Blað sjálfstæðiskvenna gefið út

Nafn blaðsins afhjúpað á þriðjudag

Erla Tryggvadóttir er ritstjóri blaðs sjálfstæðiskvenna sem kemur út á miðvikudag, þann 6. nóvember nk. Blaðið er gefið út í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og er tileinkað konum. Erla, sem á fjölbreyttan feril að baki –starfaði m.a.  áður í útvarpi og sjónvarpi hjá RÚV – sló ekki hendinni á móti því að fá að stýra blaðinu fyrir Landssamband sjálfstæðiskvenna (LS) þegar til hennar var leitað.

Hvað lagðir þú upp með þegar þið fóruð af stað með blaðið?

„Við vildum sýna breiddina af sjálfstæðiskonum í nútíð og fortíð. Við rifjum upp sögu sjálfstæðiskvenna og þeirra kvenna sem ruddu brautina — en við horfum einnig til framtíðar og ræðum við kröftugar konur úr atvinnulífinu. Konur sem hafa sterkar skoðanir og liggja ekki á sínu.  Svo ræðum við auðvitað um margvísleg mál við kjörna fulltrúa okkar. Það er óhætt að segja að blaðið sé mjög fjölbreytt og skemmtilegt.“

Þið talið um blað Sjálfstæðiskvenna, hefur blaðið ekki nafn?

„Jú, nafnið er komið — og við erum mjög ánægðar með það. Við leituðum um nafn til kvenna í trúnaðarhópi Sjálfstæðiskvenna sem voru fljótar að koma með tillögur sem urðu okkur að innblæstri. Við ætlum að svipta hulunni af nafninu á þriðjudag. Fylgist því vel með.“

Var eitthvað sem kom þér á óvart við gerð blaðsins?

„Það var mjög gaman að vinna þetta blað. Í raun einstakt að rifja upp söguna og sjá hversu mikið kvennabaráttan er samofin sögu sögu Sjálfstæðisflokksins. Helstu brautryðjendur á síðustu öld komu úr röðum Sjálfstæðisflokksins, má þar nefna Ingibjörgu H. Bjarnason, Guðrún Lárusdóttur og Auði Auðuns. Þær ruddu svo sannarlega brautina og eru einstakar fyrirmyndir. Ég varð fyrir miklum innblæstri við að rifja upp sögu þessara kraftmiklu kvenna.  Mér fannst líka gaman að tala við allar þessar mögnuðu konur úr íslensku atvinnulífi. Við getum verið stolt af konunum okkar.“

Hvar verður svo hægt að fá blaðið?

„Blaðinu verður dreift á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri á miðvikudag. Einnig verður hægt að nálgast blaðið rafrænt á vef Sjálfstæðisflokksins.“

Erla er stjórnmálafræðingur að mennt og með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði.  Hún leggur nú stund á MBA nám við Háskólann í Reykjavík. Samhliða náminu starfar hún hjá fjárfestingafélaginu Stekk.

Skyldi það ekki kitla Erlu að snúa aftur í fjölmiðla nú þegar hún  hefur fengið smjörþefinn af starfinu á nýjan leik?

„Það er alltaf gaman að miðla sögum — hvort sem það er í útvarpi, sjónvarpi eða á prenti. Ég hef mjög gaman af því — og það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. En ég er mjög ánægð þar sem ég er í dag — og það er nóg að gera!“

Erla hefur alla tíð tekið ríkulegan þátt í félagsstarfi, hún var viðloðandi starf Sjálfstæðisflokksins á háskólaárunum og var í stjórn Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, varaformaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík og í ritstjórn vefritsins tíkarinnar (tikin.is) sem eflaust margir muna eftir. Þar létu ungar hægri konur gamminn geisa. Þá var hún í stjórn Politicu, félags stjórnmálafræðinema, og í ritstjórn Stúdentablaðsins. Eftir stjórnmálafræðina hélt Erla utan og starfaði sem starfsnemi fyrir fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Þegar heim var komið starfaði hún meðal annars hjá RÚV og Straumi, fjárfestingabanka —  svo stofnaði hún fjölskyldu og eins og margir þekkja gafst minni tími til félagsmála.

En þú tókst sæti í varastjórn LS fyrir ári síðan eftir hlé frá þátttöku, hvað kom til og hvers vegna LS?

„Í rauninn hef ég saknað þess að taka þátt í pólitísku starfi. Þegar maður brennur fyrir það að bæta samfélagið er pólítísk þátttaka mjög góð. Mér fannst LS búið að vera mjög öflugt undir vaskri stjórn Völu Pálsdóttur og mig langaði að starfa með henni — og leggja mitt á vogarskálarnar. Starf LS er í reynd kjörinn vettvangur fyrir konur til að verða þátttakandi í pólitísku starfi, hvort sem er á nýjan leik eða koma ný inn í starfið.“