Menntun – raunverulegt tæki til jöfnuðar

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Okk­ur Íslend­inga grein­ir á um margt, stórt og smátt. En við erum flest ef ekki öll sam­stiga í að tryggja öll­um jöfn tæki­færi til mennt­un­ar, óháð efna­hag og bú­setu. Í ein­fald­leika sín­um má segja að litið sé á mennta­kerfið með svipuðum hætti og heil­brigðis­kerfið. Við vilj­um standa sam­eig­in­lega að fjár­mögn­un þjón­ust­unn­ar. Ágrein­ing­ur­inn snýr frem­ur að því hvernig veita eigi þjón­ust­una, hvort og þá með hvaða hætti samþætta eigi rekst­ur á veg­um op­in­berra aðila og einkaaðila.

Í sjálfu sér er það rann­sókn­ar­efni að enn skuli rif­ist um verka­skipt­ingu hins op­in­bera og einka­fyr­ir­tækja, hvort held­ur á sviði heil­brigðisþjón­ustu eða mennt­un­ar. Íslensk heil­brigðisþjón­usta kemst ekki af án einka­rekstr­ar. Íslenskt mennta­kerfi er blóm­legra og öfl­ugra vegna sjálf­stætt starf­andi skóla – Ísaks­skóli, Hjalla­stefn­an, Versl­un­ar­skóli Íslands, Há­skól­inn í Reykja­vík, svo nokk­ur dæmi séu nefnd.

Fyr­ir þann sem hér skrif­ar hef­ur það valdið von­brigðum hversu illa hef­ur tek­ist að inn­leiða með skipu­leg­um hætti sam­keppni um þjón­ustu sem við höf­um tekið ákvörðun um að standa sam­eig­in­lega und­ir. Of marg­ir eiga erfitt með að gera grein­ar­mun á því hver veit­ir þjón­ust­una og hver greiðir fyr­ir hana. Ég hef oft­ar en einu sinni bent á að skyn­sam­legt sé fyr­ir þann sem greiðir (hið op­in­bera) að efna til sam­keppni milli þeirra sem hafa áhuga á að veita þjón­ust­una, hvort held­ur um er að ræða heil­brigðisþjón­ustu eða rekst­ur mennta­stofn­ana. Slík sam­keppni trygg­ir að öðru jöfnu lægra verð. Og fátt er betra fyr­ir þann sem nýt­ir sér þjón­ust­una en að keppt sé um viðskipt­in – að fleiri en einn og fleiri en tveir berj­ist um að fá viðkom­andi í viðskipti. Þjón­ust­an verður betri og nær því að upp­fylla þær þarf­ir sem fyr­ir hendi eru.

Að njóta hæfi­leika sinna

Birg­ir Kjaran [1916-1976], þingmaður, rit­höf­und­ur og hag­fræðing­ur, hélt því fram að æðsta tak­mark sam­fé­lags væri að veita „ein­stak­ling­un­um allt það frelsi, sem þeir þarfn­ast til þess að fá að fullu notið hæfi­leika sinna og mann­kosta“. Viðhorf Birg­is fang­ar vel þá hugs­un sem ligg­ur að baki sjálf­stæðis­stefn­unni og ein­stak­lings­frels­inu. Það er því ekki til­vilj­un að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi alla tíð lagt áherslu á mennta­mál. „Góð mennt­un er grund­vallar­for­senda jafnra tæki­færa og lyk­ill að lífs­gæðum ein­stak­linga, opnu sam­fé­lagi og er for­senda öfl­ugs at­vinnu­lífs og sam­keppn­is­hæfni,“ sagði m.a. í álykt­un lands­fund­ar á liðnu ári.

Varla deil­ir nokk­ur um þá staðhæf­ingu lands­fund­ar­full­trúa að hag­vöxt­ur, bætt lífs­kjör og sam­keppn­is­hæfni Íslands byggj­ast á mennt­un og vís­inda­starfi. Þess vegna er mennta­kerfið og skipu­lag þess ekki einka­mál fá­einna út­val­inna emb­ætt­is­manna eða inn­múraðra sér­fræðinga. Mennt­un er eitt mik­il­væg­asta viðfangs­efni alls sam­fé­lags­ins – sam­eig­in­legt verk­efni nem­enda, for­eldra, kenn­ara, launa­fólks og fyr­ir­tækja, kjör­inna full­trúa og emb­ætt­is­manna.

Það er sér­stakt fagnaðarefni að Sam­tök at­vinnu­lífs­ins [SA] taki af skarið með ít­ar­legri skýrslu og til­lög­um um skip­an mennta­kerf­is­ins; Mennt­un og færni við hæfi. Ekki er við því að bú­ast að all­ir tak­ir und­ir með SA en það er rétt sem Eyj­ólf­ur Árni Rafns­son, formaður sam­tak­anna, bend­ir á í ávarpi að ein af „stærstu áskor­un­um sem við stönd­um frammi fyr­ir í ís­lensku mennta­kerfi í dag er hvernig þróa þarf hlut­verk skóla­kerf­is og at­vinnu­lífs við að búa fólk und­ir tækni­breyt­ing­ar sem eru oft kennd­ar við fjórðu iðnbylt­ing­una“.

SA benda á að mennt­un auki færni starfs­fólks, ýti und­ir verðmæta­sköp­un og bæti þar með lífs­kjör allra. „Þetta á sér­stak­lega við á Íslandi enda er hlut­ur launa­fólks í verðmæta­sköp­un sam­fé­lags­ins hvergi hærri, eða 62%. Þetta hlut­fall er til dæm­is 55% í Nor­egi og 56% í Finn­landi.“

Spurn­ing um lífs­kjör

Skýrsla og til­lög­ur SA grund­vall­ast á eft­ir­far­andi full­yrðingu:

„Mennt­un hvers ein­stak­lings er ekki aðeins mik­il­væg fyr­ir hann sjálf­an held­ur fyr­ir lífs­kjör okk­ar allra.“

Með hliðsjón af eft­ir­far­andi staðreynd­um vilja Sam­tök at­vinnu­lífs­ins stytta grunn­skól­ann um eitt ár:

  • Ísland ver hærra hlut­falli lands­fram­leiðslu til grunn­skóla en nokk­urt annað þróað ríki, eða 2,33%.
  • Ísland er í 39. sæti á PISA.
  • Þýska­land ver 0,65% af þjóðarfram­leiðslu til grunn­skól­ans og er í 16. sæti PISA.
  • Íslensk­ir grunn­skóla­nem­end­ur eru í skóla 180 daga á ári en utan skóla í 185 daga.

SA full­yrða að tæki­færi séu til þess að stytta grunn­skóla­göngu ís­lenskra nem­enda en á sama tíma auka gæði náms­ins, með fjölg­un kennslu­daga um 17 á ári. Sum­ar­fríið sem nú er um 10,5 vik­ur verði sjö vik­ur. „Mjög löng sum­ar­frí, eins og þau sem tíðkast hér á landi, hafa slæm áhrif á náms­ár­ang­ur barna, sér­stak­lega þeirra sem eiga for­eldra með lægri tekj­ur eða er­lent móður­mál,“ seg­ir í skýrsl­unni.

SA ganga út frá því að fram­lög til grunn­skól­ans lækki ekki þrátt fyr­ir stytt­ingu náms­ins:

  • Fram­lag á hvern nem­anda hækk­ar um 10%, eða um 182 þúsund krón­ur á ári.
  • Hægt er að hækka laun kenn­ara um­tals­vert án auk­ins kostnaðar.

Rétt er að viður­kenna að þegar tek­in var ákvörðun um stytt­ingu fram­halds­skól­ans var ég full­ur efa­semda enda væru þar að baki veik­b­urða rök. Þótt enn sé of snemmt að dæma um ár­ang­ur­inn er ým­is­legt sem bend­ir til að breyt­ing­in hafi verið skyn­sam­leg.

Stytt­ing náms get­ur hins veg­ar ekki verið sjálf­stætt mark­mið. Aðal­atriðið – það sem öllu skipt­ir – er að tryggja gæði náms og fjöl­breyti­leika þannig að nem­end­ur geti ræktað hæfi­leika sína og áhuga. Um leið má í engu hvika frá því mark­miði að mennta­kerfið byggi á jafn­rétti, þar sem nem­end­um er boðið nám og kennsla við hæfi og þeir eigi kost á að spreyta sig á viðfangs­efn­um sem hug­ur þeirra og geta stend­ur til.

Öflug­asta tæki sam­fé­lags­ins

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins rök­styðja stytt­ingu grunn­skól­ans og full­yrða að með auknu fram­lagi á hvern nem­anda sé hægt að auka gæði náms­ins og styrkja stöðu kenn­ara. Rök­in eru sterk. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að grunn­skól­ar eru í sam­keppni um gott starfs­fólk við aðra vinnustaði: „Ef ekki er hægt að bjóða sam­keppn­is­hæft starfs­um­hverfi og laun, þá verða grunn­skól­arn­ir und­ir í þeirri sam­keppni.“

Skýrsla SA snýr ekki aðeins að grunn­skól­an­um held­ur einnig að öðrum skóla­stig­um. Sam­ein­ingu há­skóla, efl­ingu iðn- og tækni­náms. Hér eru ekki tök á að fara yfir þá hluta skýrsl­unn­ar en þó verður ekki hjá því kom­ist að vekja at­hygli á til­lögu – stefnu SA þegar kem­ur að leik­skól­um:

„Í sam­fé­lagi jafnra tæki­færa ættu for­eldr­ar að geta valið hvernig þau haga fjar­veru frá vinnu­markaði vegna barneigna og því þarf að tryggja að úrræði séu til staðar frá þeim tíma er fæðing­ar­or­lofi lýk­ur. Það stuðlar að jafn­ari laun­um kynj­anna, eyk­ur hlut kvenna í stjórn­un­ar­stöðum og ger­ir þeim kleift að sækja fram á fleiri sviðum.“

Jafn­rétti til náms er ekki aðeins þjóðhags­lega skyn­sam­legt – arðvæn­legt efna­hags­lega og fé­lags­lega. Mennt­un er öfl­ug­asta tæki sam­fé­lags­ins til að stuðla að jöfnuði og gefa ungu fólki tæki­færi. Við Íslend­ing­ar get­um haldið áfram að ríf­ast um skatta og gjöld, skipu­lag eft­ir­litsiðnaðar­ins, rík­is­rekst­ur fjöl­miðla, áfengi í búðir og ramm­a­áætlan­ir. Ágrein­ings­efn­in er fjöl­mörg. En við hljót­um að ná sam­an um að nýta öfl­ug­asta jöfn­un­ar­tækið – mennta­kerfið – til hags­bóta fyr­ir alla óháð efna­hag eða bú­setu. Ekki síst vegna þessa er skýrsla Sam­taka at­vinnu­lífs­ins mik­il­vægt fram­lag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2019.