Aukum traust á íslensku atvinnulífi

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Aukið gagn­sæi í rekstri stærri fyr­ir­tækja og sam­starf við Mat­væla- og land­búnaðar­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (FAO) eru meðal aðgerða sem rík­is­stjórn­in kynnti í gær. Mark­mið þeirra er að auka traust á ís­lensku at­vinnu­lífi eft­ir um­fjöll­un um viðskipta­hætti Sam­herja í síðustu viku.

Rétt er halda því til haga að ís­lensk stjórn­völd hafa á und­an­förn­um árum ráðist í mikl­ar úr­bæt­ur á sviði pen­ingaþvætt­is, mútu­brota og skattund­an­skota. Hins veg­ar hef­ur þetta mál gefið til­efni til frek­ari aðgerða líkt og rík­is­stjórn­in hef­ur nú samþykkt. Þær aðgerðir eiga það sam­eig­in­legt að verið er að bregðast við með al­menn­um hætti og rétt að gera nokkra grein fyr­ir þeim aðgerðum sem helst snerta mitt ráðuneyti.

Aukið gagn­sæi í rekstri stærri fyr­ir­tækja

Und­ir­bún­ing­ur er haf­inn að laga­frum­varpi um rík­ari upp­lýs­inga­skyldu hlut­falls­lega stórra fyr­ir­tækja sem geta haft kerf­is­læg áhrif í ís­lensku efna­hags­lífi. Er þetta gert til að auka gagn­sæi um starf­semi þess­ara fyr­ir­tækja og tryggja bet­ur heil­indi og orðspor ís­lensk at­vinnu­lífs. Jafn­framt er þetta í sam­ræmi við ný­lega ráðgjöf Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins, AGS.

Nýj­ar kröf­ur um aukið gagn­sæi munu ná til fyr­ir­tækja í öll­um at­vinnu­rekstri. Ég hef óskað eft­ir því að við þessa vinnu verði tekið til sér­stakr­ar skoðunar hvort gera þurfi enn rík­ari kröf­ur um gagn­sæi til stærri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja sem ekki eru skráð á hluta­bréfa­markaði.

Sam­starf við FAO

Ég mun hafa frum­kvæði að því að Mat­væla- og land­búnaðar­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna (FAO) vinni út­tekt á viðskipta­hátt­um út­gerða sem stunda veiðar og eiga í viðskipt­um með afla­heim­ild­ir þ.ám. í þró­un­ar­lönd­um. Á grund­velli út­tekt­ar­inn­ar vinni FAO til­lög­ur til úr­bóta í sam­vinnu við aðrar alþjóðleg­ar stofn­an­ir sem vinna að heil­brigðum viðskipta­hátt­um, gegn spill­ingu, mút­um og pen­ingaþvætti. Ráðuneyti mitt hef­ur þegar átt í sam­skipt­um við for­svars­fólk FAO um slíkt sam­starf og hef­ur þessu frum­kvæði verið tekið með já­kvæðum hætti.

FAO er stærsta alþjóðlega stofn­un­in sem sinn­ir reglu­bundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fisk­veiða og þróun sjáv­ar­út­vegs á heimsvísu. Á vett­vangi stofn­un­ar­inn­ar hafa verið gerðir alþjóðasamn­ing­ar m.a. til að tak­ast á við ólög­leg­ar veiðar og bæta stjórn og upp­lýs­inga­gjöf með fisk­veiðum. Verk­efnið fell­ur því vel að hlut­verki stofn­un­ar­inn­ar.

Óvissu eytt um tengda aðila

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar um eft­ir­lit Fiski­stofu frá því í janú­ar á þessu ári kem­ur fram að ekki verði séð að Fiski­stofa kanni með nægj­an­lega trygg­um hætti hvort yf­ir­ráð tengdra aðila í sjáv­ar­út­vegi yfir afla­hlut­deild­um sé í sam­ræmi við það há­mark sem er skil­greint í lög­um um stjórn fisk­veiða. Því þurfi að end­ur­skoða 13. og 14. gr. lag­anna svo regl­ur um há­marks­afla­hlut­deild verði skýr­ari.

Í mars 2019 skipaði ég verk­efn­is­stjórn und­ir for­ystu Sig­urðar Þórðar­son­ar, fyrr­ver­andi rík­is­end­ur­skoðanda, til að koma með til­lög­ur um bætt eft­ir­lit með fisk­veiðiauðlind­inni. Nefnd­inni var m.a. falið að bregðast við fyrr­greindri ábend­ingu Rík­is­end­ur­skoðunar. Í kjöl­far umræðu síðustu daga hef ég nú óskað eft­ir því við nefnd­ina að hún skili til­lög­um þar að lút­andi fyr­ir 1. janú­ar nk. Þá er að vænta til­lagna frá nefnd­inni á næstu vik­um um bætt eft­ir­lit með fisk­veiðum og með vigt­un sjáv­ar­afla.

Orðspor Íslands

Ég bind von­ir við að þau viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem birt­ast í þess­um al­mennu aðgerðum, til viðbót­ar við þær miklu úr­bæt­ur sem gerðar hafa verið á und­an­för­um árum, muni leiða til þess að orðspor Íslands verði ekki fyr­ir miklu tjóni. Þar eru mikl­ir hags­mun­ir í húfi fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag, m.a. í ljósi þess að rúm­lega 98% af ís­lensku sjáv­ar­fangi eru flutt á er­lend­an markað. Það er því kapps­mál fyr­ir alla hlutaðeig­andi að sam­ein­ast um það verk­efni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2019.