Hvað höfum við lært?

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Berlín­ar­múr­inn stóð í 28 ár sem merki um kúg­un, lít­ilsvirðingu gagn­vart rétt­ind­um ein­stak­linga og mann­rétt­ind­um. Minn­is­varði um mis­heppnaða þjóðfé­lagstilraun í nafni sósí­al­ism­ans. Leiðtog­ar Þýska alþýðulýðveld­is­ins – Aust­ur-Þýska­lands – voru ekki drifn­ir áfram af mann­vonsku þegar múr­inn var reist­ur árið 1961. Múr­inn var ör­vænt­ing­ar­full til­raun til að koma í veg fyr­ir að fólk gæti tekið til fót­anna og yf­ir­gefið landið – kom­ist und­an ör­birgð og kúg­un. Um 3,5 millj­ón­ir Aust­ur-Þjóðverja höfðu flúið land og múrn­um var ætlað að stöðva blóðtök­una.

Síðastliðinn laug­ar­dag var þess minnst að þrjá­tíu ár voru frá því að öm­ur­leg­ur minn­is­varði féll. Berlín­ar­múr­inn var áþreif­an­legt járntjald sem Winst­on Churchill talaði um í frægri ræðu árið 1946 við West­minster Col­l­e­ge í Fult­on, Mis­souri í Banda­ríkj­un­um. Járntjald sem risti Evr­ópu í tvennt; lýðræðis­ríki og alræðis­ríki komm­ún­ism­ans.

Sósí­al­ism­inn fell­ur

Árið 1989 riðaði sósí­al­ism­inn til falls í Aust­ur-Evr­ópu. Sov­ét­rík­in glímdu við gríðarlega efna­hags­lega erfiðleika og mat­ar­skort. Í Póllandi hafði frels­is­bylgja þegar náð að leika um landið und­ir fán­um Sam­stöðu. Í ág­úst mynduðu tvær millj­ón­ir íbúa Eystra­salts­ríkj­anna – Eist­lands, Lett­lands og Lit­há­ens – 600 kíló­metra langa keðju þvert yfir lönd­in, til að krefjast sjálf­stæðis frá Sov­ét­ríkj­un­um. Ung­verja­land opnaði landa­mær­in til Aust­ur­rík­is.

Nokkr­um mánuðum fyr­ir fall múrs­ins – sem Willy Brandt kallaði múr skamm­ar­inn­ar – hafði heim­ur­inn hins veg­ar verið minnt­ur óþyrmi­lega á hversu reiðubún­ar alræðis- og kúg­un­ar­stjórn­ir eru til að beita eig­in lands­menn of­beldi.

Á Torgi hins him­neska friðar í Pek­ing höfðu mót­mæli, und­ir for­ystu stúd­enta, verið brot­in aft­ur með hervaldi. Þúsund­ir lágu í valn­um og fjöldi var hand­tek­inn. Hreins­an­ir hóf­ust, er­lend­ir blaðamenn rekn­ir úr landi, emb­ætt­is­mönn­um vikið úr starfi, rit­skoðun hert og ör­ygg­is­lög­regl­an styrkt.

Í skugga hrotta­verka í Pek­ing vakti fall Berlín­ar­múrs­ins nýj­ar von­ir um að þrátt fyr­ir allt gætu þjóðir Aust­ur-Evr­ópu brot­ist und­an oki sósí­al­ism­ans. Tæpu ári síðar var Þýska­land sam­einað að nýju í eitt ríki. Þá blöstu staðreynd­irn­ar við – mun­ur­inn á þjóðfé­lög­um markaðsbú­skap­ar og miðstýr­ing­ar sósí­al­ism­ans. Lands­fram­leiðsla Vest­ur-Þýska­lands á mann var um það bil þre­falt meiri en í Aust­ur-Þýskalandi. Póli­tísk og efna­hags­leg til­rauna­starf­semi í austri hafði mistek­ist.

Draum­ar breyt­ast í martraðir

Aust­ur-Þýska­land þróaðist í al­ræmt lög­reglu­ríki og átti ekk­ert skylt við „alræði ör­eig­anna“ eins og lofað var. Þar, líkt og í öll­um öðrum ríkj­um sósí­al­ism­ans, lærði al­menn­ing­ur harða lex­íu. Þegar markaðsöfl­un­um er kippt úr sam­bandi og eign­ar­rétt­ur virt­ur lít­ils eru af­leiðing­arn­ar stöðnun, skort­ur og verri lífs­kjör. Hvat­inn hverf­ur og við tek­ur þjóðfé­lag til­skip­ana. Póli­tísk kúg­un, efna­hags­leg mis­tök og ör­birgð eru inn­byggð í hug­mynda­fræði sósí­al­ism­ans.

Vest­ræn­ir mennta­menn sem marg­ir hverj­ir höfðu heill­ast af Sov­ét­ríkj­un­um voru flest­ir orðnir af­huga drauma­land­inu í austri á fimmta og sjötta ára­tug síðustu ald­ar. Í huga þeirra hafði sósíal­ísk framtíðar­sýn Marx og Eng­els ekki verið fram­kvæmd rétt í Ráðstjórn­ar­ríkj­un­um. Sum­ir bundu von­ir við Aust­ur-Þýska­land, aðrir við Kína. Síðar var litið von­ar­aug­um til Kúbu. Fidel Castro var átrúnaðargoð með Che Gu­evara sér við hlið. En draum­arn­ir breytt­ust í martraðir.

Jafn­vel tæp­um ára­tug eft­ir fall Berlín­ar­múrs­ins töldu marg­ir vinstri­menn á Vest­ur­lönd­um að loks­ins væri hægt að „fram­kvæma“ sósí­al­ismann með rétt­um hætti. Hugo Chavez, for­seti Venesúela, varð eft­ir­læti þeirra. Chavez sagðist vera bylt­ing­armaður sem berðist fyr­ir lýðræðis­leg­um sósí­al­isma 21. ald­ar­inn­ar. Frá nátt­úr­unn­ar hendi voru tæki­fær­in til staðar. Venesúela býr yfir gríðarleg­um ol­íu­auðlind­um – þeim mestu í heim­in­um. En hægt og bít­andi var auðug­asta landi Suður-Am­er­íku umbreytt í nafni sósí­al­ism­ans í ríki eymd­ar­inn­ar. Eft­ir óstjórn og spill­ingu sósí­al­ista er sam­fé­lagið komið að hruni og efna­hag­ur­inn í rúst. Lands­fram­leiðslan hef­ur dreg­ist sam­an um nær helm­ing frá 2013. Skort­ur er á flest­um nauðsynj­um; mat, neyslu­vatni, lyfj­um og raf­magni. Millj­ón­ir hafa flúið land.

Gjaldþrota hug­mynd

En þrátt fyr­ir sög­una og óræk­an dóm henn­ar lif­ir í glæðum sósí­al­ism­ans. Dr. Kristian Niemietz, hag­fræðing­ur og yf­ir­maður í stjórn­mála­hag­fræði hjá Institu­te of Economic Affairs, hitt­ir lík­lega nagl­ann á höfuðið í nýrri bók sinni; Sósí­al­ismi: Gjaldþrota hug­mynd sem aldrei deyr (Social­ism: The Fai­led Idea That Never Dies). Og því miður virðist sem hug­mynda­fræði sósí­al­ista sé kom­in aft­ur í tísku víða um Evr­ópu á sama tíma og öfga­full­ir þjóðern­is­flokk­ar sækja í sig veðrið.

Ný­leg skoðana­könn­un leiðir í ljós að aðeins rúm­lega helm­ing­ur (54%) Þjóðverja tel­ur að fall Berlín­ar­múrs­ins hafi verið af hinu góða. Önnur könn­un leiðir í ljós að meiri­hluti íbúa aust­ur­hlut­ans tel­ur að þeir hafi notið sann­girni frá sam­ein­ingu. Í Þýskalandi sem ann­ars staðar í Evr­ópu hef­ur sundr­ung – póla­ríser­ing – stjórn­mál­anna auk­ist. Upp­lausn stjórn­mál­anna er vatn á myllu gjaldþrota hug­mynda­fræði marx­ista og þjóðern­is­sinna.

Að þessu leyti höf­um við lítið lært á þeim 30 árum sem liðin eru frá falli Berlín­ar­múrs­ins. Við sem höf­um verið tals­menn op­ins sam­fé­lags, markaðsbú­skap­ar og frjálsra viðskipta, höf­um lík­lega ekki skilið þá þungu undiröldu sem liðast um alla Evr­ópu og raun­ar flest lönd hins frjálsa heims. Um leið og við stönd­um traust­an vörð um markaðshag­kerfið – kapí­tal­ismann – verðum við að hafa burði til þess að viður­kenna að þrátt fyr­ir alla sína kosti er markaðshag­kerfið ekki galla­laust. Það er skylda bar­áttu­manna frjáls hag­kerf­is að sníða galla þess af. Ann­ars verður alltaf til frjór jarðveg­ur fyr­ir hug­mynda­fræði sem hef­ur kostað millj­ón­ir manna ör­birgð, þján­ing­ar og dauða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019.