Frelsisverðlaun SUS

Frelsisverðlaun Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) voru veitt við hátíðlega athöfn þann, 6. nóvember. Frá árinu 2007 hefur það verið fastur árlegur liður hjá SUS að veita þeim verðlaun sem hafa lagt sitt af mörkum við að auka frelsi á Íslandi. Þetta er því í þrettánda sinn sem SUS veitir þessi verðlaun.

SUS fagnar öllu góðu einkaframtaki og á það vel við um þann lögaðila sem að stjórn SUS veitti verðlaunin í ár. Heilbrigðisþjónusta er engin undantekning á þeim þjónustuþáttum sem einstaklingar eru vel færir um að veita og hefur Björkin sýnt það í verki.

Björkin var stofnuð af ljósmæðrum árið 2009 og veitir alhliða þjónustu við verðandi og nýja foreldra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Var þetta svar við því að á síðustu árum hefur fæðingarstöðum á landinu verið að fækka, þá sérstaklega á landsbyggðinni, og valkostum verðandi foreldra hefur fækkað sömuleiðis.

Björkin ákvað að svara því kalli að verðandi foreldrar hefðu val um fæðingarstað sem mætir þeirra þörfum. Fyrir utan aukið valfrelsi er fæðingarþjónusta utan sjúkrahúss hagkvæmari kostur, en með því eru dýr sjúkrahúsrými spöruð.

Björkin er því skólabókardæmi um þá kosti sem fylgja fjölbreyttum rekstrarformum og auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu en með því er hægt að ná fram aukinni hagkvæmni, betri upplifun skjólstæðinga og auknu valfrelsi.

Frelsi einstaklingsins snýr ekki bara að frelsi hans til athafna, heldur líka frelsi til ákvarðana í málum sem varða hans persónu og persónulegu hagi. Eins mikilvægt og frelsi til að gera ákveðna hluti er, þá er frelsi frá afskiptum og ónæði álíka mikilvægt. Sá einstaklingur sem stjórn SUS veitti verðlaunin í ár hefur barist lengi fyrir því sem við viljum vil kalla “frelsi frá hnýsni”.

Björgvin Guðmundsson hefur gripið til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir að vegið sé að friðhelgi einkalífsins, eins og gert hefur með opinberri birtingu upplýsinga um tekjur einstaklinga sem unnar eru úr skattframtölum. Sumarið 2018 kvartaði Björgvin til Persónuverndar að stjórnvöld tækju saman og birtu „hákarlalistann“ svokallaða og í október kærði hann birtingu tekjuupplýsinga allra Íslendinga á vefsíðunni tekjur.is. Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu að birtingin væri óheimil og var síðunni tekjur.is lokað í kjölfarið. Í maí á þessu ári náðist svo sá áfangasigur að Ríkisskattstjóri tilkynnti að hann myndi ekki birta hákarlalistann framar.