Skáldaleyfi Skúla

Eftir Eyþór Arnalds:

Grein Skúla Helga­son­ar fimmtu­dag­inn 7. nóv­em­ber sem rituð var und­ir fyr­ir­sögn­inni Viðrar vel til loft­árása? vakti at­hygli. Enn eina ferðina til­kynn­ir Skúli að loka eigi Korpu­skóla áður en skólaráðið sjálft fái ráðrúm til að taka end­an­lega af­stöðu til lok­un­ar grunn­skóla í norðan­verðum Grafar­vogi. Það skýt­ur skökku við að Skúli skuli til­kynna að búið sé að taka ákvörðun um lok­un Korpu­skóla áður en fund­ur er hald­inn í skóla- og frí­stundaráði. Ekki síst vegna þess að ein­mitt sama dag og fund­ur­inn er hald­inn, þriðju­dag­inn 12. nóv­em­ber, renn­ur út um­sagn­ar­frest­ur for­eldr­aráða og skólaráða.

Við í Sjálf­stæðis­flokkn­um höf­um lagt til mark­viss­ar til­lög­ur til að koma í veg fyr­ir lok­un Korpu­skóla. Í fyrsta lagi höf­um við lagt til sam­rekst­ur leik- og grunn­skóla í skóla­hús­næðinu. Í öðru lagi að fjölga í ár­göng­um þannig að ung­ling­ar komi til baka sem send­ir voru burt á sín­um tíma. Í þriðja lagi höf­um við lagt til að heim­ila upp­bygg­ingu í Staðahverfi til að tryggja næg­an nem­enda­fjölda í skól­an­um. Þetta eru skyn­sam­leg­ar til­lög­ur sem myndu tryggja rekst­ur Korpu­skóla til fram­búðar.

Skákað í skálka­skjóli

Skúli full­yrðir að þar sem ung­ling­ar voru tíma­bundið send­ir í Vík­ur­skóla árið 2008 vegna myglu í úti­kennslu­stof­um sé búið að fækka í skól­an­um. Þessi ráðstöf­un fyr­ir meira en áratug var tíma­bund­in og það á formaður skóla- og frí­stundaráðs að vita. Reynd­ar er Sam­fylk­ing­in á sínu þriðja kjör­tíma­bili í meiri­hluta í Reykja­vík og get­ur ekki skýlt sér bak við aðra. Sam­fylk­ing­in hef­ur farið með for­mennsku í skóla- og frí­stundaráði all­an tím­ann. Níu ár hafa ekki dugað Sam­fylk­ing­unni til að draga þessa tíma­bundnu ráðstöf­un til baka en í staðinn er hún notuð sem skálka­skjól. Staðreynd­in er sú að nægt pláss er í Korpu­skóla fyr­ir alla nem­end­ur Staðahverf­is. Þetta vita Grafar­vogs­bú­ar og eru ósátt­ir við ger­ræðið í ráðhús­inu.

Við skul­um vona að fyr­ir­sögn grein­ar Skúla „Viðrar vel til loft­árása?“ verði ekki orð að sönnu hvað skólastarf í Grafar­vogi snert­ir. Í stað þess að leggja til at­lögu við skólastarf í Grafar­vogi ráðlegg ég meiri­hlut­an­um að sýna sóma sinn í því að draga þessa til­lög­ur sín­ar til baka og finna far­sæla lausn í sátt og sam­lyndi við íbúa og starfs­fólk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 11.11.2019