Aðförin að Elliðaárdalnum

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi, næst­kom­andi þriðju­dag, ætl­ar borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn að samþykkja end­an­lega breytt deili­skipu­lag norðan Stekkj­ar­bakka, í sunn­an­verðum Elliðaár­daln­um.

Ferðamanna-Disney-land í Elliðaár­dal­inn

Þessi skipu­lags­breyt­ing snýst um ný land­nýt­ingaráform á svæðinu svo hægt verði að standa við lóðar­vil­yrði borg­ar­stjórn­ar til einkaaðila. Þar er áformað að reisa mann­virki und­ir gróður­hvelf­ing­ar og veit­ing­a­rekst­ur. Gert er ráð fyr­ir bygg­ing­um að grunn­fleti 4.500 fer­metr­ar, bíla­stæðum fyr­ir hundruð öku­tækja auk þess sem borg­in ætl­ar að út­hluta þrem­ur öðrum lóðum á þessu svæði und­ir ým­iss kon­ar at­vinnu­rekst­ur.

Fátt eitt ligg­ur fyr­ir um það hvort lóðaverðið kem­ur til með að svara kostnaði borg­ar­inn­ar við að gera svæðið lóðar­hæft og mál­svar­ar meiri­hlut­ans hafa viður­kennt að þeir hafi ekki hug­mynd um það hver á end­an­um ætli að fjár­magna þetta tröllaukna túrista­fyr­ir­tæki sem þarna á að rísa.

Land­vernd stend­ur með Elliðaár­daln­um

Eins og geta mátti nærri hef­ur verið ær­andi þögn um þessi fyr­ir­huguðu um­hverf­is­spjöll á meðal sjálf­skipaðra um­hverf­is­vernd­arsinna í Sam­fylk­ingu og Vinstri-græn­um. Ég benti reynd­ar á þá staðreynd í grein í Morg­un­blaðinu 7. nóv­em­ber sl. Í til­efni þeirr­ar grein­ar birt­ist grein í Morg­un­blaðinu síðastliðinn miðviku­dag eft­ir Tryggva Felix­son, formann Land­vernd­ar. Sú skil­merki­lega grein tek­ur af all­an vafa um af­stöðu Land­vernd­ar í þessu máli. Þar kem­ur fram að full­trú­ar Land­vernd­ar hafi kynnt sér fyr­ir­hugaðar deili­skipu­lags­breyt­ing­ar og fram­kvæmd­ir á svæðinu. Í grein Tryggva seg­ir m.a.: „Stjórn­in [Land­vernd­ar] tók und­ir mörg þau gagn­rýn­is­sjón­ar­mið sem koma fram í um­sögn Um­hverf­is­stofn­un­ar og taldi að þau ein hefðu átt að gefa til­efni til að breyta áform­um um nýtt deili­skipu­lag. Stjórn Land­vernd­ar tel­ur að með þeim breyt­ing­um sem áformaðar eru sé verið að ganga á afar vin­sælt og skjól­sælt úti­vist­ar­svæði með fjöl­breyttu líf­ríki og áhuga­verðum menn­ing­ar­minj­um.“

Um­hverf­is­farsi á Alþingi

Tveim­ur dög­um áður hafði Vil­hjálm­ur Árna­son, þingmaður Suður­kjör­dæm­is, lagt fram á Alþingi fyr­ir­spurn til um­hverf­is­ráðherra, Guðmund­ar Inga Guðbrands­son­ar, um hvort ekki væri rétt að friðlýsa Elliðaár­dal­inn og bjarga hon­um þannig frá þess­um fyr­ir­huguðu spjöll­um borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­ans. En þar var annað hljóð í strokkn­um.

Vinstri-græni um­hverf­is­ráðherr­ann hef­ur af sjálf­um sér og öðrum verið tal­inn með um­hverf­issinnaðri stjórn­mála­mönn­um. Hann er með meist­ara­gráðu í um­hverf­is­fræðum frá sjálf­um Yale-há­skóla, var stofn­andi og fyrsti formaður Fé­lags um­hverf­is­fræðinga á Íslandi, var fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar 2011-2017 og er nú vara­formaður Vinstri-grænna. Hann hef­ur því að öll­um lík­ind­um flögrað á sín­um um­hverf­i­s­vængj­um alla leið í ráðherra­stól um­hverf­is- og auðlinda­mála.

Þessi góði um­hverf­ismaður tókst all­ur á loft við fagr­ar nátt­úru­lýs­ing­ar Vil­hjálms á Elliðaár­daln­um, flögraði í pontu og setti síðan í svari sínu dægi­lega um­hverf­is­plötu á fón­inn eins og slík­um mönn­um ber að gera við op­in­ber­ar aðstæður sem þess­ar. Eitt­hvað þótti samt Vil­hjálmi eins og hug­ur fylgdi ekki al­veg máli hjá ráðherr­an­um þegar kom að Elliðaár­daln­um og ít­rekaði því er­indið: að Alþingi ætti að friðlýsa Elliðaár­dal­inn. Ráðherr­ann kom nú aft­ur í pontu. En þá var ekki leng­ur tími fyr­ir þing­heim að hlusta á fleiri um­hverf­is­plöt­ur svo ráðherr­ann var styttri í spuna en í fyrra skiptið. Hann sagðist að sjálf­sögðu vera sam­mála öllu sem fram hefði komið hjá fyr­ir­spyrj­anda en sagðist ekki taka af­stöðu til Elliðaár­dals­ins sem slíks, enda væri ekki hægt að friðlýsa eitt­hvert svæði nema það svæði væri á slíkri áætl­un Alþing­is, eða þá að fram kæmi slík ósk frá borg­ar­yf­ir­völd­um. Þannig fór um sjó­ferð þá. Gamla sag­an um Heródes og Pílatus.

Kjós­um um Elliðaár­dal­inn

Nú ligg­ur því fyr­ir að Vinstri-græn hafa ekki áhuga á friðlýs­ingu Elliðaár­dals­ins, hvorki í borg­ar­stjórn né á Alþingi, enda langt í næstu kosn­ing­ar. En það skyldi þó ekki vera að Breiðhylt­ing­ar, Árbæ­ing­ar, Foss­vogs­bú­ar og kannski Reyk­vík­ing­ar all­ir séu, þegar kem­ur að Elliðaár­daln­um, meiri um­hverf­issinn­ar en borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn. Við borg­ar­full­trú­ar minni­hlut­ans ætl­um því að leggja fram til­lögu í borg­ar­stjórn á þriðju­dag­inn kem­ur um að fram fari al­menn íbúa­kosn­ing um deili­skipu­lagið sem hér um ræðir. Þetta ætl­um við að gera í þeirri veiku von að full­trú­ar meiri­hlut­ans, Sam­fylk­ing­ar­fólk, Vinstri-græn, Pírat­ar og Viðreisn­ar­fólk, hafi ein­hvern tíma meint eitt­hvað með öllu sínu sjálfs­hóli þegar kem­ur að hug­sjón­um nátt­úru­vernd­ar og lýðræðis.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.