Einfaldara regluverk fyrir fólk og fyrirtæki
'}}

„Þetta frumvarp er aðeins fyrsti liðurinn í þeirri vegferð að búa atvinnulífinu eins gott regluverk og mögulegt er svo kraftar þess fari fyrst og fremst í að framleiða góða vöru og þjónustu og að efla samkeppnishæfni sína, en ekki í að reyna að synda í gegnum frumskóg regluverksins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á Alþingi í dag. Þar lagði hún fram frumvarp sem á að tryggja einfaldara regluverk fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.

Lagt er til að fella á brott 16 lagabálka ásamt því að lög um verslunaratvinnu verði einfölduð og lög um samvinnufélög verði breytt til hægðarauka fyrir atvinnulífið.

Í frumvarpi ráðherrans er lagt til að afnema fjölda leyfisveitinga, t.d. að skráningu verslana verði hætt, að leyfi til sölu notaðra ökutækja verði felld brott og að iðnaðarleyfi verði felld brott.

Regluverkið fyrir atvinnulífið á Íslandi er meira íþyngjandi og flóknara en annars staðar og því þarf að breyta. Sjálfstæðisflokkurinn vill greiða götu fólks sem grípur tækifærin og heldur úti rekstri víðsvegar um landið, einfalda lög og reglur ásamt því að gera stjórnsýsluna skilvirkari.

Hér má finna nánari upplýsingar um frumvarpið.