir Bryndís.
Viðtalið birtist í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna 6. nóvember 2019. Blaðið má nálgast hér.