Sýndarlýðræði í hverfiskosningum

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Núna hafa staðið yfir kosningar hjá Reykjavíkurborg þar sem fólk getur kosið um verkefni sem það vill sjá fjármögnuð í sínu hverfi. Það eru þó stórir gallar á þessum kosningum þar sem þar inni er að finna verkefni sem nú þegar hafa verið samþykkt og fjármögnuð. Íbúar í Grafarvogi hafa 59 milljónir til þess að deila niður á 25 hugmyndir. Ef allar þessar 25 hugmyndir verða framkvæmdar þá myndi það kosta 250 milljónir.

Þessar 59 milljónir eru því ekki að fara að dekka nema örlítið brot af þeim óskum sem íbúar Grafarvogs hafa sett inn í þessar kosningar. Það sem vekur furðu þegar þessi verkefni eru skoðuð er að þarna inni er verkefni upp á 35 milljónir sem þegar hefur verið samþykkt að fara í og eru að fullu fjármögnuð. Þetta á við um salernisaðstöðu við Gufunesbæ og hundagerði. Furðulegt sýndarlýðræði er því hér í gangi, hjá meirihluta sem kennir sig við góða stjórnsýslu.

Viðhaldsverkefni eiga ekki heima í hverfiskosningum

Þarna eru svo verkefni sem myndu hjá flestum okkar flokkast sem viðhaldsverkefni. Það á ekki að þurfa að kjósa um að laga göngustíga og malbika. Þetta eru viðhaldsverkefni sem ekki eiga að keppa við ærslabelg eða púttvöll um fjármögnun. Hvernig verkefni skiptast á milli hverfa er síðan ákaflega undarlegt, þar sem Bryggjuhverfið fær til dæmis ekkert. Þar er ekkert verkefni sem fólk getur kosið um. Ekki hefur því verið passað upp á jafnræði innan hverfanna.

Leggja niður hverfiskosningar og færa peninganna til íbúaráðanna

Núna nýverið tóku íbúaráð aftur til starfa, þau hafa ekki verið virk eftir kosningar. Mikið hefur verið talað um að valdefla íbúa Reykjavíkurborgar. Færa meira vald út til hverfanna. Hér er kjörið tækifæri til að færa meira vald til hverfanna. Það ætti því að leggja þessar kosningar niður og færa ráðstöfunarferlið alfarið til hverfisráðanna. Þar með erum við að færa meira vald beint út í hverfin.

Miðað við hversu illa hefur gengið að skipuleggja þessar einföldu kosningar og þar sem greinilega er skortur á yfirsýn yfir hvað nú þegar hefur verið samþykkt og sett í ferli hjá Reykjavíkurborg er eðlilegast að íbúaráð hafi yfirumsjón með þessum fjármunum þar sem þau hafa mun betri yfirsýn yfir það sem er verið að gera eða þarf að gera innan hverfanna.

Almenn viðhaldsverkefni eiga síðan ekki heima í þessum kosningum enda ættu slík verkefni ávalt að vera á forræði borgarinnar.

Greinin birtist á Vísi 12. nóvember.