„Við erum stolt af landinu okkar. Við viljum vera í fremstu röð. Við erum framsækin, metnaðarfull og bjartsýn þjóð. Við viljum, þrátt fyrir að vera smá í alþjóðlegu samhengi, skipa okkur á bekk með þeim sem standa fremst á alla mælikvarða mannlífsins og okkur hefur gengið vel samkvæmt öllum úttektum að gera einmitt það,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í stöðuuppfærslu á facebook vegna umræðunnar undanfarna daga.
Þá segir hann Íslendinga taka fullan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að auka velmegun og velsæld á grundvelli „sanngirni, frjálsra viðskipta og friðar.“
„Við gerum skýra kröfu um að lög og reglur séu virt og þegar einhver brýtur gegn þessum grundvallargildum gerum við ráð fyrir að slíkt hafi afleiðingar.
Við viljum að þar til bærar stofnanir upplýsi, taki ákvörðun um ákæru og dæmi eins og efni eru til. Þannig viljum við að hlutirnir virki, vegna þess að það er rétt. Og það er meðal annars þess vegna sem Ísland skipar sér í flokk með þeim þjóðum heimsins þar sem spilling er minnst,“ segir Bjarni
Hann segir nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar einstaka stjórnmálamenn stíga nú fram og tala um Ísland sem „megnasta spillingarbæli.“
„Það skiptir miklu, þegar einstök mál koma upp sem nauðsynlegt er að rannsaka opinberlega, að halda þeim grunngildum á lofti sem tryggt hafa góða stöðu okkar og framúrskarandi lífskjör. Fyrir þeim árangri höfum við barist í kynslóðir og eigum að segja þá sögu með stolti,“ segir Bjarni.