Fjölbreytni gerir okkur sterkari

Á þeim 90 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við lýði hefur margt breyst í íslensku samfélagi. Við höfum farið frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu til þess að vera meðal fremstu ríkja álfunnar og samhliða efnahagslegum ávinningi höfum við knúið fram félagslegar framfarir sem eiga sinn þátt í þeirri velsæld sem við, nútíma Íslendingar, eru svo lánsamir að búa við.

Þáttur kvenna í þessum framförum hefur verið ríkur og mikilvægur. Óvíða er atvinnuþátttaka kvenna meiri en hér og við höfum verið og erum öðrum þjóðum fyrirmynd þegar kemur að jafnréttismálum, bæði hvað varðar lagalegt umhverfi og jafnrétti í reynd. Þar er lenging fæðingarorlofsins og jafn réttur foreldra oft nefndur, sem var komið á undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Þar sem ég hef fengið tækifæri til að ræða þessi mál á alþjóðavettvangi hef ég fundið hversu miklu við höfum að deila og hversu stolt við getum verið af þeim árangri sem við höfum náð.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt margar baráttukonur og brautryðjendur gegnum tíðina. Fyrsta konan á Alþingi, Ingibjörg H. Bjarnason, var félagi í Sjálfstæðisflokknum eftir að Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929. Auður Auðuns ruddi braut á mörgum sviðum, var fyrsta íslenska konan til að ljúka lögfræðiprófi, verða borgarstjóri og til að gegna embætti ráðherra. Það verður samt að segjast eins og er að þrátt fyrir þessar öflugu konur, sem vörðuðu leiðina í upphafi, eru myndir af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, langt fram eftir síðustu öld, mjög einsleitar. Baráttan tók langan tíma og kostaði mikla vinnu af hálfu þeirra kvenna sem tóku þátt í stjórnmálastarfi í víðum skilningi.

Ein þessara kvenna var Kristín L. Sigurðardóttir, fyrsti formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Hún taldi ekki eftir sér að taka að sér ýmis ábyrgðarstörf í félagsmálum, tók þátt í að stofna Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og sat þar í stjórn í mörg ár, var í stjórn Kvenréttindafélagsins og barðist fyrir byggingu Hallveigarstaða, svo eitthvað sé nefnt. Í viðtali sem Morgunblaðið tók við Kristínu  í tilefni 70 ára afmælis hennar var hún spurð út í félagsmálaþátttökuna og aðdraganda þess að hún var svo kjörin á þing árið 1949. Svarið var ósköp hógvært: „Það var með það eins og svo mörg önnur af þeim störfum, sem ég tókst á hendur, að ég fór í þau þegar ekki fékkst nein önnur“. Kristín sat á þingi til 1953, önnur tveggja alþingiskvenna á þessum tíma, og var varaþingmaður kjörtímabilið á eftir.

Ég kann Landssambandi sjálfstæðiskvenna miklar þakkir fyrir störf þess í gegnum áratugina. Það hafa komið tímabil þar sem umræða um að sameina félög kvenna almennu sjálfstæðisfélögunum hefur verið fyrirferðarmikil, en ég tel að sú staðreynd að LS og aðildarfélög þess eru enn í fullu fjöri sýni einfaldlega þörfina fyrir þennan vettvang, þótt sem betur fer sé ekki lengur um það að ræða að konur gefi kost á sér einungis vegna þess að „ekki fékkst nein önnur”. Enginn flokkur með sjálfsvirðingu teflir fram lista án þess að taka tillit til kynjasjónarmiða, enda er ljóst að fjölbreytni styrkir og gerir hvaða hóp sem er betri, hvort sem um er að ræða framboðslista, stjórnendur fyrirtækis eða ríkisstjórn. Ég hef því lagt ríka áherslu á að hafa jafnt hlutfall karla og kvenna í embætti ráðherra og hef skipað fleiri konur en fyrri formenn Sjálfstæðisflokksins samanlagt.

Sjálfstæðisflokkurinn á og hefur í gegnum tíðina átt margar öflugar konur í sveitarstjórnum og á þingi. Nú eru þær um helmingur fulltrúa okkar í sveitarstjórnum og getur enginn flokkur státað af betra hlutfalli. Á þinginu getum við samt sem áður gert mun betur. Af því tilefni langar mig að nefna þá augljósu staðreynd að kjörtímabilið er hálfnað og tíminn líður hratt! Það getur verið stór ákvörðun að hella sér út í stjórnmálin, en við þurfum á fleiri hægri konum að halda á Alþingi Íslendinga. Ég treysti því á liðsinni Landssambands sjálfstæðiskvenna, nú sem endranær, til að hvetja konur um land allt til að bjóða sig fram.

Greinin birtist sem lokaorð í Auði, blaði sjálfstæðiskvenna 6. nóvember 2019. Blaðið má nálgast hér.