Elliðaárdalnum fórnað á altari óþekktra hagsmuna

Björn Gíslason borgarfulltrúi:

Við lestur fréttar í Fréttablaðinu á mánudaginn var, sem birt var undir fyrirsögninni „Verulega hugsi yfir seinagangi kerfisins“ um hið svokallaða Aldin Biodome, 4.500 fermetra gróðurhvelfingu,  sem reisa á í Elliðaárdalnum, svelgdist mér hreinlega á í orðsins fyllstu merkingu. Ekki vegna framsetningu fréttarinnar heldur vegna þess sem þar kom fram.

Það er einkum óvissan um fjármögnun verkefnisins, sem ég er verulega hugsi yfir, en kostnaðurinn við verkefnið er sagður 4.500 milljónir króna. Þá er rétt að hafa í huga að hér er borgin að útdeila gæðum – lóð á besta stað – í eigu skattgreiðenda án þess að greitt sé fyrir hana að fullu.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa spurt hverjir kæmu að fjármögnun verkefnisins og kvaðst enga vitneskju um það hafa. Þetta er auðvitað ekki trúverðugur málflutningur hjá Hjálmari og því rétt að spyrja hvað borgaryfirvöld hafi að fela hvað fjármögnunina varðar.

Ef rétt reynist að borgin búi ekki yfir upplýsingum um fjármögnunina er það gersamlega ábyrgðarlaust gagnvart skattgreiðendum í borginni, sem á endanum borga brúsann. Enda er ljóst er að Reykjavíkurborg þarf að leggja út í mikinn kostnað, sem gæti hlaupið á yfir milljarði króna, s.s. fráveitulagnir o.fl., svo verkefnið geti orðið að veruleika.

Með það í huga er mjög eðlilegt að borgaryfirvöld fái einhvers konar staðfestingu á því að verkefnið sé fjármagnað að fullu og hverjir standa þar að baki áður en lengra er haldið og lóðin gefin.

Borgaryfirvöld ættu ekki að gleyma því að Elliðaárdalurinn er einstakur í sinni röð á heimsvísu, með ótal fallegum gönguleiðum,  fjölbreyttu lífríki og ómengaðri laxveiðiá, þar sem er búið að veiða lax lengur en elstu menn muna. Öllu þessu má aldrei fórna af skefjalausu ábyrgðarleysi á altari óþekktra hagsmuna

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. nóvember 2019.